04.12.1935
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég kvaddi mér hljóðs í því skyni að fara fram á, að þessu máli væri frestað, af því að við tveir nm., sem skrifuðum undir nál. með fyrirvara, ætluðum að bera fram brtt., en það má raunar eins gera það við 3. umr., svo að ég mun ekki leggja neitt kapp á að fá málinu frestað þess vegna. Ég get lýst þessari brtt. nú þegar, en hún lýtur að því, að numið sé burt það ákvæði að binda innflutningsleyfi við gjaldeyrisleyfi. Það má benda á reynslu undanfarinna ára, því að við höfum raunar búið við þessi innflutningshöft síðan 1920, þó að nokkur ár féllu úr um miðbik þess tímabils, en öll þessi ár, sem innflutningshömlur hafa verið í lögum, hefir verið hægt að fá hér hverja þá vöru, sem nokkur girntist. Afleiðingarnar hafa aðeins orðið þær, að vörurnar hafa verið seldar hærra verði en ella. Hefir því reynslan sjálf sannað máttleysi innflutningshaftanna mjög greinilega. Innflutningurinn hefir verið nokkuð mismunandi frá ári til árs, en af þeim sveiflum má sjá, hve gersamlega áhrifalaus þessi höft hafa verið á innflutninginn. Gjaldeyrispostularnir segja að vísu, að nú eigi að taka þetta mál föstum tökum og gera gangskör að því að beita þessum innflutningshöftum. Þetta hefir oft verið sagt áður, en reynslan hefir jafnan orðið sú sama. Þessar reglur hafa alltaf reynzt afsleppar og engin tök náðst á framkvæmdinni, hvað þá föst tök. Afleiðingin hefir helzt orðið sú, að einum hefir verið bannað og öðrum leyft, og þannig misskipt á milli manna á ýmsa vegu. Verzlanir fá að setja upp nýjar deildir með vörur, sem innflutningshöft eru á, án nokkurrar hindrunar, og ég býst við, að á þessu verði ekki nein breyting. Vegna verzlunarsamninga við ýmsar þjóðir verður líka að leyfa innflutning frá þeim. Ég held, að eina leiðin, sem hægt er að fara í þessu máli, sé að beina viðskiptunum til þeirra þjóða, sem við höfum gott af að verzla við. En það er hægt með gjaldeyrishömlum, og ég neita því ekki, að þeirra sé þörf. En við munum, eins og ég tók fram, bera fram brtt. við frv. við 3. umr.