17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og ég gat um við 2. umr. málsins, er ég sammála öðrum hv. nm. um 2 atriði, sem snerta þetta mál. Það fyrra er, að vernda beri okkar gjaldeyri frá falli, a. m. k. óeðlilegu falli, vernda hann frá því að komast úr þeim tengslum við pundið, sem hann hefir verið í nokkuð mörg undanfarin ár. Ég hefi alltaf verið andvígur stífingu gjaldeyris og vildi þess vegna taka þátt í ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að leita annara ráða en gengisfalls til þess að greiða úr þeim örðugleikum, sem verið hafa með greiðslujöfnuð við útlönd.

Hitt atriðið, sem ég er sammála hv. meðnm. mínum um, er það, að það beri og verði að fá hæstv. stj. í hendur einhver ráð til þess að beina verzluninni í þær áttir, sem heppilegast og bezt er, bæði samkv. samningi og eðlilegum viðskiptum, eins og nú horfir við.

Það, sem ég er aftur á móti ósammála hv. meðnm. mínum um, er það, hve mikið þurfi og hve mikið sé hægt að gera í þessu skyni. Ég álít, að það verði að gera hvorttveggja, að vernda gjaldeyrinn frá því að falla niður úr tengslum við pundið, og líka að beina verzlunarviðskiptunum í rétta átt, og það er hægt að gera án þess að hafa innflutningshöft á erlendum varningi, sem til landsins flyzt, eða m. ö. o. með því að hafa sterkan hemil á gjaldeyrinum annarsvegar og gera hinsvegar peningapólitíkina í landinu þannig, að styðja okkar gjaldeyri. Ég hefi þess vegna breytt þessu frv., sem hér liggur fyrir, borið fram brtt., sem fer í þá átt, að úr því verði tekið allt, sem snertir innflutningshömlur á erlendum vörum. Ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir því, hve lítinn skurð þarf að gera á þessu frv. til þess að koma þessu fram. Það þarf aðeins að nema smáklausu á burt úr 2. gr. frv. til þess að það breytist að þessu leyti. En brtt. eru næstum allar um breyt. nafns á nefndinni, að „gjaldeyris- og innflutningsn.“ verði breytt í „gjaldeyrisnefnd“. Auk þessa má minnast á brtt., sem ekki eru þessi máli beinlínis viðkomandi, t. d. um fækkun nefndarmanna. - 2 menn skulu skipaðir af bönkunum og 1 af ráðh. Það sé ekki þörf fyrir 5 manna nefnd, ef gjaldeyrisráðstafanir einar sé um að ræða, og þá sé sjálfsagt, að bankarnir hafi yfirhöndina. Ég lít svo á, að form. sá, sem skipaður er af ráðh., sé þar frekar fulltrúi ríkisstj. til eftirlits á aðgerðum n. sem einskonar milliliður milli bankanna og ríkisstj. um þessi mál. Annað mál er það, ef n. er gerð fjölmennari, þar sem henni er ætlað meira starf. Ég er í dálitlum vafa um, hvort ætti að breyta einstökum atriðum í samræmi við þetta, eins og t. d. í 3. gr., þar er talað um að senda skýrslur til n. Mér finnst ekki ástæða til þess að fella þetta niður, því að þetta er nauðsynlegur fróðleikur fyrir gjaldeyrisn., til þess að hún geti fylgzt vel með innflutningnum.

Ég skal ekki ræða um það, hvort þessar ráðstafanir - gjaldeyrisráðstafanir - nægja einar til þess að ná þeim tilgangi, sem hér um ræðir. Prentað fskj., umsögn Verzlunarráðs Íslands, fylgir, sem mér er sagt, að sé skrifað af fróðum manni í þessum efnum, dr. Oddi Guðjónssyni, sem hefir gert verzlunarjöfnuð landsins að sérstöku efni í doktorsritgerð sína og hefir sérstaklega með námi sínu kynnt sér þau lögmál, sem hér eru að verki um greiðslujöfnuð milli landa. Hann hefir að vísu sagt mér, að hann hefði gengið öðruvísi frá þessari ritgerð, ef hann hefði haft lengri tíma. En breyt. er samt engin í niðurstöðunni.

Það, sem hér hlýtur að skipta mestu máli, er það, að bankarnir og það opinbera hafi tök á gjaldeyrinum. Það er nóg til þess að tryggja eins og hægt er, að gjaldeyririnn falli ekki. Það hefir stundum komið fyrir óeðlileg „spekulation“ með gjaldeyrinn. Það gæti farið svo, að menn, sem hafa gjaldeyri, gætu selt hann með hærra verði og fellt þannig íslenzka gjaldeyrinn, ef þeir ráða yfir sínum gjaldeyri. Með því móti yrði gengi íslenzku krónunnar óeðlilega hátt hjá bönkunum og gæti valdið því, að gjaldeyrisverzlunin kæmist úr höndum bankanna og yrði viðskipti manna á milli. Þannig fór fyrir áratug síðan, þegar reynt var að halda óeðlilegu jafngengi milli Íslands og Danmerkur. Viðskiptin fluttust þá úr bönkunum. Þess vegna er nauðsynlegt, að a. m. k. gjaldeyrisverzlunin gangi í gegnum bankana. Þetta kemur að vísu fram sem stórkostlegur skattur á þeim, sem þennan gjaldeyri eiga og gætu fengið meira verð fyrir hann með því að selja hann banka. En þetta er gert út frá þeirri skoðun, að fall gjaldeyris, sem gæti orðið óeðlilega mikið, ef það er byrjað á annað borð, sé þjóðaróhamingja, og það réttlæti kvöð þá, sem lögð er á útflytjendur eða eigendur erlends gjaldeyris. Þetta verkar í rauninni sem innflutningshöft líka. Aðeins í þá átt, að það þarf ekki í hverju tilfelli að stinga með títuprjónum. Og það er af þeim orsökum, að allar erlendar verzlanir, sem máli skipta, vita vel um þessar hömlur og senda því ekki vörur hingað, nema viðskiptamenn þeirra geti gert það svo sennilegt, að þeir fái gjaldeyrisleyfi, að erlenda firmað vilji senda vörurnar. Hver innlend verzlun, sem ætlar að greiða vörur sínar, verður að fá gjaldeyrisleyfi. Þeir, sem ekki fá það, verða vanskilamenn. Þau firmu, er senda vörur til þeirra verzlana, sem ekki fá gjaldeyrisleyfi, tapa á því, og gróði sá, sem innlendar verzlanir hefðu af slíkum viðskiptum, kæmi skjótt óorði á þær. Slíkt væru gálausra manna viðskipti, þar sem allir tapa, en enginn græðir. Engir kaupsýslumenn láta sér heldur detta í hug viðskipti við útlönd án þess að tryggja sér gjaldeyri. Hinsvegar verður auðvitað ekki hægt með öllu að fyrirbyggja, að óheiðarleg viðskipti landa í milli geti átt sér stað á þann hátt, að vörur séu fengnar, þótt gjaldeyrir sé ekki fyrir hendi. Því er ástæðulaust fyrir ríkið að vera að grípa inn í þessi viðskipti á annan hátt en með gjaldeyrishömlum, enda hafa flestar þjóðir látið sér nægja þær einar. Þær hafa líka þann kost fram yfir innflutningshöft, að þær er hægt að framkvæma svo að segja til hlítar. Að vísu verður aldrei hægt að elta uppi hvert pund, en þær er hægt að framkvæma svo, að það skipti engu máli, sem framhjá fer.

Um innflutningshöftin skiptir allt öðru máli, ekki síst þar sem við erum samningsbundnir öðrum þjóðum um innflutning. Þegar svo var komið, hefðu í rauninni allar raddir um innflutningshöft átt að þagna. Þessar þjóðir geta tekið á móti öllum okkar peningum og velt okkar gjaldeyri um koll, ef þeim býður svo við að horfa. Og það mun áreiðanlega vekja óánægju hjá öðrum þjóðum, að bannaður sé innflutningur á vörum frá sumum þjóðum, en leyfður frá öðrum. Það er t. d. líklegt, að aðalviðskiptaþjóðum vorum, eins og Bretum og Þjóðverjum, þyki hart, að bannaður sé innflutningur á vörum frá þeim. Því leiðir ekki annað af innflutningshöftunum en amstur og leiðindi, enda engin þörf á þeim við hliðina á þeim gjaldeyrishömlum, sem nú eru.

En þær ráðstafanir, sem felast í lögunum um gjaldeyrishömlur til þess að hindra, að gjaldeyrir verði að spekulationsvöru, eru ekki einar nægar til að vernda gjaldeyrinn. Til þess verður líka fjárstjórnin innanlands að gera sitt. Hún verður að draga úr þeirri óeðlilega greiðslujöfnuði eins og mögulegt er, og það verður vitanlega ekki gert með eingöngu gleðilegum ráðstöfunum. En það er augljóst, að bankar og ríki verða að taka höndum saman í þessu efni. Bankarnir verða að halda í féð eins og undanfarið, en þar hafa bankarnir beitt eins sterkum tökum og hægt er. Og ríkið verður að fara gætilega, auka hvorki skuldir við útlönd né ósýnilegar greiðslur þangað og geta greitt afborganir sínar auðveldlega.

Ég býst nú við því, að stj. og flokkar hennar hafi bitið sig svo föst í innflutningshöftin, að þau nái fram að ganga. En af því að ég lít svo á, að þau séu alveg ónauðsynleg og til ills eins, hefi ég ekki viljað láta málið fara svo út úr d., að ég hreyfði ekki mótmælum.