24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum í þessari hv. d. Málið er komið frá Ed., eins og sjá má, og hefir þar verið tekið til allrækilegrar athugunar. Það hefir einnig farið hér fram einskonar 1. umr. um málið um leið og rætt var um kjötsöluna. Ég vil því ekki án þess að tilefni gefist fara að innleiða hér neinar umr. að sinni. Til þess verður sjálfsagt tækifæri þegar málið kemur frá n., og taka þá ýms ákvæði frv. til umr. Þó vil ég geta þess strax, að það eru nokkur atriði, sem sérstaklega þarf að athuga, t. d. verðjöfnunargjaldið. — Um frv. í heild vil ég einungis segja það, að í Ed. hefir verið nokkurnveginn eining um afgreiðslu þess, að einungis 2—3 þm. greiddu atkv. gegn því, og ágreiningur ekki verið nema um tiltölulega fá atriði, sem ekki skipta verulega máli, að mínu áliti. — Þessi fáu orð get ég svo látið nægja við þessa umr., ef ekki gefst tilefni til frekari umr.