24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson:

[óyfirl.]: Áður en málið fer til n. í hv. d. vil ég um það segja nokkur orð, og benda á nokkur atriði, sem mér þykir sérstaklega ástæða til, að n. athugi. Þá er fyrst það atriði, sem snertir Rvík sérstaklega, að með l. eins og þessum er verið að ganga allverulega á rétt þeirra, sem til þessa hafa framleitt mjólk hér í lögsagnarumdæminu og haft af því sitt lífsframfæri og lagt mikið í kostnað við framleiðsluna. Það mun vera um 1/3 af allri mjólkurneyslu bæjarmanna, sem fullnægt er á þennan hátt. Þar sem nú stendur til að gera slíka ráðstöfun sem þessa, finnst mér nauðsynlegt að taka tillit til þess arna og skapa þeim mönnum sérstöðu á einhvern hátt, sem hafa gert þetta að atvinnu sinni og lagt fram mikið fé í því skyni. Mér finnst óhjákvæmilegt að taka svo mikið tillit til þessara manna, að fyrirtæki þeirra sáu ekki lögð í rústir bótalaust. Ég sé ekki, að ríkisvaldið geti sölsað svo undir sig rétt einstaklinganna, án þess að fullar bætur komi fyrir, hvort svo sem þær bætur koma frá þeim framleiðendum, sem þarna er verið að létta undir með, eða úr ríkissjóði. Mér þætti trúlegt, að hv. landbn. gerði hv. d. það ljóst, hvað mikið hér er um að ræða, hversu mikil verðmæti hér á að eyðileggja, sem sé allt það kapítal, sem lagt hefir verið í ræktun á bæjarlandinu og mjólkurframleiðslu af því. Þessar upplýsingar verða að koma fram, svo að hv. þdm. sé það ljóst, hvílíkar afleiðingar samþykkt l. hlýtur að hafa á þessa framleiðslu. — Það er ekkert smáræði, sem búið er að leggja í þessi ræktuðu lönd hér í nágrenni Rvíkur, byggingar, búfé o. fl. o. fl. Enda er nú svo komið, að þar er hægt að framleiða 1/3 hluta af allri þeirri mjólk, sem notuð er í Rvík. Mér þætti ekki ólíklegt, að tvær grímur færu að renna á suma hv. þm., er þeir heyrðu, hvað miklu tjónið nemur, sem yrði afleiðing þessara ráðstafana hér í kring um Rvíkurbæ. Og svipað ástand mun vera annarsstaðar, þar sem þessi l. ná til. — Þegar talað er um mjólkurmarkaðinn í Rvík, finnst mér öll sanngirni mæla með því, að þar sé átt við þann hluta neyzluvörunnar í bænum, sem er umfram framleiðslu bæjarmanna sjálfra. Það er ekki nema sjálfsagt, að þeir, sem framleiða góða mjólk hér í bænum eða við bæjardyrnar, hafi forgangsrétt að sölunni í bænum, en ekki nokkrir framleiðendur, sem búa langt í burtu og geta framleitt ódýrar en þeir, sem næst búa. — Í 5. gr. frv. er ákvæði þess efnis, að mjólkurbúum skuli skylt að hafa ætíð næga neyzlumjólk á boðstólum.

Ég veit ekki, hver viðurlög eiga að verða, sé þessu ákvæði ekki framfylgt. Ég vil benda á það, að á veturna getur komið fyrir, að vikum saman sé ekki hægt að hafa samgöngur við Suðurlandsundirlendið frá Rvík. Og minnki nú mjólkurframleiðslan hér í nágrenni Rvíkur um allan helming eða leggist kannske alveg niður á næstu árum, getur vel farið svo, að engin leið verði til þess að framkvæma þetta atriði l. Og eftir því sem fjölgar fólki í bænum, er meiri hætta bundin við það, að reiða sig á aðflutning þessarar neyzluvöru yfir veg, sem getur lokazt langtímum saman að vetrarlagi.