13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Þetta er nú allmikið hagsmunamál fyrir mína kjósendur, og gæti því verið nokkurt tilefni til þess fyrir mig, sem þeirra umboðsmann hér á þingi, að fara nokkrum orðum um málið almennt og taka til athugunar þær brtt., sem fyrir liggja. Ég geri þó ekki ráð fyrir að gera það að þessu sinni, sumpart vegna þess, að mín afstaða til málsins er kunn frá fyrri þingum, a. m. k. hvað snertir þá grundvallarstefnu, sem í frv. felst, og sumpart af hinu, að hér hafa verið gefnar ýtarlegar skýringar bæði á heildardráttum löggjafarinnar og eins á einstökum brtt., og vitna ég þá sérstaklega í ræðu hv. frsm. minni hl., hv. þm. A.-Húnv. Ég skal einungis í tilefni af því, sem hæstv. forsrh. sagði er hann var að ljúka sinni ræðu, gefa þá viðurkenningu, að mér gekk hálfilla að skilja, hvað hann átti við í fyrri hluta sinnar ræðu. (Forsrh.: Ég get skilið það). En það er víst af því, að ég er svo ókunnugur málinu og ófróður, eins og hann mun nú komast að orði, því að hann segir það yfirleitt alltaf, og það veit enginn neitt nema hann í því máli, sem hann talar um, og ég á auðvitað ekki von á því betra, þótt ég sé nú raunar búinn að flytja þetta mál hér á þingi áður en hann komst á þing, þótt það væri í betra búningi hjá mér en honum, það skal ég játa. Ég viðurkenni, að mér gekk afarilla að skilja, hvað ráðh. meinti með sumu í ræðu sinni, en það fékk ég þó út úr því, að honum fannst það hæpið lof, sem hv. þm. Ak. bar á sína kjósendur, að segja, að kýrnytin væri lægri á Akureyri en í Rvík. Það er eins og þessir kjósendur væru þarfanautin á Akureyri, hvernig sem ráðh. hefir nú hugsað sér það. (Forsrh.: Ætli það fari ekki dálítið eftir meðferðinni? Hvernig er það á Korpúlfsstöðum?). En ekki vil ég viðurkenna, að ef kýrnytin er lægri í Gullbringu- og Kjósarsýslu en í Rvík, þá sé það af því, að tómir níðingar fáist við gripahirðingu í sýslunni. Þetta er e. t. v. skoðun forsrh. En hér liggur fyrir, að kýrnytin er hærri í Rvík en í nágrenninu, og ef hann vill gera það að sínum orðum sem landbrh., að það sé af níðingslegri meðferð á gripum annarsstaðar, þá hefði ég gaman af að sjá framan í íslenzka bændur. En náttúrlega etur hann þetta allt ofan í sig aftur. — Ég verð að biðja hæstv. forseta að láta forsrh. fara út úr d. eða skipa honum að þegja meðan ég er að tala. — Annars verð ég að segja það út af þeirri till., sem deilt er um, hvort rétt sé að undanskilja verðjöfnunargjaldi 2 þús. lítra hjá framleiðendum í Rvík, að ég hefi ekki sérstaklega skoðað það mál niður í kjölinn, enda er till. nýframkomin. En úr því að hv. þm. Mýr. er faðir till., sem mér skilst að upplýst sé hér í d., þá geri ég ráð fyrir því, að hann sé þar í samræmi við vilja minna kjósenda, þar sem hans og þeirra hagsmunir fara mjög saman, þar sem hann er búsettur í kjördæminu og mjólkurframleiðandi. Ég geri því ráð fyrir, að hann hafi borið sig saman við menn um þetta atriði og þeir telji það sanngjarnt. En mér þætti vænt um, ef hann vildi áður en umr. lýkur fræða mig og aðra frekar um þetta. Hinu andmæli ég hjá hæstv. landbrh., að þessi till. hljóti að leiða til svika, eins og hann orðaði það. Mér finnst, að ráðh. eigi að nægja að vera hér með illmælgi í garð bændanna um það, að minni kýrnyt hjá þeim en í Rvík stafi af illri meðferð kúnna, þótt hann setji ekki líka á þá svikastimpilinn, því að það er óhjákvæmileg staðreynd, að þetta er ekki hægt að svíkja nema með aðstoð bændanna, og þau ummæli hans, hæstv. ráðh., að þetta myndi verða svikið í ríkum mæli, er ekki hægt á nokkurn annan hátt að skilja en þann, að hann sé að stimpla alla bændastéttina sem svikara. Það er hart, að ég skuli þurfa að standa hér upp á þinginu og bera hönd fyrir höfuð bændanna og beina frá þeim árásum frá sjálfum landbrh. Það er hart. Hæstv. ráðh. gat þess í sinni ræðu, að það hefði komið fram nú sem endranær, að ekki mætti vænta neins samkomulags frá mjólkurframleiðendum um sín málefni. Hæstv. ráðh. getur með engum rökum borið þessar ásakanir fram. Mjólkurbandalagið hefir, og það áður en hæstv. ráðh. kom til skjalanna, borið gæfu til þess að halda saman og stýra sínum málum. Hitt er ljóst, að þeir menn innan Mjólkurbandalagsins, sem minnsta hafa tilhneigingu til ofríkis, hafa ekki óskað eftir því, að þessi maður yrði landbúnaðarráðherra. Þeim hefði verið það sæmra sjálfra sín vegna og þeirra vegna, sem hafa falið þeim að gæta hagsmuna sinna, að kunna sér betur hóf í þessari tilhneigingu sinni en þeir hafa kunnað. En ég er líka viss um það, að eitt af því, sem hefir orðið þeim að fótakefli í eðlilegri viðleitni þeirra til þess að gæta hófs, er það, að þeir hafa vitað, að þeir þurftu ekki að gæta stillingar í þessum efnum til þess að ná eyra hæstv. landbrh. Mjólkurbandalagið hefir starfað með góðum árangri á undanförnum árum og sæmilegri samheldni. Mér sýnast nú horfur á því, að sú samheldni fari út um þúfur, og er það lakara fyrir það, að þeir hafa valdið því, sem ekki þoldu þá freistingu að horfa á þennan mann í sæti landbrh.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins dæma um það, hver ógæfa af þessu leiðir, vegna þess að ég hefi vonir um það, að vitibornir menn muni skilja það áður en lýkur og kannske áður en 1angt um líður, að öllu málefninu er bezt borgið með því, að umboðsmenn framleiðenda taki fullt tillit hver til annars. Ég gerði mér í öndverðu miklar vonir um það, að þetta samkomulag tækist, þannig að engin þörf yrði fyrir afskipti valdboðsins á þessu sviði. Þess vegna óskaði ég ekki eftir öðrum afskiptum hins opinbera í þessu máli en að stofnaður yrði verðjöfnunargjaldssjóður, og ég hefi svo gert það eftir óskum og í umboði kjósenda minna að óska þess, að samsala sé sett á stofn, enda þótt ég beri ekki til hennar sama traust og margir af umbjóðendum mínum. En í þessu máli tel ég mér skylt að fylgja fram þeirra óskum. a. m. k. ef ég hefi ekki bjargfasta sannfæringu um það, að þeir kunni ekki fótum sínum forráð en svo vitibornir sem þeir eru og reyndir á þessu sviði, þá ætla ég mér ekki að þekkja þessi mál betur en þeir, og hefi hlítt þeirra ráðum í því. En ég er alveg sannfærður um það, að þau ákvæði þessa frv., sem gefa einhverjum aðilanna sérstaka afstöðu til þess að beita hina aðra aðila ofríki, þau verða málinu til falls, fyrr eða síðar, ef hlutaðeigandi aðilar standast ekki þessa freistingu og snúa til rétts vegar áður en í óefni er komið. En um þetta vil ég ekki fullyrða að svo stöddu, enda þótt mér sýnist, að ýmislegt, sem fram hefir komið í þessu máli, bendi til þess, að miður muni til takast en ég hefi gert mér vonir um. En það, að ég er ekki eins svartsýnn eins og kannske efni standa til, er af því, að ég geri mér, eins og ég hefi áður sagt, vonir um það, að ef og þegar reyndin leiðir það betur í ljós en orðið er, hver hætta stafar af þessu, þá bæti þeir aðilar, sem hér um ræðir, ráð sitt og sjái, að það er viturlegast í þessu máli að beita engri kúgun og engu ofríki.

Af þeim brtt., sem fluttar eru við frv., vil ég snúa mér sérstaklega að einni, og það er l. brtt. á þskj. 737, sem heimilar landbrh. að leggja á verðjöfnunarsjóðsgjald allt að 8%. Það er að vísu svo, eins og frv. er núna, að þá eru landbrh. ekki settar neinar skorður um það, hversu hátt verðjöfnunarsjóðsgjaldið megi vera og ég fyrir mitt leyti vil heldur engar skorður hafa heldur en að þær séu 8%. Ég vil nefnilega heldur, að ef á að beita bændur hérna sunnanfjalls því misrétti að krefjast 8% verðjöfnunarsjóðsgjalds af þeim, þá sé það gert á ábyrgð landbrh. eins, en ekki að Alþ. sé gert meðábyrgt í því, og sem umboðsmaður bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu er ég sannfærður um, að það er heppilegasta lausnin fyrir þá. Ég mun a. m. k. aldrei ljá mitt atkv. þessu ákvæði til stuðnings. Ég vil hafa hreina aðstöðu til þess, fyrir þeirra hönd, að ráðast á landbrh. fyrir meðferð þess valds, sem honum er tilskilið í þessari gr. Ég óska náttúrlega helzt eftir, að því sé haldið, sem í öndverðu var ákveðið í þessu máli, sem sé að verðjöfnunarsjóðsgjaldið fari ekki yfir 5%. Ég er sannfærður um , að það er nóg til þess að bæta á eðlilegan hátt bændum austanfjalls þann halla, sem þeir kunna að verða fyrir vegna þess að afsala sér sölu á nýrri mjólk hér í Rvík. En þetta ákvæði, ef samþ. er af þinginu, opnar landbrh. leið til þess að rýja bændur sunnanfjalls, öðrum til framdráttar, í ríkara mæli en ég hygg, að nauðsyn geti nokkurn tíma krafizt. Ég vil ekki selja honum í hendur sjálfsvaldi til þess að dæma um, hvað langt á að ganga í þessu efni, a. m. k. ekki þannig, að hann geti gert mig meðábyrgan fyrir því hámarki, sem hann kann að beita á hverjum tíma. Ég er þó reiðubúinn til þess að geta honum vald til þess að leggja verðjöfnunargjald á allt upp að 5%, en það, sem þar fer fram yfir, vil ég að hann geri á eigin ábyrgð.

Ég vil yfirleitt segja það um brtt. á þskj. 749, þó kannske ekki undantekningarlaust, að ég tel þær til bóta, en ef ég ætti að fara að gera grein fyrir afstöðu minni til hverrar einstakrar af þeim, þá yrði það allt of langt mál, enda hefir hv. frsm. minni hl. þegar gert það mjög ýtarlega.

Ég vil taka það fram, að ég hafði ekki tækifæri til þess að hlýða á þá ræðu, sem hæstv. landbrh. flutti hér fyrst eftir matarhléið í kvöld, og get ég þess vegna á engan hátt svarað henni. Mér þykir ástæða til þess að taka þetta fram, vegna þess að sú stutta ræða, sem hann áðan flutti, hefir gefið mér tilefni til talsverðra leiðréttinga, og ég geri þess vegna fastlega ráð fyrir, að ef ég hefði líka heyrt fyrri ræðu hans, þá mundi ég hafa þótzt knúður til þess að leiðrétta ýmsar firrur, sem hann mun hafa haldið fram í þeirri ræðu. En mér þykir það miður, að þeir, sem síðar lesa umr. um þetta mál, geri mig meðábyrgan á orðum hans, á þann hátt, að ég hefði ekki andmælt þeim, og þess vegna tek ég þetta fram.

Út af brtt. á þskj. 768, frá hv. þm. Borgf. um það, að í stað þess að atvmrh. skipi tvo menn í mjólkursölun. skv. 6. gr. frv., þá skuli atvmrh. skipa einn mann í hana og Mjólkursamlag Borgfirðinga annan, vil ég segja það, að mér finnst þessi till. sanngjörn og get í því efni vísað til rökstuðnings hv. þm. Borgf. fyrir þessari till.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég mundi ekki ræða þetta mál almennt, af því að mín afstaða til þess er kunn í öllum aðaldráttum. Ég mun heldur ekki rekja aðstöðu mína að því er snertir einstakar brtt., sem fyrir liggja. En ég vil þó segja það, að eins og þetta frv. verður, eða miklar horfur eru á að það verði, þegar það verður afgr. héðan úr d., þá er ég ekki sannfærður um, að það leiði til þeirrar farsældar, sem við Mjólkurbandalagsmenn höfum gert okkur vonir um. Samt sem áður tel ég rétt að afgr. málið í trausti þess, að þeir, sem með framkvæmd þess fara, geti, þegar þeir fá meiri reynslu í störfum sínum, vaknað til öruggs skilnings á því, hver skylda hvílir á þeim um sanngjarna beitingu þeirra lagafyrirmæla, sem hér á að lögfesta. Verði þeir ekki við þeirri skyldu sinni á eðlilegan hátt, þá getur vel svo farið, að ég verði einn þeirra, sem tel nauðsynlegt að gera veigamiklar breyt. á þessari löggjöf eða hrinda henni með öllu. Það er þess vegna á þeirra valdi og fer eftir því, hvernig þeir framkvæma þá skyldu sína, sem þeir taka sér á herðar, hvort við, sem höfum gert okkur vonir um, að slík lagafyrirmæli megi verða bændum, sem við eiga að una, til framdráttar, hvort þær vonir okkar rætast, eða hvort okkur eigi að verða vonbrigði að allri þeirri starfsemi, sem leitt hefir til þessara lagafyrirmæla, sem hér liggja fyrir. Frumdrættir þessa máls hafa verið hugsaðir og undirbúnir í Mjólkurbandalaginu út frá viðurkenningu hinnar ríku þarfar, sem bændur hafa fyrir að fá annað og hærra verð fyrir sínar afurðir en þeir til þessa hafa fengið. Það liggja miklar vonir til grundvallar fyrir þessu frv. og það eru miklar vonir margra þurfandi manna tengdar við lagasetninguna og framkvæmd hennar. Það er þess vegna mikil og þung ábyrgð, sem þeir bera, sem eiga að hafa á hendi framkvæmdir þessara lagafyrirmæla, vegna þess að allt gildi l. veltur á sanngjörnum framkvæmdum þeirra. Ég skal ekki að svo komnu máli draga það í efa, að þessi framkvæmdan. sé sér þess meðvitandi, að mikið velti á hennar aðgerðum í þessu efni. Hitt dreg ég enn sem komið er í efa, að henni hafi tekizt að losa sig undan þeirri tilhneigingu að draga fremur fram hagsmuni eins aðilans heldur en annars, þeirra sem hlut eiga að máli. En þó að svo sé, þá álít ég samt, að það enn sem komið er gefi mér ekki fullt tilefni til þess að telja mig vonsviptan um ágæti þeirrar gagnsemi, sem til var stofnað með lagasetningunni, og þá m. a. vegna þess, að þessir menn hafa ennþá ekki starfað nema stuttan tíma, og það er nú oft svo, að menn þjálfast lætur þegar örðugleikarnir knýja á, því að þá rennur betur upp fyrir mönnum, að eitt af því allra nauðsynlegasta til þess að sigra örðugleikana er einmitt það, að vera réttlátir. Það eru svo flestir menn gerðir, að ef þeim er sýnt réttlæti, þá sætta þeir sig við margvíslega örðugleika, en ef menn finna ekki til réttlætis, þá eru jafnvel hinir minnstu agnúar nægilegir til þess að valda mótþróa, en sérhver mótþrói þeirra, sem við lögin eiga að búa, er hættulegur.

Það er mín skoðun, að í þessari lagasetningu sé gengið lengra heldur en nauðsyn bíður í því að takmarka frjálsræði manna, og út af fyrir sig er þetta náttúrlega mikill ókostur, en nokkur er það bót í máli, að það má liðka þetta í framkvæmdinni, ef góður vilji er til þess. Sá agnúi er því einn þeirra, sem úr má draga með réttlátri og velviljaðri framkvæmd l. Einnig á því sviði vil ég geyma mér minn dóm um ágæti þessarar lagasetningar. Ég vil svo að endingu segja það, og ég endurtek það, að þó að ég telji agnúa á l., og þó að ég sjái fram á, að þeir agnúar geti orðið til óþrifa, ef framkvæmd 1. verður ekki á þann hátt, að hin mesta réttsýni verði sýnd, þá tel ég samt, að þinginu beri að samþ. þessi l. og bíða átekta með sinn dóm, þar til reynslan sker úr um það, hvort þeir menn gera skyldu sína, sem með framkvæmdarvaldið eiga að fara.