24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Út af ummælum hv. 5. þm. Reykv. vildi ég segja nokkur orð. Hann heldur því fram, að með l. þessum sé gengið á rétt framleiðenda hér í nágrenni Rvíkur. Þetta er sá misskilningur, sem hvað eftir annað hefir látið á sér bera í umr. um þetta mál, bæði á Alþ. og utan þess. Ég vil þá fyrst geta þess, að verðjöfnunargjaldið er ekki lagt nema að nokkru leyti á mjólkurframleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Ekkert verðjöfnunargjald er lagt á þá framleiðslu, sem byggð er á grasnyt. En á þá framleiðslu, sem má kalla verksmiðjuframleiðslu, er lagt verðjöfnunargjald. Þetta er framleiðsla, sem að mestu leyti er byggð á notkun erlends fóðurbætis, skapar svo að segja enga atvinnu hér í bænum, en kostar okkur allmikið af dýrmætum gjaldeyri út úr landinu. Á þessa framleiðslu tel ég sjálfsagt að leggja verðjöfnunargjald, af því að hér eru nóg skilyrði til þess að framleiða mjólk á eðlilegan hátt, sem skapaði atvinnu hér í landinu sjálfu. Og þar við bætist, að með þessari verksmiðjuframleiðslu mjólkur fæst verri vara en með hinni aðferðinni. — Ég heyri, að það hnussar í hv. 5. þm. Reykv. En þetta var mælt síðastl. vetur, það var mælt fitumagn mjólkur, sem framleidd er í lögsagnarumdæmi Rvíkur, og mjólkur austan úr sveitum. Það kom í ljós, að fitumagn Rvíkurmjólkurinnar var 2,5%. Þessi mjólk er tiltölulega bragðgóð, og fólk heldur, að það sé að kaupa ágæta mjólk. Á sama tíma var gerð rannsókn á fitumagni mjólkur austan úr Þykkvabæ, og í henni var alltaf 3,7% fitumagn. Ég sé enga ástæðu til þess að vernda sérstaklega verri framleiðsluna, þegar líka er svo ástatt, að hún eykur atvinnuleysi í landinu. Framleiðendum í Rvík hefir verið sýnd sú tillitssemi, að þeir þurfa ekki að greiða verðjöfnunargjald af eðlilegri framleiðslu. Þetta er meira en gert hefir verið erlendis, þar sem mjólkursalan hefir verið skipulögð á líkan hátt og hér. — Það er rétt, að framleiðendur þeir, sem næst bænum búa, hafa bezta aðstöðu til þess að selja mjólkina óskemmda til neytendanna daglega. Erlendis er tekið tillit til þessa á þann hátt, að þeir, sem búa næst bænum, fá nokkru hærra verð fyrir mjólk sína en aðrir. En hér er ætlazt til þess, að í ofanálag við verðuppbót sleppi framleiðendur í Rvík við verðjöfnunargjaldið að talsverðu leyti. Það sjá allir af þessu, að fullri sanngirni hefir verið beitt gagnvart mjólkurframleiðendum í Rvík. Þeir hafa langbezta aðstöðuna til þess að koma vöru sinni á markað, og samt fá þeir undanþágu frá verðjöfnunargjaldi. Það er því gersamlega ástæðulaust að deila á frv. undir því yfirskyni, að með því sé verið að verja hagsmuni þessara framleiðenda. Fyrir hvað borga menn verðjöfnunargjaldið? Verðjöfnunargjaldið er greitt til þess, að þeir, sem inna það af hendi, fái að sitja að markaðinum með neyzlumjólkina, svo að þeir, sem fjær búa, keppi ekki við þá, sem búa næst, á þessu sviði. Nærsveitarmenn greiða verðjöfnunargjaldið til þess að fá að vera í friði með þennan markað, sem er bezti markaðurinn. Hinir verða aðallega að vinna úr sinni mjólk. Og l. gera ráð fyrir, að Rvíkingar fái þessi fríðindi fyrir það brot af verðjöfnunargjaldi, sem þeim er gert að greiða.

En það, sem mest hefir verið deilt á frv. fyrir við þessu umr., er það, að með ákvæðum þess sé beina salan afnumin, nú eigi að fara að skylda þá, sem búa hér í lögsagnarumdæminu, til þess að selja mjólk sína gegnum sölumiðstöð og láta gerilsneyða hana, nú megi menn ekki dreifa mjólk sinni út sjálfir og hafa atvinnu af því, o. s. frv. Í þessum ásökunum kemur fram annar aðalmisskilningurinn í sambandi við þetta mál. Menn greiða verðjöfnunargjaldið til þess að fá að sitja að markaðinum fyrir neyzlumjólkina. Þess vegna er það ranglátt að leyfa eftir sem áður beina sölu til bæjarins. Segjum svo, að nokkur hluti bænda seldi beint, en aðrir gegnum sölumiðstöð, þá hefðu þeir, sem greiða verðjöfnunargjaldið, enga tryggingu fyrir því, að þeirra mjólk yrði ekki undir í samkeppninni við mjólk sölumiðstöðvarinnar. Ég tók það dæmi í Ed. á dögunum, að þetta væri það sama og sagt væri við kjötframleiðendur einhverrar sýslu í verðjöfnunarsvæði Rvíkur: Þið greiðið verðjöfnunargjaldið og megið selja beint, aðrir verða að hafa sölusamtök. Þarna mundi slá í harða samkeppni milli þeirra, sem seldu beint, og hinna, sem seldu með sölusamtökum, og greiðendur verðjöfnunargjaldsins hefðu enga tryggingu fyrir því, að vara þeirra gengi út. Það sama yrði uppi á teningnum, ef Reykvíkingar ættu að fá að selja mjólk sína beint. Og þessi samkeppni er ekki ný. Síðan sölusamtök hófust milli mjólkurbúanna hér í kring, hefir þessi samkeppni milli beinu sölunnar og samtakanna átt sér stað. Einn af hyggnustu mjólkurframleiðendum í Rvík hefir sagt mér og leyft að hafa eftir sér, að hann telji beinu söluna mjög óhagstæða. Hann hefði áður selt á 40 au. lítr., en sér hefði veizt svo erfitt að koma mjólk sinni út í samkeppninni við samtökin, að hann hætti beinu sölunni, og fær nú aðeins 30 au. fyrir lítrann, en segir, að það borgi sig betur en beina salan. Þetta sannar það, sem ég hefi haldið fram, að þegar bein, salan á í samkeppni við skipulagða sölu utan að, þá er engin trygging fyrir því, að þeir, sem nota gamla fyrirkomulagið, komi vöru sinni út. Þeir framleiðendur, sem selt hafa beint til Rvíkur undanfarið, hafa orðið svo útundan annað slagið, að þeir hafa verið komnir upp á náð Mjólkurfél. Rvíkur með að taka við afganginum af mjólk þeirra, þetta 70—250 lítr. á dag, þeir koma henni ekki út. Og ætti að hafa sölumiðstöð og beina sölu samtímis, mundi allt lenda í sama öngþveitinu með mjólkursöluna hér í bæ, sem reynslan hefir sýnt undanfarin ár. Enda er það vitað, að þrír stærstu framleiðendurnir í nágrenni Rvíkur vilja hafa samtök um söluna, þeim er orðið það ljóst, að beina salan er ekki fær leið. Enda væru það bein svik við þá, sem greitt hafa verðjöfnunargjaldið. Einungis með sölumiðstöð er hægt að tryggja þeim það, sem þeim ber sem endurgjald, að fá að sitja að markaðinum fyrir neyzlumjólkina. Sölumiðstöðin er því beinlínis í þeirra þágu, sem verðjöfnunargjaldið greiða. — Hvernig færi fyrir mjólkurframleiðslunni í nágrenni Rvíkur, sem hv. 5. þm. Reykv. lýsir svo, að hún sé dýrari og erfiðari en önnur framleiðsla, og þarf því að selja dýrara, ef sölumiðstöð, sem seldi ódýrari mjólk, væri til þess að keppa við hana? Og væri nokkur sanngirni í því að láta þessa dýrari framleiðslu greiða verðjöfnunargjald, en hleypa samt ódýrari framleiðslunni að markaðinum? Nei, hér er um að ræða algerðan misskilning, ef það er þá ekki tilraun til þess að blekkja mjólkurframleiðendur í nágrenni Rvíkur um l., og æsa þá upp gegn þeim. En beztu mennirnir í þeim hópi hafa ekki látið blekkjast af þeirri agitation, sem þyrlað hefir verið upp um málið, heldur skilja, að fyrirkomulag l. er nauðsynlegt og æskilegt.