18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil geta þess til leiðbeiningar hv. þm., að ég hefi rekið mig á prentvillu á þskj. 881, 2. lið 2. málsgr. Þar stendur: „Nú er svo háttað sem segir í upphafi 5. gr., og er þá öðrum hlutaðeigandi mjólkurbúum“ o. s. frv., en á að standa „öðrum en hlutaðeigandi mjólkurbúum“ o. s. frv. Þetta vildi ég biðja hv. þm. að athuga og leiðrétta.

Út af fyrirspurn hv. þm. Snæf. skal ég geta þess, að n. tók einmitt þetta atriði, sem hann minntist á, til meðferðar og athugaði, hvort ástæða væri til að setja inn í frv. ákvæði um þetta atriði, sem hann minntist á, sem sé að þeir, sem næstir eru markaðinum, fái að sitja fyrir um mjólkursölu, en hún áleit, að þess mundi ekki þurfa með, því að eins og hefir verið getið um áður, þá er það tilgangurinn með þessu verðjöfnunargjaldi, að haga flutningum til markaðsins þannig, að þeir, sem fjær eru, taki aðallega að sér vinnsluna og fái styrk úr verðjöfnunarsjóði, en þeir, sem nær búa, sitja að mjólkurmarkaðinum, og þeir með verðjöfnunargjaldinu kaupi hina út af markaðinum, ef svo mætti orða það. Ef farið væri að flytja mjólk inn á markaðinn langan veg, en væri hægt að fá hana miklu nær, þá væri það svo mikil grundvallarröskun á lögunum og tilgangi þeirra, að ég býst ekki við, að það komi til mála.