07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er dálítið skringilegt, hvernig hæstv. forseti fer í felur með dagskrána. Það er eins og hann hafi það fyrir augum, að koma mönnum á óvart. Hann grípur niður hingað og þangað. En þetta er auðvitað tiltölulega saklaust. Minni hl. fjhn. hefir borið fram brtt. á þskj. 654, sem fer í þá átt að fella niður úr frv. heimild þá til innflutningstakmarkana, sem í því felast, og takmarka störf n. við gjaldeyrisúthlutunina. Reynslan virðist hafa sýnt það, að almennar innflutningshömlur hafa litla þýðingu. Það er kunnugt, að í daglegum viðskiptum er hægt að fá hvaða vöru sem er. Það hafa nú í hálfan annan áratug verið framkvæmdar innflutningshömlur að meira og minna leyti, og hefir reynslan sýnt, að þær hafa aldrei borið neinn árangur. Þegar takmarkanirnar hafa átt að vera sem strangastar, þá hefir innflutningurinn jafnvel verið mestur. Það hefir bólað á því, að þetta innflutningshaftafálm hefir gert það að verkum, að innflutningur hefir verið óeðlilegur og að safnazt hafa til landsins vörur, sem ekki hefir verið bannaður innflutningur á meir en þörf er á, og verzlunin því orðið óheppileg. En ekkert gagn hefir verið sjáanlegt af þessu. Þegar þar við bætist nú, að ekki er hægt að framkvæma þetta bann vegna verzlunarsamninga við erlendar þjóðir, þá er tilgangslaust að hafa þetta í l. Því er haldið fram, að þetta sé nauðsynlegt vegna þess, að annars, gætu menn fengið vörur að láni og safnað skuldum, og svo reki að skuldadögunum, og þá sé ekki hægt að standa á móti því, að menn fái gjaldeyrisleyfi. Það er ástæðulaust að óttast þetta, og þetta er ekkert annað en blekking. Því að viðskiptaörðugleikar þeir, sem þjóðirnar eiga nú við að stríða, gera það að verkum, að þeir, sem lánin taka, verða að taka á sig áhættuna og taka afleiðingunum, ef gjaldeyrisleyfi fæst ekki. Það kemur ekki til mála að gera þá kröfu til nokkurrar þjóðar, að hún standi skil á slíkum skuldum. Það er því óskiljanlegt, hvers vegna á að halda í þetta ákvæði, þar sem það liggur í augum uppi, að auðveldara er að takmarka gjaldeyrinn einn saman heldur en að vera að rogast með innflutningshöft, sem ekki koma að neinu haldi. Ég er sannfærður um, að með því að flétta innflutningsleyfin inn í l. er framkvæmd þeirra gerð erfiðari og árangur engu betri. - Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég hefi margsinnis rætt þetta mál síðan 1920, er fyrstu l. um þetta voru sett, og maður þreytist á að þylja sömu rökin ár eftir ár. En allt, sem ég hefi haldið fram um þetta, hefir reynzt rétt. Ég veit ekki til þess, að í nálægum löndum séu framkvæmd slík innflutningshöft sem verið er að fálma við hér. Í öllum löndum er haft eftirlit með gjaldeyrisnotkun, en viðskipti einstakra manna eru látin afskiptalaus að mestu leyti. Brtt. hnígur eingöngu að þessu, og býzt ég við, að hv. þdm. eigi auðvelt með að átta sig á henni.