18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins svara hv. 3. þm. Reykv. því, að það er langt frá, að hér sé verið að slá fastri nokkurri reglu. Þetta var gert í fyrra eingöngu vegna þess, að þá var grasleysissumar, svo að það varð sérstök vöntun á smjöri, svo víðtæk, að mér er sagt af formanni mjólkurbúanna austanfjalls, að ekki sé líklegt, að komi fyrir annað eins næstu ár eða jafnvel áratugi. Það var aðeins fyrir þessa sérstöku tilfinnanlegu vöntun smjörs, að þetta var gert, en hefir alls ekki verið gert í ár, og eru ekki líkur til, að verði gert framvegis. Þetta var ekki heldur sérstaklega gert fyrir búin austanfjalls, heldur var því skipt jafnt niður milli aðila, mjólkurbúanna, Mjólkurfél. Rvíkur o. fl. Það var gert vegna allra. Það er ekki heldur ástæða til, þó að þessi sérstaka undanþága væri veitt vegna hins sérstaka ástands, að gera þetta að umræðuefni í sambandi við þetta frv. (PHalld: Hér eru líka strax upplýsingar). Hér hafa líka strax komið fram upplýsingar, segir hv. fyrirspyrjandi, og vænti ég þess þá, að þetta verði ekki gert frekar að umræðuefni.