07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hefi gaman af því að minna hv. þm. V.-Ísf. á það í sambandi við það, sem hann sagði um skuldasöfnunina erlendis, að það var mjög um það deilt á árunum 1920-1923. hvort það varðaði þingið nokkru, að það höfðu safnazt undanfarin ár skuldir hjá aðalseðlabanka landsins, á innstæðureikning bankans við útlenda banka. Það var mjög um það deilt, hvort gera ætti ráðstafanir í þessu efni. Ég veit ekki betur en Framsókn hafi þá fylgt þeirri stefnu, að það þyrfti ekkert að gera. Og ef það væru gerðar ráðstafanir til að greiða skuldirnar, þá væri ríkissjóður gerður að eyðslusjóði braskaranna í Rvík. Vitanlega var það vitleysa að halda slíku fram, því þetta voru ekki skuldir einstakra manna, heldur skuldir, sem bankarnir voru orðnir skuldunautar að. Ástandið þá var mjög frábrugðið því, sem það er nú. Þá voru engar gjaldeyrishömlur, og þessar skuldir höfðu safnazt hjá stofnun, sem ríkið bar siðferðislega ábyrgð á. Nú heldur hv. þm. því fram, að alþjóð verði að sjá um, að þær skuldir séu greiddar, sem einstakir menn safna erlendis. Ég staðhæfi, að þetta sé fjarstæða. Ekki af því, að það hafi ekki verið nauðsynlegt á þeim tíma að gera ráðstafanir vegna gjaldþrota Íslandsbanka, og það var af þeim sökum, sem ég hefi greint áður, að þá voru ekki fyrir hendi gjaldeyrishömlur. Nú á öllum að vera það kunnugt, að ef ekki er fyrir hendi gjaldeyrisleyfi, þá eiga menn undir högg að sækja, hvort þeir fá vöruna greidda. Hv. þm. getur nú haldið því fram, að hann sé ekki sömu skoðunar og fyrir 10-12 árum, en þá beinast þessi ummæli mín til hæstv. ríkisstj. og Framsfl. eins og hann er nú í þinginu.

Ég er sannfærður um, að það verður sama sleifarlagið og hingað til á framkvæmd 1. og sama hlutdrægnin, sem átt hefir sér stað, að einstakar verzlanir hrúga upp vörum, en aðrar eru píndar til að fara á höggstokkinn vegna haftanna. Þetta ástand á ekki að haldast uppi með löggjöf, því það er bersýnilegt, að þetta er óþarft og það nær ekki tilgangi sínum.