21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem):

[óyfirl.]: Ég hefi borið fram skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 553, sem hv. d. hefir nú leyft, að tekin yrði til umr. — Þegar II. brtt. meiri hl. landbn. kom fyrir á fundi í landbn., þá var sú grein gerð fyrir henni, að eins og nú stæðu sakir væru erfiðleikar á að fá samkomulag meðal allra þeirra, sem eiga rétt á að skipa stj., sem á að annast þessi mál. Sérstaklega var á það bent, að þar sem félög framleiðenda ættu að taka þátt í skipun þessarar stj., þá gætu orðið erfiðleikar á því að koma á samkomulagi á þeim tíma, sem eftir er til nýárs. Má vera, að þessi ástæða hafi nokkuð til síns máls, en ég ætla, að ekki séu sérstakir erfiðleikar á að ná til þeirra mjólkurbúa, sem á verðjöfnunarsvæðinu eru, og fá atkv. þeirra um þessi efni, áður en mjólkursölunefndin tæki málið algerlega í sínar hendur. Meðal þeirra einstöku atriða tel ég miklu máli skipta, að mjólkurbúin fái tækifæri til þess að gera sínar till. um ráðningu framkvæmdarstjórnar sölumiðstöðvar og fá nokkra tryggingu fyrir því, að þær till. meiri hl. mjólkurbústjórna á viðkomandi mjólkurverðlagssvæði verði teknar til greina. Vegna þeirra ástæðna hefi ég borið fram þessa brtt., og vænti ég, að það komi ekki n. á óvart, fyrst og fremst af því, að þessi liður till. II. er borinn fram af meiri hl. landbn., og auk þess mun hv. frsm. kannast við, að ég áskildi mér fyrirvara um brtt.

Ég lít svo á, að þetta sé ekki nema sanngirnismál, að till. sé orðuð á þá leið, að mjólkurbússtjórn viðkomandi verðjöfnunarsvæðis þurfi ekkert að óttast um það, að þeirra till. verði ekki teknar til greina. Vænti ég því, að á þessa brtt. verði litið með velvild.