18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér þykir rétt að nota tækifærið til þess að gera grein fyrir mínu atkv. um þetta mál, og reyndar líka um kjötsölulögin, sem þegar hafa verið afgr. frá þinginu, en ég hefi ekki hingað til eytt tíma þingsins í ræðuhöld um þessi mál. Hinsvegar er ég einn dm. og raunar þm. yfirleitt, sem greitt hefi atkv. gegn kjötsölulögunum og þessu frv., en að öðru leyti skipt mér lítið af því, hvernig þau voru úr garði gerð í einstökum atriðum. Ég hefi greitt atkv. á móti þessum frv. af því, að ég tel, að þau séu borin fram með skammsýni og alveg í þveröfuga átt við það, sem gera ætti. Tilgangur þessarar lagasetningar er sá, ýmist að halda uppi óeðlilega háu verði á innlendum afurðum eða hindra eðlilega verðlækkun. Þetta gerir það að verkum, að framleiðslukostnaði í landinu er haldið uppi og framleiðslan gerð dýrari og þjóðinni þar með gert erfiðara fyrir um að keppa í framleiðslu þeirra afurða, sem fluttar eru úr landi og seldar á erlendum markaði. Það er rétt, að þessi stefna hefir verið tekin upp í ýmsum löndum, og þar á meðal í Bandaríkjum Norður-Ameríku. En að því er ég bezt veit, þykja þessar tilraunir þar hafa mistekizt gersamlega, og nú sé á þann veg komið, að menn séu að hverfa frá þessari villukenningu, sem haldið hefir verið mjög á lofti í heiminum nú á síðustu árum.

Það er ekki svo um verðlag á innlendum afurðum, að það skeri sig úr, hvað það sé lægra heldur en á öðrum vörutegundum, heldur þvert á móti, því að á ýmsan hátt er því haldið uppi, með innflutningshömlum o. fl., og hafa því framleiðendur þeirrar vöru, sem seld er á innlendum markaði, sízt ástæðu til að kvarta, þar sem verð á landbúnaðarafurðum hefir verið hlutfallslega miklu hærra heldur en á sjávarafurðum, sem seldar eru út úr landinu, svo að það er ekki um það að ræða, að þessi atvinnuvegur sé verr settur heldur en sá höfuðatvinnuvegur, sem allur þjóðarbúskapurinn hvílir á, sjávarútvegurinn. En það liggur í augum uppi, að ef dýrtíðinni er haldið við eða hún aukin í landinu sjálfu, þá verður varan, sem þarf að flytja út og selja á erlendum markaði, óeðlilega dýr og framleiðslukostnaðurinn óeðlilega mikill. Það leiðir aftur af sér, að atvinnureksturinn dregst aftur úr, þangað til hann verður ósamkeppnisfær við atvinnurekstur annara þjóða.

En með hverju á þá að borga landbúnaðarframleiðsluna, þegar atvinnuvegurinn, sem þjóðarbúskapurinn hvílir á, er lagður í rústir? Eina ráðið til þess að bjarga við atvinnuveginum er að minnka sem mest dýrtíðina í landinu og koma verðlaginu á nauðsynjum almennings sem mest niður. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það mun sýna sig, að fyrsta afleiðingin af þessari tilraun til þess ýmist að hækka verðlagið á innlendum afurðum innanlands eða halda verðlaginu á þeim óeðlilega háu, leiðir til þess, að minna verður neytt af þessari vöru. Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að ef nú, í stað þess að halda uppi eða jafnvel að hækka verðið á mjólkinni, væri tekið það ráð að lækka það, mundi neyzlan vaxa svo mikið, að framleiðendur mundu komast eins vel af með því móti eins og með því að halda verðlaginu óeðlilega háu, því að með því að lækka verðið mundi neyzlan aukast, en með því að hækka það hlýtur neyzlan óhjákvæmilega að minnka, og þar af leiðandi aftur, að það vörumagn, sem ekki verður selt sem neyzlumjólk, fer stöðugt vaxandi ár frá ári. Ég veit, að því hefir verið haldið fram í sambandi við þetta mál og kjötsölumálið líka, að ef ekkert hefði verið að gert, hefði mátt gera ráð fyrir óeðlilega mikilli verðlækkun á þessum vörum, af því að framleiðsla þeirra vaxi meira heldur en svari til þess, sem almenningur þarf til neyzlu. En þar til er því að svara, að framleiðendum sjálfum hefði verið fullkomlega trúandi til þess með frjálsum samtökum sín á milli að koma í veg fyrir, að sú verðlækkun hefði verið óeðlilega mikil. En það hefir engin tilraun verið gerð til þess að ná þessum tilgangi með frjálsum samtökum, af því að framleiðendur hafa vitað, að þeir höfðu aðstöðu til þess að þvinga í gegnum þingið þvingunarlög, sem svo væri hægt að nota til þess að skapa óeðlilega hátt verðlag, hærra en eðlilegt er og líkur eru til, að unnt hefði verið með frjálsum samtökum. Þó að frjáls samtök hefðu nægt til þess að halda uppi eðlilegu verðlagi, hefir ekki verið til þeirra gripið, en það er nú ljóslega komið á daginn, að framleiðendur hefðu getað treyst á þetta, því að meðferð þessa máls hér á þinginu sýnir, að bæði einstakir þm. og eins flokkar keppast um það, hver getur sýnt meiri skammsýni og meira ofbeldi í þessum efnum til þess að þóknast framleiðendum. Afstaða mín til þessa máls byggist m. ö. o. á því, að ég tel, að slík löggjöf miði eingöngu að því að skapa óeðlilega hátt verðlag í landinu, sem ekki er hægt að halda uppi til langframa, og gerir því ekki nema illt eitt, þó að rétt í svip kunni að virðast verða einhver annar árangur af þessari löggjöf. Ég verð jafnframt að láta í ljós, hvað ég er hissa á því, að sömu stjórnmálamenn — sem eru báðir stjórnarflokkarnir í heild —, er hafa að undanförnu verið að mikla sig af því, að þeir umfram allt vildu vinna bug á dýrtíðinni í landinu, hafa nú sýnt í verkinu, hver hugur hefir fylgt máli í þessu efni. Sérstaklega vil ég láta koma fram, hvað ég er hissa á afstöðu annars stjórnarfl., sem er Alþfl., er mér virðist, að fyrst og fremst ætti að gæta hagsmuna neytendanna í sambandi við þessa framleiðslu og jafnframt sjálfir að hegða sér eftir heilbrigðri skynsemi. En þeir brjóta á móti þessu hvorutveggja: ganga á móti hagsmunum neytendanna og brjóta í bág við öll boðorð heilbrigðrar skynsemi jafnframt. Ég hefi því ekki séð neina ástæðu til þess að taka upp baráttu með þeim mönnum, sem þannig haga sér, og ég þykist ekki sjá fram á, að barátta á móti þessum öfgum beri neinu árangur. Þess vegna hefi ég lítið hafzt að í þessu máli hér á þingi.