18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég get ekki fallizt á það, sem hæstv. forsrh. sagði viðvíkjandi brtt. mínum, t. d. um þessa 3000 litra undanþágu.

till. er borin fram eftir ósk framleiðenda hér í bænum. Ég álít alveg ljóst, að það sé réttari mælikvarði en að miða við kú, þar sem t. d. kvíga væri metin jöfn góðri mjólkurkú. Mér finnst því sjálfsagt að miða við kýrnyt, eins og t. d. gert er í 5. gr.

Viðvíkjandi síðasta liðnum, um þóknun til mjólkursölunefndar, þá get ég að vísu ekki fallizt á þá ástæðu, sem hæstv. forsrh. kom með fyrir því, að ætti að deila honum eins og um getur í frv., því að þótt það sé, að í n. séu menn, sem ekki eru kosnir af framleiðendum, eins og t. d. af bæjarstj. Rvíkur og Alþýðusambandi Íslands, þá geri ég ráð fyrir, að þeir vinni alveg sama verk í n. eins og hinir, og þess vegna komi starf þeirra að sama gagni fyrir mjólkursöluna. Svo er það nauðsynlegt fyrir bændur að hafa vinsamlega samvinnu við þá, sem eiga að neyta mjólkurinnar, því að það mun jafnan haganlegast fyrir báða aðila. Aftur á móti er ástæðan, sem hæstv. forsrh. kom með, að í öðrum svipuðum 1., sem hér hefðu verið sett, hefði svo verið ákveðið, að þetta skyldi greiða úr ríkissjóði, og tími væri til að taka það til athugunar fyrir næsta þing, sú ástæða er þess valdandi, að ég mun taka þessar till. aftur, í trausti þess, að það verði tekið til athugunar sameiginlega bæði með þessa mjólkursölunefnd og kjötverðlagsnefnd, og eins með fiskimálanefnd og síldarútvegsnefnd á sínum tíma, að kostnaðurinn við þær verði látinn falla á vörurnar sjálfar, en ekki á ríkissjóð. Í því trausti tek ég till. aftur. En ef ég á sæti á næsta þingi, mun ég muna eftir að koma með tilsvarandi brtt.

Viðvíkjandi b-liðnum gat hæstv. forsrh. ekki sannfært mig. Ég tel það réttara og í meira samræmi við tilhögun kjötverðlagsn., að n. sé skipuð á þennan hátt. Þetta getur kannske ekki talizt stórt atriði á neinn hátt, en það má gera ráð fyrir því, að sá, sem kosinn er af bæjarstj. Rvíkur sé ekki frekar talsmaður neytenda en framleiðenda.