17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég þarf mjög fáu að svara hv. frsm. meiri hl., án þess að ég þar með geri neitt lítið úr ræðu hans. Hann heldur fram þeim málstað, sem er kunnur og ég minntist á í minni fyrri ræðu. Hv. frsm. hélt því fram, að það væri ekki rétt hjá mér, að aðrar þjóðir beittu aðeins gjaldeyrisráðstöfunum. Ég held nú samt, að þetta sé rétt hjá mér. Ég veit ekki til, að í nokkru landi séu innflutningshöft í því skyni að bæta verzlunarjöfnuðinn, en margar þjóðir hafa komið upp hjá sér svo kallaðri fótaaðferð, sem er í því falin að leyfa ákveðnum þjóðum ákveðið magn innflutnings í verzlunarpólitísku skyni, og náttúrlega þá um leið til þess að bæta sinn verzlunarjöfnuð, en það eru alls ekki innflutningshöft neitt svipuð því, sem hér um ræðir, heldur samningsatriði milli ákveðinna þjóða um ákveðnar vörur.

Hv. frsm. líkti innflutningshöftunum við herbúnað annara þjóða. Ég er sammála honum um það, að það eru ýmiskonar neyðarúrræði til, sem menn verða að grípa til og sætta sig við, og ég fyrir mitt leyti álít svona hömlur algert neyðarúrræði, sem stafar af þessum vandræðum, sem við verðum að dansa með í, ekki aðeins vegna annara þjóða, heldur að ýmsu leyti vegna ofrausnar okkar sjálfra á undanförnum árum. - Það er satt, að ég var einu sinni á móti öllum höftum, líka gjaldeyrishöftum, meðan ástandið var miklu skárra heldur en nú. Menn hafa nú verið að káka við allskonar höft á annan áratug, sem reynzt hafa meira og minna þýðingarlaus. En ég sé eins og nú er komið, að við verðum af þessum tveim ástæðum, sem ég gat um í fyrri ræðu minni - að hafa tök á gjaldeyrinum bæði í verzlunarpólitísku skyni og til þess að vernda okkar gjaldeyri.

Hv. frsm. minntist á það, sem ég einnig hafði talað um í minni fyrri ræðu, að náttúrlega væru möguleikar til þess að flytja inn vörur án gjaldeyrisleyfis. Ef einhver á gjaldeyri eða fær einhvern til þess að lána sér vörur erlendis, getur hann fengið þær fluttar inn. En hv. frsm. bætti því við, að ef þetta væri efnaður maður, sem ætti inni í bönkunum, mundi honum þykja hart, ef honum væri neitað um yfirfærslu á peningum til greiðslu á þessum vörum. Ég játa, eins og ég gerði áðan, að það getur komið fyrir, að menn fái vörulán hjá firmum, sem annaðhvort eru óprúttin eða ókunnugt um, að menn geta alls ekki, ef þessi 1. eru samþ., greitt vöruna, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, nema með leyfi gjaldeyrisnefndar. Þetta getur komið fyrir, ef sameinast gálaus verzlunarrekstur utanlands og innan, og þá getur slíkt leitt til og á að leiða til vanskila. En hvað snertir gjaldeyri og þjóðarhag gerir þesskonar mjög lítið til. Það er svo yfirleitt um stærri vörutegundir, að það eru ákveðin firmu, sem flytja þær inn, og jafnvel þeir, sem verzla með þessar vörur í stórum stíl, verða að fá þær gegnum þessi verzlunarhús, og hefir það fram að þessu verið framkvæmt þannig, að staðið hefir verið við gerða samninga. Kolakaupin hér hafa t. d. verið framkvæmd þannig, að stj. hefir náð góðu og skýlausu samkomulagi við þau firmu, sem flytja kolin inn, um að skipta sínum innflutningi eftir því, sem um er talað, og hefir ekki þurft nein l. eða þvingunarráðstafanir til þess. En ef hinsvegar færi að bera á því, að firmu utanlands og innan væru svo heimsk að gera þetta, mætti náttúrlega fela n. að hafa með höndum innflutning á þessum fáu vörutegundum. En það er ekkert vit að setja almenn innflutningshöft fyrir hvern hlut aðeins af því, að við þurfum að flytja inn 70% af okkar kolum frá Englandi - Hv. frsm. sagði, að ef maður ætti peninga í banka og hefði keypt vörur, mundi honum þykja hart, ef hann fengi ekki yfirfært. Það þykir nú margt hart. Það þykir hart, þegar bankarnir vilja ekki kaupa 500 kr. víxil með mönnum á, sem vitanlega ráða yfir tugum þúsunda. Þetta sýnir bara, hvað viðskiptin eru treg. Bankarnir segja: Þú átt þessa peninga og þú færð þá, þegar þú þarft á þeim að halda, en það er bara ekki hægt að veita yfirfærslu.

Þá vildi hv. frsm. gera minna úr áliti þessa sérfræðings af því að bankarnir væru náttúrlega sérfræðingar í þessu líka. Það voru báðar fjhn. á fundi um þetta mál með bönkunum, og ég varð ekki var við, að þeir skiptu sér af neinu nema því sem beinlínis snerti þá. Landsbankinn hefir í bréfi til fjhn. tjáð sig fylgjandi megintilgangi frv., hinn bankinn hefir ekki sent neitt álit, og á fundinum var ekki minnzt einu orði á innflutningshöftin. Bankarnir vildu aðeins tryggja það, að þeir gætu yfirfært án gjaldeyrisleyfis, og komu með fleiri þarfar og góðar aths., sem nú eru komnar inn í l. En hitt er annað mál, hvað bankastjórarnir mundu segja, ef þeir væru beinlínis spurðir að þessu. Þá væri freistandi fyrir þá að segja heldur of en van. Þeir vildu náttúrlega gera allt, sem verður til þess að hindra heldur þau viðskipti, sem vitaskuld er bezt fyrir greiðslujöfnuðinn, að séu nokkuð stirð.

Við erum sammála um það, að þetta sé vandræðaúrræði, að þurfa að gera þessar ráðstafanir, að setja bæði innflutningshöft og gjaldeyrishöft. Hv. frsm. álítur þörf á báðum þessum ráðstöfunum, en ég held, að ekki þurfi nema gjaldeyrishöftin, og stendur þarna náttúrlega bara orð á móti orði. Við erum sammála um megintilganginn og hverju eigi að ná með þessu.

Ég vil svo að lokum taka undir ósk hv. frsm. um það, að þjóð okkar mætti halda því góða áliti um gætna fjármálastjórn, sem hún hefir enn, en ég er kannske ekki sammála honum um það, hvað mikið útlit er til, að hún haldi þessu góða áliti. Fjármálastjórn þessa þings er áreiðanlega stærsta bylting, sem skeð hefir á Íslandi síðan ég man eftir mér, svo það álit, sem við höfum nú, getur vitanlega alveg breytzt. Ég vildi náttúrlega óska þess, að betur færi heldur en mér finnst nú vera útlit fyrir, en ég er hræddur um, að hagur okkar og álit fari í rústir, ef stefnt er áfram á þessari braut.