17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. l. þm. Skagf. greip fram í fyrir mér áðan og spurði um hve lengi ég teldi mig verða að laga ástandið í þessum efnum með ráðstöfunum, sem ég vildi nú gera í fjármálum. Ég verð að segja það, að ég álít, að fyrirspurn hans hafi gefið fullkomlega tilefni til hnútunnar, sem ég fleygði til hans út af þessu. Það er vitanlega ómögulegt að segja um þetta að svo stöddu. Það, sem stj. keppir að, er að reyna að jafna aðstöðu þegnanna innanlands með aukinni kaupgetu og með auknum verklegum framkvæmdum. Það er ómögulegt að segja um, hvað stj. kemst langt í því að auka atvinnu í landinu, svo að það teljist viðunanlegt, eða hve lengi hún verður að ná því marki, sem hún telur nauðsynlegt að ná. Stj. mun fylgja þessari aðalstefnu svo fast fram sem hægt er. Það fer líka eftir því, eins og kunnugt er, hve miklar tekjur ríkissjóðs eru á hverjum tíma og hverju hann getur varið til verklegra framkvæmda, sem geta svo aftur orðið til þess að auka kaupgetuna og efla viðskiptalífið. Það er ekki hægt fyrir nokkurn mann að spá um það, hvort til þess muni ganga 1 eða 2 ár. Það virðist helzt vera svo, að þessi hv. þm. botni ekki nokkurn skapaðan hlut í því, sem hér er verið að ræða um. Spurning hv. 1. þm. Reykv. var miklu skynsamlegri, þar sem hann miðaði við greiðslujöfnuðinn við útlönd. Það er atriði, sem frekar er hægt að spyrja stj. um, og ég skal svara honum þannig, að ef þessar ráðstafanir, þessi auknu tök á gjaldeyris- og innflutningsmálum, verða að því gagni, sem stj. vonast eftir, þá býst hún við, að eftir að framkvæmt hefir verið eftir þessum reglum í eitt ár, þá verði komið langt áleiðis í því að láta þennan greiðslujöfnuð standast á. við búumst við því, að á næsta ári geti greiðslujöfnuðurinn við útlönd orðið sæmilegur, með aðstoð þeirrar löggjafar, sem verið er að setja hér til þess að reyna að fá þessu framgengt.