13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það skal ekki vera langt að þessu sinni. — Ég vil, að landbrh. upplýsi meira það, sem ég spurði áðan um innflutning til landsins á landbúnaðarvörum, sérstaklega á smjöri. En ef hann er ekki viðbúinn að svara því nákvæmar en hann gerði, þá vil ég óska, að hann rannsaki það í sínum plöggum í ráðuneytinu, hvort svo er, að einhver mjólkurbú hafi einkaheimild til innflutnings á smjöri, og ef svo er, hvað mikið flutt er inn, og hvort líkur séu til, að það muni haldast, og þá hvað mikið þurfi að flytja inn af smjöri á hverju ári. Þetta skiptir miklu máli í sambandi við þetta mál. Ég vona, að hann svari þessu síðar, ef hann er ekki við því búinn nú.