17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Magnús Guðmundsson:

Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, þó að hæstv. fjmrh. telji mig ekki hafa vit á þessu máli. Ég get sagt það sama um hann, því að mín skoðun er sú, að hann hafi ekki hið allra minnsta vit á því. Það er þess vegna kaup kaups. Og þess vegna beindi ég til hans þessari spurningu, sem snart hann svona óþægilega, að ég fann, með hvílíkum ógnargorgeir hæstv. ráðh. talaði um þetta mál. Hann var að sýna fram á, að það væri svo sem ekki mikill vandi að ná því marki, sem stj. ætlaði sér. Það væri ekkert annað en að heimta nóg úr ríkissjóði til aukinnar atvinnu innanlands. Ætli það geti ekki komið fyrir, að eitthvað þurfi að kaupa frá útlöndum til þeirra þarfa? Það er gert ráð fyrir byggingum og nýbýlum. Ætli það þurfi ekki eitthvað frá útlöndum til þess? Eða atvinnubótavinnan. Hæstv. fjmrh. lofar að jafna greiðsluhallann við útlönd á næsta ári. (Fjmrh.: Hefi engu lofað!). Jú, hann segir, að með þeim ráðstöfunum, sem stj. ætli að gera, hljóti þetta að komast í gegn. (Fjmrh.: Ekki hljóti!). Ja, hæstv. ráðh. vill nú draga í land, og skal ég ekkert lá honum það. Hann sagði, að það væri vitleysa að spyrja, hvenær stj. yrði búin að koma þessu í kring. En það var engin vitleysa út frá þeim forsendum, sem hæstv. ráðh. gaf. En ég er ráðh. samdóma um það, að það var vitleysa að spyrja hann að því, enda gerði ég það í háði.