18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að samband er á milli þess, sem hv. þm. Snæf. sagði um hina landfræðilegu afstöðu, og verðjöfnunargjaldsins. Eftir því sem verðjöfnunargjaldið er lægra, eftir því verður munurinn meiri á verði mjólkurinnar hjá þeim, sem búa nærri og fjarri Rvík. Því má ekki hafa hámark verðjöfnunargjalds svo lágt, að þessi munur verði óeðlilega mikill og valdi óánægju. því er fjarri sanni að færa hámarkið niður í 6%, eins og hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Hún. leggja til. Komi það í ljós, að verðjöfnunargjald það, sem ákveðið er í frv. reynist ekki nógu hátt, verður að hækka hámarksgjaldið.

Hitt kemur auðvitað ekki til mála, að mjólk úr fjarlægum héruðum verði hleypt inn á Rvíkurmarkaðinn að þarflausu, þó að slíkt sé ekki beint bannað í lögunum, enda væri þá allt verðjöfnunargjald til einskis. Þeir, sem úrskurða um slíkt, eru vitanlega forráðamenn mjólkurbúanna og mjólkursölunefnd. Annars er ætlunin að leysa þessi mál öll með frjálsu samkomulagi, en verði ágreiningur, úrskurðar n. En það vil ég undirstrika, að ekki kemur til greina að jafna muninn milli þeirra, sem nær og fjær búa Rvík, á annan hátt en með verðjöfnunargjaldi, eftir því sem það hrekkur til.