13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér þótti fróðlegt að heyra yfirlýsingu þá, sem lá í síðustu orðum hæstv. landbrh., að l. þessi væru sett með fyllstu sanngirni til allra aðila. En þó þætti mér fróðlegra að fá vitneskju um það, hvort hæstv. ráðh. á við frv. eins og það kom nú inn í d., eins og það verður, ef brtt. meiri hl. landbn. verður samþ., eða í þriðja lagi ef frv. verður að l. með brtt. minni hl. landbn. Þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. er nefnilega út í bláinn, meðan ekki er sagt, hvern af þessum þrem búningum l. er átt við, því að hvert af þessu má heita sérstök lög. — Mér virtist fleira í ræðu hæstv. ráðh. vera svipað þessu. Hann þykist þurfa að tala á eftir hverjum þdm., sem lætur álit sitt í ljós. Okkur sjálfstæðismönnum hefir verið borið það á brýn, að við beittum málþófi á þessu þingi, en ég vil nú benda hæstv. ráðh. á það, að umr. gætu orðið ólíkt styttri nú, ef hann gæti geymt sér að tala og svara svo nokkrum þm. í einu. Þessi hæstv. ráðh. byrjar gjarnan ræður sínar á því að lofa að vera ekki langorður, en svo vill oft teygjast lengur úr þeim en hæstv. ráðh. tekur eftir. — Annars ætlaði ég mér aðallega að snúa mér að þeirri hlið þessa máls, sem að Rvík veit. Hæstv. ráðh. talaði um það í ræðu sinni, að það yrði að halda verðlaginu í jafnvægi milli svæðanna innan verðjöfnunarsvæðis Suðvesturlandsins. Innan þessa verðjöfnunarsvæðis má telja þrjú aðgreind svæði, hvert með sínum sérstöku þörfum og hagsmunum. Það fyrsta er framleiðslusvæði bæjarlandsins í Rvík, annað svæðið eru nágrannasveitir Rvíkur hér vestanfjalls, og það þriðja austanfjalls, og með því svæði mætti sennilega telja Borgarfjörð, því að framleiðendur þar munu hafa líkan flutningskostnað á Rvíkurmarkaðinn og þeir, sem á þessu svæði búa. Hæstv. ráðh. sagði, að tilgangur l. væri sá, að ná jafnvægi á verðinu milli þessara svæða. En mig langar til þess að fá nánari skýringu á þessu. Ef átt er við það, að allir fái jafnt verð fyrir vöruna, þá er ekkert vit í þessu. Auðvitað þarf að taka tillit til þess, hvað framleiðendur á hverju þessu svæði leggja í kostnað. — Tilgangurinn verður að vera sá, að skapa hverju af þessum svæðum eðlilegt verðlag með tilliti til framleiðslukostnaðarins. En bæði með frv. eins og það kom frá Ed., og eins þó að brtt. hv. meiri hl. yrði samþ., er ekki tekið tillit til þessa. Fyrst þegar frv. var borið hér fram, lét hæstv. ráðh. í veðri vaka, að þetta væri gert fyrir þá, sem byggju á bæjarlandinu í Rvík, og ætti að vernda þá fyrir samkeppni utan að. Og ég hefði getað fallizt á þessar ráðstafanir, ef þessir menn hefðu óskað eftir lögunum. En það er öðru nær; þeir hafa mótmælt þeim eindregið, að ég held allir nema einn einasti framleiðandi. Enda var eftir till. ríkisstj. í þessu máli ekkert gert til að vernda rétt þessara manna, en í þess stað búið svo að þeim, að fyrirsjáanlegt var, að með framkvæmd þeirra ráðstafana hefði mjólkurframleiðsla á bæjarsvæðinu liðið undir lok. Og þó að sú umbót, sem felst í brtt. meiri hl. n., nái samþykki, þá er fyrirsjáanlegt, að ekki verður hægt til frambúðar að framleiða mjólk á bæjarlandinu, ef l. ganga í gegn. Þótt brtt. meiri hl. bæti nokkuð um, þá er það samt ekki nóg.

Og það er ekki svo lítill ábyrgðarhluti fyrir Alþ. að ætla að gera einskis virði alla þá fyrirhöfn og allt það fjármagn, sem búið er að leggja í ræktun á bæjarlandinu og búrekstur þar. En að því er stefnt með því að leggja á þá háan skatt og greiða hann til keppinautanna. Mér skildist, að ef brtt. á þskj. 737 verða ekki samþ., og framleiðendum hér í Rvík þar með sýnt sjálfsagt réttlæti, að þeim séu settir tveir kostir. Annar er sá, að þeir verða að afhenda alla mjólk sína, aðra en þá, sem fer til heimilisþarfa, til gerilsneyðingar og samsölu með þeirri mjólk, sem að er flutt í bæinn. Ef þeir gera þetta, fá þeir undanþágu á verðjöfnunargjaldi fyrir mjólk úr þeim kúm, sem fóðraðar eru með heyi af bæjarlandinu, þó svo, að þeir verða að borga 3% af andvirðinu, og sleppa þeir þá við 5% af álaginu, ef miðað er við 8%. En vilji þeir selja beint til neytendanna, verða þeir að borga allt verðjöfnunargjaldið, 8% af andvirði mjólkurinnar. Þar sem frv. lætur frjálst val milli þessara möguleika, hljóta forgöngumenn þess að skoða þá sem nokkurnveginn jafngóða. Athugum fyrri kostinn. Eftir því sem hv. þm. A.-Húnv. taldist til, kostar gerilsneyðingin 4 aur. á lítra og salan 4 aur. Sá hluti mjólkur, sem er verðjöfnunargjaldsskyldur, er helmingur af allri þeirri mjólk, sem framleidd er á bæjarlandinu, og þó meiri, líklega nær tveim þriðju hlutum en helmingi. Þessi aukakostnaður, gerilsneyðing, samsalan og verðjöfnunargjaldið, mundi því nema um 220000 kr. á þessa framleiðslu, eða m. ö. o. 10 aur. á hvern lítra. Meginið af þessum útgjöldum mætti spara með því að selja beint. Ég er sannfærður um það, að ef eitthvert annað stjórnarvald legði svipaðan skatt á framleiðslu þessara 150 manna, sem framleiða mjólk úr 1000 kúm, yrðu allir sammála um það, að mennirnir fengju ekki undir því risið. Þetta er um 220 kr. skattur á hverja kú. Augljóst er, hvert þetta stefnir. Það stefnir til gereyðileggingar á þessum atvinnurekstri. Meiningin er sú, að hjálpa mjólkurframleiðendum austanfjalls. En er sú hjálp trygg til langframa? Ég get vel trúað því, að þegar búið er að leggja mjólkurframleiðsluna kringum Rvík í rústir, verði arðvænlegra að framleiða mjólk austanfjalls. En þá er sú hætta til, að svo margir safnist að þessum arðvænlega atvinnuvegi, að Rvíkurmarkaðurinn verði of þröngur fyrir framleiðsluna þaðan. Ég held því, að þetta skipulag hafi dauða sinn í sér fólginn. Það er þýðingarlaust að ætla sér að hjálpa einu framleiðslusvæðinu á kostnað hins. — Nú er það svo í frjálsu framboði, að verðlagið samsvarar nokkurnveginn framleiðslukostnaðinum. Þeir framleiðendur, sem mestu þurfa að kosta til flutninga á mjólkinni hingað, búa flestir á svo góðu landi, að þeir geta framleitt mjólkina með minna tilkostnaði. En í kringum Rvík er framleiðslan miklu dýrari, en flutningskostnaðurinn sama sem enginn. Þetta gerir það að verkum, að hægt er að framleiða með svipuðum hagnaði mjólk hér á bæjarlandinu og austur í Rangárvallasýslu. Reglan er sú, að þetta helzt nokkurnveginn í hendur. Framleiðendur austur í Rangárvallasýslu standa í raun og veru svipað að vígi eins og framleiðendur hér í nágrenni Rvíkur. Þeir þurfa að vísu að glíma við fjarlægðina, en hinsvegar búa þeir á ódýrara landi en framleiðendur hér, svo að á þessu verður nokkurt jafnvægi, enda eru framleiðendur mjólkur á báðum þessum svæðum sammála um það, að erfitt sé að láta þennan atvinnurekstur bera sig. Ég hygg, að það mundi aðeins raska því jafnvægi, sem nú er, að skattleggja suma framleiðendur til þess að styrkja aðra. Ég hygg, að því fari mjög fjarri, að þetta frv. verði til hagsbóta fyrir þá, sem því er ætlað að hjálpa. Ég lít svo á, að bezt mundi gefast að láta framleiðendur sjálfa koma sér saman um markaðinn og lofa þeim að vera lausum við afskipti löggjafarvaldsins í þessu efni. Ég spái því, að þessi lög verði ekki langlíf, þó að frv. nái samþykki. Ég er viss um, að stórir gallar á l. eiga eftir að koma í ljós, og að svo vandfarið verður með þau, að þetta verður eilíft vandræðamál. Ég skal játa, að ég tel, að brtt. meiri hl. landbn. gangi í rétta átt, að því leyti, sem þær viðurkenna ranga meðferð málsins í hv. Ed. En hv. meiri hl. n. hefði bara átt að viðurkenna það ranglæti, sem í því er fólgið að taka þarna réttindi af einum og færa öðrum, og hann hefði átt að leggja til, að þessir aðilar fengju að selja beint til neytenda. — Mig langar til að drepa hér á eitt atriði og upplýsa annað. Ég vil upplýsa, að eftir því sem ég hefi heyrt hefir fulltrúi Rvíkur í mjólkursölunefndinni talið um 3000 lítra ársframleiðslu mjólkur úr kú og gert kröfu til, að eigi væri greitt verðjöfnunargjald af 3000 lítrum úr kú, ef framleiðendur í bæjarlandinu fengju þessa undanþágu. — Þá vildi ég spyrjast fyrir um það, sem um hefir verið getið á prenti, að ríkisstj. hafi gefið einhverjum samtökum bænda hér einkaleyfi til innflutnings á mjólkurafurðum a. m. k. til Rvíkur. Ég vil spyrja, hvort þetta sé rétt, og ef svo er, við hvaða lög það styðst. Einnig vildi ég spyrja, hve miklu þessi innflutningur nemur og hve mikinn hagnað má áætla af þessum sérréttindum. Mér þykir líklegt, að hér geti verið um allmikinn hagnað að ræða. Það þarf t. d. að flytja inn mikið af smjöri, því að innlenda framleiðslan fullnægir ekki eftirspurninni. Ég vildi spyrja, eftir hvaða lögum þetta er gert og hver reynslan hefir orðið um hagnað af þessum innflutningi. Mér þótti rétt, að þetta kæmi fram hér, því að það stendur í sambandi við þá löggjöf, sem hér er verið að ræða.