24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

1664Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. virðist hafa öðru að sinna nú sem stendur en að hlusta á mig. Mér fannst hann eiginlega snúa öllu öfugt í ræðu sinni. Hann hélt því fram, að dregið væri úr ranglæti l. gagnvart framleiðendum í nágrenni Rvíkur með því að undanþiggja hverja kú, sem fædd væri á heyi af 1 hektara ræktuðu landi, verðjöfnunargjaldi. Ég viðurkenni, að þetta er þó nokkur bót. Og þetta er viðurkenning frá ráðh. hálfu á því, að ég hafi haft rétt fyrir mér í aðalatriðunum. Hann vill samt aðeins fara meðalveg, en ekki fullnægja öllu réttlæti. En hann viðurkennir með þessu, að það princip mitt er rétt, að það komi ekki til mála að fyrirskipa mjólkurframleiðendum í Rvík og nágrenni, sem nú framleiða 1/3 af allri neyzlumjólk í bænum, að afhenda sölumiðstöð mjólk sína með sömu skilyrðum og þeir, sem flytja mjólk að austan úr sveitum eða ofan úr Borgarfirði. — Hæstv. ráðh. hélt, að hann afsannaði eitthvað í ræðu minni með því að hafa það upp eftir mér, að framleiðsla mjólkur á bæjarlandinu væri dýrari en víðast hvar annarsstaðar. Og hann vildi segja, að ég hefði haldið því fram, að þar sem þessi framleiðsla væri dýrari, ætti hún að draga sig til baka. En þetta er þveröfugt við það, sem ég sagði. Þessi framleiðsla kringum Rvík hefir skapazt vegna markaðsins í bænum. En afstaða þessarar framleiðslu gerbreytist, ef Alþ. ætlar að fara að meina henni aðgang að þessum markaði. Og ætli Alþ. sér að kippu fótunum undan þessari framleiðslu með samþykkt þessara l., þá verður það einnig að bæta það tjón, sem af þessu leiðir, ekki að hálfu eða að nokkru leyti, heldur að öllu leyti. Hæstv. ráðh. kallaði mikinn hluta framleiðslunnar í nágrenni Rvíkur verksmiðjuframleiðslu. Þetta er nú ekkert nema innantómt slagorð. Hann telur, að sú mjólk, sem framleidd er á erlendum fóðurbæti, sé verksmiðjuframleiðsla, sem kosti gjaldeyri og spilli atvinnu í landinu. Ég held þó, að það sé almenn skoðun, að gefa þurfi fóðurbæti, til þess að sæmilegur árangur fáist, eigi að selja afurðirnar á frjálsum markaði. Ekki aðeins til þess, að kapítalið — nefnilega kýrin — hagnýtist betur, heldur líka vegna þess, að það bætir mjólkina. Mér skilst, að ríkisbúin á Vífilstöðum og víðar noti fóðurbæti, og hefir það ekki verið talið þeim til lasts, heldur sem framför. Nú er þetta allt í einu orðið til tjóns þjóðfélaginu og sá vargur í véum, sem notar fóðurbætir til mjólkurframleiðslu. Þá er það einnig talið óhæfilegt að framleiða mjólk að einhverju leyti á aðkeyptu heyi. Ég hefi nú varla heyrt verri setningu. Í fyrra var hagstæð tíð og taða ágæt norðanlands, en votviðri og ill hey hér á Suðurlandi. Er það þá goðgá að kaupa hey á Norðurlandi og flytja til Suðurlands? Er það til tjóns fyrir þjóðarbúið, að heyið sé keypt í Norðurlandi, og bændur þar verr að því komnir en þeir bændur austantjalds, sem framleiða mjólk til að selja. Og er það þjóðarhagur að framleiða heldur mjólk og flytja hana daglega á sölustaðinn langan veg til sölustaðar, fremur en að flytja heyið að sér á bílum að sumrinu þaðan, sem bezt er að framleiða það? Er það, segi ég, meiri þjóðarhagur að flytja nýmjólkina daglega en að flytja heyið þegar aðstaða er bezt með samgöngur og flutninga? Nei, það er ekki þjóðarhagur. Þá vil ég segja það, að ef Reykvíkingar fá að vera í friði með sína mjólkurframleiðslu — sem er sjálfsagt —, þá eiga aðrir mjólkurframleiðendur hér sunnan lands fullan rétt á að koma sér saman um, hvernig þeir selja mjólkina, og yfirleitt að gera þær ráðstafanir, sem þeir telja heppilegastar til þess að hagnýta markaðinn sem bezt. En ríkið á ekki að ráðstafa þessu, nema í hæsta lagi að hjálpa til, ef talið er, að slík samlög borgi sig betur en að hver sé út af fyrir sig. En eigi að neyða einstaklingana undir slíkar þvingunarráðstafanir með löggjöf, verða fullar bætur að koma fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði til sönnunar því, að þetta fyrirkomulag væri betra, að einhver mjólkurframleiðandi hér í Rvík hefði talið sér hag að því að selja mjólkina þannig í einu lagi heldur en að selja hana beint til neytenda. Þetta sannar í hæsta lagi, að það séu takmörk fyrir því, hvað mjólkurbú megi vera stór, en þarf þó ekki að sanna það, er getur aldrei sannað annað. En við skulum segja, að það sanni þetta. En það raskar engu í aðalatriðum, því þeir eru ekki margir, sem falla undir þá reglu, að ekki borgi sig fyrir þá að selja beint. Nú er því svarað til, að engin löggjöf banni mönnunum að ganga í Mjólkurfél. Rvíkur, og það gera sjálfsagt allir, sem sjá sér hagnað af þeim markaði. En þetta þýðir ekki að nefna; það sannar allt annað en það átti að sanna, og kannske sannar það ekki neitt. Hæstv. ráðh. sagði, að réttlæti þessara laga byggðist á því, að Reykvíkingar og nærsveitarmenn væru að kaupa þá, sem fjær byggju, út af markaðinum, svo þeim gengi salan betur og verðið héldist uppi. Og það er rétt, ef svo mætti segja, að þessir menn hafa 1. veðrétt í markaðinum í Rvík. Í fyrsta lagi til eigin þarfa heimilanna, og svo er eðlilegt að selja nágrönnum, ef menn telja sér hagnað af því. En það er ekki með nokkru móti hægt að gera það sameiginlegt mál með þeim, sem framleiða mjólkina úti á landi og ekki hafa neinn markað fyrir hana eða þörf í heimilið. Það er allt annað að framleiða mjólk til vinnslu eða á daglegan markað. Það er því rangt að setja alla undir sömu lög. Skilyrðin eru ekki öll jöfn, t. d. í Reykjavík og Skaftafellssýslu. Mér finnst því princip laganna rangt.

Hæstv. forsrh. sagði, að Reykvíkingum væri ætlað að hafa mjólk úr 1 kú fyrir hvern ha. af ræktuðu landi undanþegna skatti. Einnig viðurkenndi hæstv. ráðh., að til mála gæti komið að borga hærra fyrir mjólkina í Rvík en aðra mjólk. Ég viðurkenni rétt annara til frjálsra viðskipta, eða að koma sér saman um þau, ef það er ekki til tjóns fyrir þá, sem fyrst og fremst eiga að búa að markaðinum.

Hæstv. fors- og búnaðarmálarh. viðurkenndi rétt princip að borga hærra verð fyrir mjólkina í Rvík og taka nokkurt tillit til hærra verðlags við framleiðsluna. Þótti mér vænt um að heyra hæstv. ráðh. viðurkenna, að sanngjarnt væri að greiða framleiðendum í Rvík hærra verð en öðrum. En þá er að koma sér saman um, hvað það verð ætti að vera. Þar er ekki sízt talað mikið um að fá framleiðslukostnað. Þetta álít ég, að sé alröng setning, en skal þó ekki fara lengra út í það.

En yfirleitt mun vera litið svo á, að útsöluverð mjólkurinnar hér í Rvík hafi verið svo hátt, að framleiðendur hafi fengið greiddan framleiðslukostnað á sinni mjólk.

Þessi setning hæstv. forsrh., að sumir mjólkurframleiðendurnir eigi að fá verðlaun fyrir að halda sinni mjólk frá markaðinum, byggist á þeim misskilningi — þar til annað verður sannað —, að þeir hafi sama rétt til verðs eins og þeir, sem framleiða á bæjarlandinu, og að þetta sé gert til þess að tryggja Reykvíkingum að njóta markaðsins. En það þýðir ekki að bera það fram, að það sé gert vegna Reykvíkinga, því þeir munu alltaf hafa selt sína mjólk. Við skulum því bíða með lagasetningu vegna Rvíkur, þar til mjólkurframleiðendur þar biðja um hana, því þeir munu gera það, ef þeir álíta sér hagnað að því. Og ber þá engin skylda til að veita þeim nokkur sérréttindi, ef þeir óska eftir svona löggjöf. (PZ: Hvað var það mikið af mjólkinni í fyrra, sem ekki var selt?). Ég er búinn að minnast á, að þó einn og einn framleiðandi hafi ekki selt alla mjólkina um tíma, er það engin sönnun í þessu máli.