13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég hefi ekki kvatt mér hljóðs til þess að ræða frv. almennt eins og það liggur fyrir, né heldur þær brtt., sem bornar eru fram af minni hl. landbn. Fyrir till. meiri hl., sem við minni hl. mennirnir getum fylgt að allverulegu leyti, hefir þegar verið gerð grein af form. n., hv. þm. Mýr., og fyrir brtt. frá minni hl., mér og hv. þm. A.-Húnv., hefir verið gerð grein af honum, og læt ég nægja að vísa til þess, þar sem ég er samþ. hans málaflutningi í öllum aðalatriðum. En það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni, og það er brtt. frá hæstv. forsrh. Mér virðist ekki hafa verið farið inn á það atriði eins og vert er, því að ef brtt. er samþ., þá virðist mér brotin grundvallarregla, sem byggt er á í þessu frv., sú sem sé, að menn fái verðuppbót á þá mjólk eina, sem þeir framleiða til sölu og greiða verðjöfnunargjald af og selja, en ekki þeirri mjólk, sem þeir nota sjálfir. Í búunum fyrir austan fjall er augljóst, að bændur fá aðeins verðuppbót fyrir þá mjólk, sem þar er unnin. Það er sanngjarnt að hverfa að því að kaupa þá þannig til þess að flytja ekki mjólk til Rvíkur, og út frá sama sjónarmiði er það sanngjarnt, að bændur í kringum Rvík greiði verðjöfnunargjald til þess að geta setið einir að Rvíkurmarkaðinum. En í hvorugu þessu tilfelli ná þessi ákvæði til mjólkur, sem menn framleiða til eigin nota. Nú er gert ráð fyrir því í brtt. frá landbn. — og ég vissi ekki betur en að um það væri fullkomið samkomulag í n. —, að um leið og mönnum er gefinn kostur á að selja mjólk beint til neytenda, þ. e. ekki í gegnum búðir, þá væri sjálfsagt, að dreginn væri frá nokkur hluti framleiðslunnar, sem ætlaður væri til heimilisnota og undanþeginn verðjöfnunarsj.gjaldi. Það var ákveðið, að það skyldi vera 2 þús. lítrar, og átti form. landbn. uppástunguna. Ég fel það mjög hæfilegt, en hefði til samkomulags getað farið niður í 1800 lítra. En að fella þetta alveg niður er þvert brot á anda laganna. Hvers eiga Reykvíkingar að gjalda, að mega ekki framleiða handa sjálfum sér eins og allir menn aðrir á landinu? Eða þá Akureyringar, sem. mér stendur næst að minnast á í þessu sambandi. Það er gert ráð fyrir því, að þeir sem selja mjólk í bæinn, greiði verðjöfnunargjald af 3 þús. lítrum á hverja kú, að frádregnum 2 þús. lítrum til heimilisnotkunar. Hvað snertir þetta hámark, 3 þús. lítra, þá finnst mér það fullhátt. Kýr í Rvík gefa nokkuð hærri meðalnyt að sögn, þótt ég efist um það, en þær gera það a. m. k. ekki almennt á Akureyri. Hér kemur margt til greina, bæði hve mikil stund og um hve langan aldur hefir verið lögð á það að bæta kúakynið, og svo meðferð öll. Hér í Rvík er notað meira kraftfóður, og með því er hægt að fá allmiklu hærri nyt en ella. Ennfremur kemur hér til greina hagabeitin og hversu aflað er heyfengs á sumrum o. fl. o. fl. Á Akureyri er ekki reiknað með meira en 2300 lítra meðalnyt. Þeir, sem því hefðu einungis eina kú, yrðu að greiða verðjöfnunarsjóðsgjald af allri sinni mjólk, þótt hún væri öll notuð í heimahúsum. Ég mótmæli þessu. Ég mótmæli því, að í þessu sé nokkurt minnsta réttlæti, að mönnum sé svo gott sem bannað að framleiða mjólk til eigin nota. Og ef þetta verður knúð í gegn, þá skal ég lofa því, að ég skal á hverju einasta þingi meðan slík ákvæði eru í gildi bera fram brtt. um að þau verði felld niður. Og ég vil bæta því við, að þótt ég telji þessi l. ganga í rétta átt og vera til bóta, þá mun ég mjög hugsa mig um áður en ég greiði atkv. með þeim út úr d., ef ég ekki hreint og beint greiði atkv. á móti þeim, verði brtt. hæstv. forsrh. samþ.