13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég heyrði, að hæstv. forsrh. lagði mjög fast á móti brtt. minni á þskj. 768, og eftir því sem orð féllu hjá hv. þm. Mýr., mátti skilja, að hæstv. ráðh. hefði verið með heitingar um að málið mundi tefjast, og jafnvel hlekkjast alvarlega á, ef brtt. mín yrði samþ. Ég get satt að segja ekki skilið þessa barnalegu ástæðu hæstv. ráðh., eða hvers vegna hann leggur sig svo í framkróka um að hefta framgang þessarar till. Ég heyrði ekki nema lítið af ræðu hæstv. ráðh. — En hann kvað hafa sagt, að ef brtt. mín yrði samþ., þá mundi það valda röskun á mjólkursölunefndinni. Það veldur náttúrlega þeirri röskun, að ef Mjólkursamlag Borgfirðinga fær rétt til að skipa mann í n. og ef það vildi fela umboð sitt öðrum manni, þá kæmi þar maður í manns stað. En að það valdi að öðru leyti nokkurri sérstakri röskun á n., er út af fyrir sig engin röksemd á móti brtt. — Hitt, sem hæstv. ráðh. sagði, að fyrir austan Hellisheiði væru tvö mjólkurbú, sem hefðu aðeins einn fulltrúa í n., en ef mjólkurframleiðendur vestanfjalls fengju 2 fulltrúa í n., þá væri hlutfallinu raskað — það sannar ekkert. Því þó að ekki sé lítið á stærra svæði en hér vestan Hellisheiðar, þá er þar um tvö mjólkursamlög að ræða, eða mjólkurbú Mjólkurfél. Rvíkur, og annað stórt mjólkurbú í Mosfellssveit. Mér finnst þess vegna ekki hægt að færa þetta fram sem ástæðu móti minni brtt., að hún valdi röskun á réttu hlutfalli milli fulltrúa frá mjólkurbúunum. En hitt má aftur á móti benda á með fullum rökum, að hæstv. ráðh. hefir sjálfur með skipun manna í n. raskað þessu hlutfalli. Annar maðurinn, sem hann skipaði í n., er mjólkurframleiðandi austanfjalls, en hinn er kunnur bæjarmaður hér í Rvík. Og ég skal í þessu sambandi játa, að það er alveg rétt, sem hv. þm. Mýr. sagði, að þessi maður hefir komið miklu betur fram en ýmsir aðrir í n. í deilunni um afstöðu Mjólkursamlags Borgfirðinga til þessa máls yfirleitt og hagsmuni þeirra. — En ef hinsvegar brtt. mín verður samþ., þá er komið jafnvægi á í n. um fulltrúa frá mjólkurframleiðendum austanfjalls og vestan. Till. mín stefnir því beinlínis að því að lagfæra lögin, heldur en að hún raski þeim til hins lakara. Það má búast við því sem gefnu, að maður, sem Mjólkursamlag Borgf. mundi skipa í mjólkursölun., yrði annaðhvort mjólkurframleiðandi úr því héraði eða maður, sem hefði sérstakra hagsmuna að gæta í þeim félagsskap á því svæði. — Ég held því, að hæstv. ráðh. hafi alls ekki með þessum mótbárum sínum kippt fótunum undan þeim rökum, sem brtt. mín byggist á. Ég held, að með þessari breyt. verði betur séð fyrir því, að jafnvægi haldist í mjólkursölunefndinni, en með þeirri skipun, sem nú er.

Hv. þm. Mýr. gerði ráð fyrir því, að ef brtt. mín yrði samþ., þá yrði rýmt úr n. þeim manni, sem bezt hefir reynzt Mjólkursamlagi Borgf. — Ég veit náttúrlega ekki, út yfir hvern það mundi ganga. En það er auðvitað vissara fyrir Mjólkursamlag Borgfirðinga að ráða sjálft yfir þessum manni og hafa vald á honum heldur en að eiga það alveg undir ráðh., hver hann verður. Því að hæstv. ráðh. getur alltaf breytt um menn í n., og það er miklu meira öryggi í því, að sá fulltrúi, sem Borgf. skipa sjálfir, standi vel í ístaðinn fyrir þá. Ég segi þetta ekki af sérstakri tortryggni til núv. landbrh., heldur álít ég, að þetta verði yfirleitt betra fyrir Borgf., hver sem situr í ráðherrasæti. — Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en vænti að brtt. mín fái góðan byr og að hæstv. ráðh. sjái við nánari athugun, að ekki er ástæða til að vera á móti henni. Hún verður á engan hátt til tjóns fyrir málið, heldur miklu fremur til gagns. Þeir menn, sem eru á svæði Mjólkursamlags Borgf., mundu laðast betur að þessum félagsskap, yrðu ánægðari og mundu álita sínum málum betur borgið en ella. Og það er áreiðanlegt, að aðstaða félagsins er miklu betur tryggð, ef það ætti sjálft að skipa fulltrúa í n. heldur en með núv. fyrirkomulagi

Ég vil ennfremur benda á, að það er ákaflega rík venja við skipun í nefndir, að hinum ýmsu aðiljum er falið að leggja til menn í þær, og venjulega hefir hlutaðeigandi ráðh. nokkra íhlutun þar um, en það er hreinasta undantekning, að ráðh. sé falið að skipa nema einn mann í n., sem er jafnan form. n. — Þessi brtt. mín er því í samræmi við þá nálega ófrávíkjanlegu reglu hér á Alþingi, að ráðh. skipi aðeins form. n. Ég vil því biðja hv. þdm., er þeir greiða atkv. um þessa brtt., að hafa það í huga, ef þeim þykir það nokkurs vert, að samræmi haldist í gerðum Alþingis í þessu efni.