15.11.1934
Efri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Eins og getið er um í nál., er ég sammála meiri hl. um brtt. þær, sem hann hefir borið fram, og hefi enga ástæðu til þess að fara að mæla með þeim, þar sem frsm. meiri hl. hefir gert þær að umtalsefni. En ég skal aðeins taka það fram, að ég vil leggja afarsterka áherzlu á 2. brtt., en hún er um það, að ríkið og bankarnir þurfi ekki leyfi gjaldeyrisnefndar til að inna af hendi samningsbundnar greiðslur. Ég vil bæta því við, að slíkt ákvæði í l. gæti eyðilagt aðstöðu bankanna til þess að fá erlend lán, því sú aðstaða á auðvitað að byggjast á því, að þeir séu sjálfráðir gerða sinna og þurfi ekki að sækja undir annað vald. Þessi breyt. er alveg nauðsynleg. Þetta væri alveg hliðstætt því, sem komið hefir fyrir hér áður, að heimild til lántöku hefir verið bundin því skilyrði, hvernig ætti að verja láninu, en það fékkst auðvitað ekki, því að engin erlend lánstofnun gat haft eftirlit með því, hvernig fénu var varið, en ef fénu var ekki réttilega varið, var hætta á því, að heimildin væri úr gildi felld.

Ágreiningurinn milli mín og hv. meiri hl. n. er um það, hvað mikið þurfi að gera til þess að tryggja það, sem tryggja á með þessu frv. En það er tvennt, í fyrsta lagi, að greiðslujöfnuðurinn verði ekki svo óhagstæður, að gjaldeyrisfali verði, og í öðru lagi að tryggja stj. nægilegt vald til þess, að hún geti framkvæmt þá verzlunarpólitík, sem heppileg er og með þarf. Ágreiningurinn er um það, hvað þurfi að gera til þess að þetta tvennt sé í hendi stj. Ég fyrir mitt leyti álít, að eigi þurfi nema gjaldeyrishömlur. Ég hefi eigi borið fram, að þessu sinni, neinar sérstakar brtt. í þessa átt, því að það er naumast unnt fyrr en séð er fyrir afdrif brtt. á þskj. 383. Ég mun því eigi koma fram með brtt. fyrr en við 3. umr., og þess vegna ekki innleiða langar umr. nú. Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki málið ekki fyrr á dagskrá en það, að mér gefist tækifæri til að vinna að þessum brtt., því að það þarf þó nokkuð vandlega yfirferð yfir frv. til þess að nema burt úr því það, er ég tel þar miður komið. - Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta.