14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Ólafur Thors:

Hæstv. forseti veit það og viðurkennir, og ég veit, að hv. þm. gera það líka, að hér var nú látin fram fara atkvgr. um þetta mál, af því að það var talið, að það skipti engu máli, þó að fjarstaddir væru tveir sjálfstæðismenn. Annars hefir forseti að undanförnu ekki látið atkvgr. fara fram, ef menn eru fjarstaddir, og sýnt með því sjálfsagða sanngirni. Sjálfstfl. gat fallizt á, að atkvgr. færi fram nú, þó að allir þm. flokksins væru ekki við, af því að þessar brtt. voru teknar aftur til 3. umr. Þetta var talað um, áður en atkvgr. byrjaði. Þó að heimilt sé að taka upp till., þá er það brot á því samkomulagi, sem gert var áður en atkvgr. byrjaði, og það er ekki sæmandi fyrir hv. 2. þm. Reykv. að ganga á þetta lag, þó að hann hafi þingræðislegan rétt til þess.