13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég á hér einu brtt. við þetta frv. Sú brtt. er við 6. gr. frv., þar sem ákveðið er, hvaða aðilar leggi til menn í þá 7 manna n., sem á að hafa yfirstjórn mjólkurmálanna í samráði við landbráðh. Það er svo gert ráð fyrir í gr., að stjórn Mjólkurbandalagsins leggi til tvo menn, og mun svo vera ákveðið, að annar sé frá mjólkurbúunum austan Hellisheiðar, en hinn frá mjólkurbúunum vestan heiðar. En það er, auk þeirra manna, sem falið hafa mjólk sína í hendur Mjólkurbandalags Suðurlands, allstór aðili í þessu máli, sem er Mjólkurfélag Borgfirðinga, er á hér hagsmuna að gæta. Er það ekki svo lítið svæði, sem það nær yfir af því verðjöfnunarsvæði, sem mjólkursölunefnd er nýbúin að ákveða og auglýsa, eða allir þeir aðilar, sem búa milli Skarðsheiðar Haffjarðarár, eða Mýra- og Hnappadalssýsla og stór hluti Borgarfjarðarsýslu. Þessi aðili hefir eins og allir hljóta að sjá mikilla hagsmuna að gæta. Mjólkurframleiðslan á þessu svæði vex hröðum skrefum, og með þeirri aðstöðu, sem hefir skapazt við starfsemi mjólkurniðursuðuverksmiðjunnar í Borgarnesi, sem hefir tæki til að taka móti meiri mjólk en nú er gert, hafa vaxið skilyrði til þess að mjólkurframleiðslan á þessu svæði aukist mikið frá því, sem nú er. Þess vegna virðist mér eðlileg og sanngjörn krafa, að Mjólkursamlag Borgfirðinga fái að velja einn manninn. Ég hefi valið þá leið, til þess ekki sé hægt að segja, að gengið sé á rétt annara stofnana, er hér eiga hlut að máli, að taka annan manninn, sem nú er ákveðið í frv. að ráðherra skipi án tilnefningar, og að Mjólkursamlag Borgfirðinga fái að tilnefna hann, en að ráðh. skipi þá aðeins form. n. án tilnefningar. Mér þætti vænt um, ef hv. deild vildi viðurkenna sanngirni þessarar till. með því að greiða henni atkv.

Á þskj. 749 er brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak. við sömu gr. frv., sem fer fram á það, eins og hv. þm. A.-Húnv. hefir lýst, að kveða svo á, að annar af þeim mönnum, sem ráðh. skipar, sé tilnefndur af félagi mjólkurframleiðenda innan þess bæjarfélags, sem aðalsala fer fram í. Ég vil leyfa mér að benda á, að ég ætla, að svo sé t. d. hvað Rvík snertir, að bæjarstj. hafi leyfi til að tilnefna einn mann í n. Virðist mér, að með því sé hvað Rvík snertir nokkurnveginn séð fyrir hagsmunum þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, á því svæði, sem lögsagnarumdæmi Rvíkur nær yfir. Því það er vitanlegt, að þegar bæjarstj. skipar þennan mann, er honum falið hvorttveggja í senn, að gæta hagsmuna neytenda og framleiðenda, og geri ég ekki ráð fyrir, að hægt sé að ætlast til, að hann geri upp á milli þessara aðila. Mér virðist því frá þessu sjónarmiði, að hvað Rvík snertir sé með þessu séð fyrir íhlutun mjólkurframleiðenda. Ég vil ennfremur benda á, að e. t. v. gæti valdið misskilningi og ágreiningi það orðalag, sem er á till. þeirra hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak., þar sem talað er um „félag mjólkurframleiðenda innan bæjarfélags, þar sem aðalsala fer fram“. Nú er vitað, að aðalsala á 1. verðjöfnunarsvæði fer fram hér í Rvík. En það eru til fleiri verðjöfnunarsvæði, þ. á. m. eitt, sem tilheyrir Akureyri, og er aðalsala þá þar. En hér er ekki um að ræða nema einn mann, og virðist því geta valdið misskilningi, hvort félagið ræður, eða hvort verið sé að skapa báðum aðilum aðstöðu til að eiga menn í n., er sitji þá til skiptis —, en orðalagið í till. gerir ekki ráð fyrir nema einu félagi. Það er því, að mér virðist, þar sem líka búið er að sjá fyrir Rvík í frv., eins og ég hefi áður drepið á, ekki ástæða til að samþ. þessa brtt., og þarf hún því ekki að vera í vegi fyrir brtt. minni, að hún verði samþ. Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta, en mér þykir gott og vænt um, að samkomulag hefir orðið í n. um eitt atriði, sem mjög var deilt um í Ed. og hefir vitanlega verið deiluefni frá upphafi, og það er viðvíkjandi mjólkursölu framleiðenda á bæjarlandi Rvíkur. Það er gott vegna þess, að þá er hægt að samþ. þessi lög í betri og öruggari vissu um, að gagn verði að löggjöfinni, eftir því sem tekst að ná samkomulagi um fleiri atriði, sem ágreiningur hefir verið um. Það eykur mikið öryggi um nytsemi og gagn löggjafarinnar, eftir því sem hægt er að sníða af fleiri agnúa og rýma burtu fleiri ágreiningsatriðum, sem bólað hefir á.

Ég hefi áður talað um í sambandi við annað mál, að e. t. v. væri ástæða til að breyta 1. gr. mjólkurlaganna að því er snertir ákvörðun verðjöfnunarsvæða. Þessi orð voru sprottin af því, að átök nokkur voru um það í mjólkursölunefndinni, hver skyldi verða aðstaða Mjólkursamlags Borgfirðinga innan verðjöfnunarsvæðanna. En nú er þessi ástæða fallin burt. Þessi ágreiningur jafnast með því, að mjólkursölunefndin hefir ákveðið, að Mjólkursölusamlag Borgfirðinga verði á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur, og þess vegna er burt fallin ástæðan til þess að setja ákvæði um þetta í lögin, því að maður verður að ganga út frá því sem sjálfsögðu, að ekki verði farið að breyta þessu aftur Borgfirðingum í óhag, enda eru nóg tækifæri fyrir hendi til þess að gera þær ráðstafanir, sem fyrirbyggja, að slíkt geti komið til mála.