15.11.1934
Efri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Þetta mál er búið að vera nokkuð lengi hjá fjhn. Ég ætla ekki að afsaka dráttinn, sem orðið hefir á því, að n. skilaði áliti sínu. En þó má benda á það, að n. hefir haft mörg mál til meðferðar og er búin að afgr. mörg þeirra. Ennfremur tafði það afgreiðslu þessa máls, að n. taldi sjálfsagt að leita umsagnar þeirra aðila, sem þetta skiptir mestu og hafa mest með þessi mál að gera. N. sendi því frv. til stjórna bankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, og ennfremur til Verzlunarráðs Íslands og Sambands ísl. samvinnufélaga, og leitaði umsagnar þessara aðila um frv. Það hefir dregizt, að þessir aðilar sendu umsagnir sínar, og hefir drátturinn á málinu meðfram stafað af því. Auk þess, sem leitað var umsagna þessara aðila, hélt n. fund með bankastjórum þessara banka um þetta mál fyrir nokkru, og voru einnig á þeim fundi menn úr fjhn. Nd. Þau svör, sem n. hefir fengið frá þessum aðilum, eru misjöfn, eins og vænta mátti. Eins og menn sjá af fskj. því, sem prentað er með nál. meiri hl. fjhn., er Landsbankinn með málinu. Samband ísl. samvinnufélaga mælir líka eindregið með málinu, en verzlunarráð Íslands heldur fram annari skipun þessara mála, þó að það gangi inn á annan aðalþátt málsins, og geta menn séð grg. þess í nál. minni hl. n. á þskj. 424, því þar er það prentað sem fskj. með nál. En eins og nál. meiri hl. á þskj. 383 ber með sér, þá er fjhn. ekki sammála um þetta mál. Meiri hl., hv. 4. landsk. og ég, leggur til, að frv. verði samþ. með breyt. þeim, sem standa í nál. En minni hl., hv. 1. þm. Reykv., virðist hallast að því, að frv. verði samþ., en með víðtækari breyt. en við viljum fallast á. Eins og stendur í áliti hans, tjáir hann sig með því að fella niður úr frv. allar hömlur á innflutningi vara, en vill halda gjaldeyrisskömmtuninni, og er skoðun hans í samræmi við álitsskjal verzlunarráðs Íslands. Meiri hl. n. getur játað, að slíkar ráðstafanir, sem frv. ætlast til, séu neyðarúrræði og eigi ekki við heilbrigða tíma, en við lítum svo á, að ekki verði komizt hjá því að gera þessar ráðstafanir. Eins og allir vita, var viðskiptajöfnuður Íslendinga óhagstæður síðastl. ár, og má búast við greiðsluörðugleikum fyrir þjóðina í heild. Það sýnist því sjálfsagt fyrir þjóðarheildina að láta nauðsynlegan innflutning sitja fyrir, og hafa þar af leiðandi hömlur á því, hvaða vörur eru fluttar til landsins. Þessar hömlur og þetta eftirlit þarf að vera eins sterkt og gert er ráð fyrir í frv. Í annan stað kannast allir við það, og er vikið að því í áliti Verzlunarráðs Íslands og játað þar, að eins og nú er ástatt gera samningar okkar við útlend ríki það nauðsynlegt, að hægt sé að beina innflutningi og útflutningi okkar til ákveðinna ríkja. Því er haldið fram, að þetta sé hægt að gera með gjaldeyrisráðstöfunum einum, en til þess að fullt öryggi fáist, þá tel ég, að nauðsynlegt sé að hafa sérstakt eftirlit með innflutningi vorum.

Ég tel óþarft að fara út í að ræða málið almennt. Þetta mál er ekki nýtt hér í þinginu, og tel ég að almennar umr. hafi ekki mikla þýðingu, enda eiga þær ekki við við þessa umr., þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir, að rædd séu einstök atriði.

Eins og sjá má af nál. meiri hl. fjhn., flytur hann tvær brtt. við frv., og eru þær í samræmi við þær aths., sem fram komu frá bankastjórunum á fundi þeim, sem ég gat um. Með fyrri brtt. er lagt til að orða um. 1. málsl. 1. gr. og fella niður það ákvæði, „að bönkunum sé skylt að hlíta þeim reglum um gjaldeyrisverzlunina, sem fjmrh. setur“. Það er óþarfi að taka þetta sérstaklega fram eins og gert er í frv. Ákvæðið um, að ráðh. setji með reglugerð nánari fyrirmæli um gjaldeyrisverzlunina, ná til þessa, og geta bankarnir ekki verið hafnir yfir þá reglugerð. - Með annari brtt. okkar er lagt til að orða um 2. gr. frv. og gerir brtt. breyt. á frv. í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi er svo tiltekið, að erlendum gjaldeyri sé úthlutað eftir reglum, samþ. af bönkum þeim, sem fulltrúa eiga í gjaldeyrisnefnd. En eftir frv. var gert ráð fyrir að þetta væri algerlega á valdi n. Raunverulega er hér ekki um efnisbreyt. að ræða, þó svo geti litið út á pappírnum.

Þá kem ég að 2. atriðinu í till., en það er um það, að leyfi þurfi eigi til þess að inna af hendi erlendar greiðslur af lánum ríkissjóðs og lánum þeim, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, eða fyrir greiðslum erlendis í þarfir bankanna. það er ekki hægt að sjá, að það sé eðlilegt, að ríkisstj. þurfi að fá leyfi n., sem hún hefir sjálf skipað, til þess að inna af hendi skuldbundnar greiðslur, og hvað bankana snertir verður að líta svo á, að þeim sé algerlega treystandi í þessu efni.

Þegar að því kom að afgreiða málið úr n., stóð svo óheppilega á, að ég var veikur, og gátum við nm. í meiri hl. ekki borið okkur saman sem skyldi eftir að n. hafði klofnað. Mætti því hugsast að fleiri brtt. hefðu komið fram, ef við hefðum getað unnið meira saman, og má vera, að þær komi einhverjar fram við 3. umr. málsins.