13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég vil náttúrlega ekki færast undan því að tala í málinu, enda þótt að nóttu sé og hálfóviðkunnanlegt að horfa á deildina einna líkasta tannlausum góm í kerlingu, og leiðinlegt að flytja skynsamlegar ræður um þörf málefni yfir tómum stólum. Vitanlega eru oft færri viðstaddir en nú, því stundum skipa forseti og ræðumaður meiri hl. fundarmanna, en náttúrlega er það engu lagi líkt að tala um málin yfir ekki fleiri þm. (BB: Það er 2/3 deildarmanna viðstaddir). Það sér á, að hv. þm. er orðinn syfjaður, því ég er viss um, að hann sér ekki tvöfalt af öðrum ástæðum. Ég læt þá þessa aths. nægja og skal ekki skorast undan að halda áfram umr., úr því það er vilji hæstv. forseta.

Hæstv. forsrh. var að gera tilraun til þess af veikum mætti að snúa út úr fyrir mér. Honum tókst það — eins og vænta mátti — eftir því sem efni og geta leyfðu, en heldur ekkert þar fram yfir. Ég get vel skilið, að hann iðrist orða sinna, er hann sagði, að kýrnyt væri lægri utan Rvíkur en innan hennar og að það stafaði af meðferð kúnna. Hann notaði þau orð, að meðferðin mundi valda því. Mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. skuli hafa lært af minni ræðu, að þetta stafar af allt öðrum ástæðum, m. a. af fóðurbætisgjöf, sem er miklu meiri í Rvík en úti í sveitum. — Þá er mjög óviðkunnanlegt og ómaklegt að nota þau ummæli, er hæstv. ráðh. gerði í garð Mjólkurbandalagsins Ég hefi hér áður leitt rök að því, að Mjólkurbandalagið hefir starfað í ágætri eða góðri samvinnu innbyrðis, með góðum eða sæmilegum árangri undanfarin ár. En hæstv. ráðh. lét sér ekki segjast, heldur hélt áfram deilunni á Mjólkurbandalagið, fullyrti, að megnasta óeining hefði verið í samstarfinu og leiddi rök að því, að mjólkurbúðum hefði fjölgað óeðlilega o. fl. Ég hygg, að réttara hefði verið, að hann hagaði orðum sínum á þann veg, að þrátt fyrir gott samstarf hefði komið sá galli í ljós, að mjólkurbúðir væru fleiri hér í bænum en þörf er á, og til að hindra þetta hafa meðlimir Mjólkurbandalagsins leitað aðstoðar löggjafans, til að koma á fækkun búðanna með eðlilegum hætti. Sú ósk eða krafa framleiðendanna lýsti sér í frv. því, sem ég flutti á aðalþinginu 1933. Frv. var flutt með sameiginlegum vilja þeirra, sem að Mjólkurbandalaginu standa, eða samkv. till. framleiðendanna sjálfra, og hefði að þeirra dómi verið nóg til að tryggja það, sem tryggja þurfti af hálfu löggjafarinnar.

Hæstv. forsrh. hélt því fram, að í frv. því, sem hér liggur fyrir, væri gengið lengra en í frv., sem ég flutti 1933, í því að tryggja hagsmuni eða rétt reykvískra framleiðenda. Þetta er náttúrlega skakkt, og er leiðinlegt, að ráðh. skuli vera svo ókunnugur þessu frv., sem hann hefir fjallað svo mikið um, eins og þessi ummæli bera vitni, ef hæstv. ráðh. er ekki að fara hér vísvitandi með ósannindi.

Ef tekinn er 8% skattur af framleiðslunni hér, þó ekki sé nema af 2000 lítrum, þá er hér um verulega meiri upphæð að ræða en samkv. mínu frv., þar sem gert var ráð fyrir 50 kr. af kú. Ég hygg, að þetta sé rétt með farið, og óhætt fyrir hvern sem er að líta í þingtíðindin frá því 1933, að þar sést ekki annað. En ef það reynist nú svo, að ég fari með rétt mál, þá er það heldur leiðinlegur vitnisburður fyrir hæstv. ráðh., að þekkja ekki betur til málsins en þetta, þar sem þetta er annað aðalmál hans og segja má, að hann hafi ekki nema tvö mál, lögin um sölu mjólkur og kjöts, á þessu þingi. Ég verð líka að draga í efa, að ráðh. viti þetta ekki, því allar líkur benda til, að hann viti, að þetta er svona. Verð ég því að ásaka hann fyrir að raska staðreyndum, og er leiðinlegt fyrir hann að geta ekki talað í þessu máli án þess að gera það.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að þetta væri hagsmunamál mitt og snerti mig persónulega og að ég talaði um þetta mál af vanstillingu og æsingu. Þetta er nú bara orðatiltæki, sem hæstv. ráðh. hefir vanið sig á, og er fálm út í loftið, til að svara með orðagjálfri, þegar rökin skortir, þó að það sé mjög óviðeigandi af hæstv. ráðh.

Mér þætti gaman að vita, hvað hæstv. ráðh. á við, þegar hann er að tala um, að þetta sé stórt hagsmunamál fyrir mig. Það er rétt, að þetta er hagsmunamál minna kjósenda, sem mér er skylt að vera á verði um sem þeirra umboðsmaður hér. En ef hæstv. ráðh. er að brýna mig með, að faðir minn á kýr, þá þætti mér gaman að horfa framan í hæstv. ráðh. Því ég er fremur ámælisverður fyrir að hafa ekki reynt að vernda hans hagsmuni, sem eru sérstæðir, því hann hefir meiri hagsmuna að gæta í sambandi við þetta frv. en nokkur annar einstakur maður. Ég verð að segja, að ef hópur manna hefði hér átt hlut að máli, hefðu þm. hreyft þeirra hagsmunakröfum hér; enginn þm. hefði dirfzt að ganga framhjá því. Hann hafir lagt hér fram mikið fé, kannske ½ millj. meira en þörf var á, vegna þess að þetta var honum hugsjón, að tryggja mjólk með viðunandi heilnæmi handa börnum og sjúklingum. Ég hefi ekki borið hönd fyrir höfuð þessa manns, vegna þess að hann er faðir minn. Mér þykir því hart að vera brigzlað um það úr ráðherrastóli, að ég eigi hér persónulegra hagsmuna að gæta, þar sem þetta er svo fjarri, að ég hefi vegna þess að ég er sonur þessa manns látið mannúðar- og réttlætiskröfur liggja í þagnargildi, og ætti frekar að hallmæla mér fyrir það sinnuleysi, sem ég hefi sýnt. En ég treysti því, ef hæstv. ráðh. er réttlátur, að hann hafi í hyggju sjálfur að taka fullt tillit til þessa manns, — og það hefði hann átt að vera búinn að taka sig fram um, ef hann hefði rænu á að gæta hagsmuna allra aðila.

E. t. v. tekur hann tillit til þessara , aðstæðna við framkvæmd laganna, og ég krefst þess, að hann geri það a. m. k. er hans hagsmunir falla saman við kröfur um heilbrigðilega meðferð mjólkur. Ég er ekki með þessu að gera hæstv. ráðh. neinar getsakir í þessum sökum, en ég vil ekki liggja undir því að hlusta á brigzlyrði úr ráðherrastóli fyrir engar sakir. Ég hefi hagað öllum mínum gerðum, bæði leynt og ljóst, til að tryggja hagsmuni manna í mínu kjördæmi, en ekki persónulega sérstaka hagsmuni þessa eina manns, af þeim ástæðum, er ég hefi greint. Ég er sannfærður um, að það er hægt — án þess að rýra hagsmuni annara — betur en gert er í lögunum, en ég viðurkenni, að það er hægt í framkvæmd þeirra, en ég vil bíða átekta, enda er það hans, en ekki mitt, að bera fram umkvartanir, ef honum finnst ástæða til. Þetta eru þau einu ummæli, sem ég hefi látið falla við þessar umr., er snerta hagsmuni föður míns, til þess knúður af hæstv. ráðh., og tel ég því, að ekki hafi ég gengið of langt eða lengra en velsæmi heimilar, heldur skemmra en réttlætistilfinning býður mér.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, að heimildin fyrir innheimtu verðjöfnunargjalds mætti ekki vera minni en 8%. Er það ekki rétt? (Forsrh.: Jú). Ég verð að segja, að ég bíð með óþreyju eftir svari. Ég hefi heyrt frá aðilum, að ráðh. hafi sagt, að hann ætlaði sér ekki að nota þessa heimild, en ég bjóst við, að ekki þyrfti að grípa til þess að nota 8%. En sé svo, að ráðh. ætli að nota heimildina, tel ég miður farið, ef Alþ. leggur blessun sína yfir þau lög, að ráðh. innheimti þennan skatt. Ég viðurkenni, að það er réttlátt, að þeir menn greiði einhvern skatt, sem fá að nota einhvern bezta markaðinn á landinu.

Það er margt, sem ég þyrfti að ræða í sambandi við þessi lög, og ég veit, að hæstv. forseti viðurkennir þetta fúsastur manna, að ekki sé gagn í að ræða málin svo síðla nætur, þegar margir þm. eru fjarverandi. Hæstv. forseti mun ennfremur viðurkenna, að rólegar og skynsamlegar umr. um málið gætu helzt leitt til þess, að þær breyt. fengjust á löggjöfinni, sem bornar eru fram á réttan hátt, og að friðsamleg lausn fengist á ágreiningsatriðunum, miklu fremur en að halda þrásetum uppi við umr. Er bæði óréttlátt, óskynsamlegt og skaðlegt að haga þannig afgreiðslu mála. Ég skal viðurkenna, að nauðsynlegt getur verið að halda langa fundi. 14 —16 klst. í sólarhring hvað eftir annað er þreytandi fyrir þm., og ef stjórnarflokkunum er illa við slíkar setur, ætti hæstv. ríkisstj. að gæta hófs um flutning mála, svo að umr. og öðrum þingstörfum gæti verið lokið með eðlilegum hætti.

Ég viðurkenni ekki, að beitt hafi verið málþófi, og fullyrði, að í stærri málum hefir málþófi aldrei verið beitt. Þeir, sem setið hafa á Alþ. áður, vita, að um deilumál og öll stórmál hafa flokkarnir þurft að leita upplýsinga og þótt nauðsynlegt að þær kæmu fram, og oft áður voru miklu lengri umr. um smærri mál en nú eru um stórmálin. Hæstv. forseti veit vel og viðurkennir, að það er engin meining í því að ræða jafnmikið alvörumál og það, sem hér liggur fyrir, um hánótt yfir auðum bekkjum. Ég er ekkert áfjáður í að raska svefnró hv. þdm. Ég á hér við hv. þm. N.-Þ., sem er nú að rumska og rífa upp augun. Ég skil það vel, að hann hafi ekki ánægju af því að hlusta á mig halda ræður. Þótt ég sé persónulega beittur þeim órétti að fá ekki að ræða um þetta þýðingarmikla mál, vil ég samt mælast til þess, að hæstv. forseti beiti aðra hv. þm. ekki þessum sama órétti. Þetta mál er þannig vaxið, að það hlýtur að vera hægt að ræða það með rólegu móti og bera fram umbótatill. við það, því ð það er ekki flokksmál. Skilyrðið fyrir því, að þetta sé hægt, er, að menn heyri mál þeirra hv. þdm., sem eitthvað hafa um málið að segja, en brjóti ekki heima í rúmum sínum.