18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal taka það fram, að þar sem meiri hl. n. hefir ekki komið sér saman um að bera sameiginlega fram fleiri brtt. heldur en eru á þskj. 881, get ég vitanlega ekki fyrir hennar hönd mælt með brtt., sem komið hafa fram frá hv. 2. þm. Reykv., hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak. Brtt. hv. þm. A.-Húnv. eru að nokkru leyti afturgöngur frá síðustu umr., sem þá voru felldar.

Það er þá fyrst, að í stað þess að hámark verðjöfnunargjaldsins var ákveðið 8%, þá flytur hann till. um, að verðjöfnunargjaldið verði fært niður í 6%. Ég gerði nokkra grein fyrir því við 2. umr. málsins, að það mætti ekki spilla þessu máli. Ef verðjöfnunargjaldið væri sniðið svo við neglur sér, að það nægði hvergi nærri til þess að koma á réttlæti milli þeirra, sem njóta neyzlumjólkurmarkaðsins, og hinna, sem fyrir utan hann standa, mundi það skapa óánægju og það yrði til þess að raka grundvellinum undir málinu. Hinsvegar verður maður að treysta því, að þetta gjald verði ekki hækkað meira en nauðsynlegt er til þess að halda þessu jafnvægi.

Þá er a-liður 3. brtt. mjög svipaður þeim, sem felldur var niður við 2. umr. málsins, vegna þess, að menn hræddust það við nánari athugun; að það ákvæði mundi verða til þess, að mjög yrði farið í kringum það við framkvæmd laganna.

Þá eru hinar aðrar brtt. hv. þm. aðallega um breyt. á fyrirkomulagi og yfirstjórn þessara mjólkurmála, og eru að vísu að formi til nokkuð öðruvísi en þær brtt., sem hann bar fram við 2. umr. Ég andmælti þeim þá fyrir hönd meiri hl. n., og geri það eins enn. Ég get ekki fallizt á þessar breyt. á fyrirkomulagi mjólkursölun., sem hér er farið fram á, en hitt get ég fallizt að ýms fleiri atriði gætu komið til greina við skipun n., en ef ætti að breyta henni á annað borð, mundi ég leggja til, að það yrði gert öðruvísi en hér er farið fram á, og ég álít, að ekki sé heppilegt að gera það nú, sem hefir í för með sér verulega röskun á fyrirkomulagi málsins. Ekki sízt fyrir það, hvað áliðið er orðið þings, og jafnvafasamt er, hversu vel gengur að koma málum fram, þá verð ég fyrir mitt leyti að leggjast á móti þessum brtt., og ég greiddi atkv. við 2. umr. málsins gegn annari breyt. á stjórnarfyrirkomulagi þessara mála, sem þó var miklu réttlátari en þær, sem hér liggja fyrir. Ég mun því ekki ljá atkv. mitt brtt., sem ég álít að standi ennþá fjær því rétta heldur en þær, sem ég greiddi atkv. á móti þá.

Ýmsar aðrar brtt. frá hv. þm. eru, eins og ég sagði, nokkurskonar afturgöngur frá þeim brtt., sem hann bar fram við 2. umr. og þá voru teknar aftur. Þær voru þaulræddar, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara mjög langt út í þær í viðbót við það, sem þá var gert.

Þá eru hér brtt. á þskj. 870, frá hv. 2. þm. Reykv. Ég get sagt það fyrir munn meiri hl. n., að hann leggur á móti þeim. (HV: Ekki öllum). Það er þá fyrsta brtt.: Í stað „eina kú“ komi: 3000 lítrar, sem nm. hafa óbundnar hendur um. Það má vera, að sumir hv. nm. greiði þeirri brtt. atkv. En hin brtt. er um breyt. á tilhögun á stjórn þessara mála, og legg ég mjög mikið á móti henni, því að eins og ég sagði áðan hefi ég áður gengið á móti brtt. um fyrirkomulag á stjórn mjólkurmálanna, sem ég áleit vera miklu meira í réttlætisáttina heldur en þessi brtt., og tel ég sízt ástæðu til að breyta til í þá átt, sem hv. þm. leggur til. Enda veit ég ekki betur en að það sé nokkurnveginn samkomulag um í höfuðatriðum, hvernig þessi n. skuli vera skipuð, og tel ég því óheppilegt að koma með brtt. á þessu stigi málsins, sem stórkostlega raskar því. Það verður líka að gæta þess, að þetta mál, sem er mjög vandasamt, bæði að því er snertir undirbúning og framkvæmd, og þar að auki nýtt og óreynt, verður sennilega á næsta þingi tekið til meðferðar og gerðar á því þær breyt., sem í framkvæmdinni sýna sig að vera nauðsynlegar. Ég tel því, að menn megi vel við það una að bíða með þær breyt., sem þeim þætti ástæða til að koma með um hin stærri atriði, þangað til það hefir sýnt sig, hvernig lögin verka, því að það er óhjákvæmilegt, að lögunum verði breytt á næsta þingi, því að hvað mikið sem til þeirra væri vandað, er ómögulegt að sjá svo vel, hvernig sem eiga að vera, að ekki komi í ljós við framkvæmd þeirra, að eitthvað vanti.

Þá er það c-liður brtt. frá hv. 2. þm. Reykv., sem ég verð einnig að leggjast á móti. Það má að vísu um það deila, hvort kostnaður vegna skipulags og framkvæmdar þessara mála skuli að öllu leyti leggjast á þá vörutegund, sem hér um ræðir, eða að einhverju leyti lagt á ríkissjóðinn. Svipuð ákvæði og eru í þessu frv. er búið að lögfesta í kjötlögunum, og sé ég ekki ástæðu til þess að taka þessi lög út úr. Verði það ofan á, að alþingi breyti því í þá átt, að kostnaðurinn við framkvæmd þessarar löggjafar lendi á viðkomandi vörutegund, þá er hreinlegra að taka bæði málin saman og breyta þeim báðum í sömu átt, heldur en að fara að taka annað út úr, en skilja hitt eftir. Annars verð ég að segja það, að ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta mál neitt verulega meira heldur en búið er; það hefir eins og kunnugt er verið gert mjög ýtarlega á þessu þingi. En það er veruleg nauðsyn að hraða þessu máli sem mest, og ekki ástæða til að vera að karpa um einstakar hliðar þess og aukaatriði.