18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

14. mál, tolllög

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sést af nál. hefir fjhn. ekki orðið sammála um þetta mál. Við hv. 4. landsk. leggjum til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem greinir í nál. okkar á þskj. 88, en hv. 1. þm. Reykv. leggur til, að mér skilst, að fella frv. í áliti sínu á þskj. 104.

Við hv. 4. landsk. berum fram till. um að orða 1. gr. frv. um; þó eru aðeins tvö atriði í brtt. okkar, sem gera efnisbreyt. á frv. Í fyrsta lagi að hækka toll á ávaxtasafa og þess háttar drykkjum um 50 aura pr. lítra, og í öðru lagi stingum við upp á að hækka toll á suðu- og iðnsúkkulaði um kr. 0.50 pr. kg. Þessar hækkunartill. standa í beinu sambandi við annað mál, sem liggur fyrir hv. Nd.; þar munu koma fram till. um lækkun á kaffibætistolli frá því, sem lagt er til í frv. stj., og nær það án efa samþykki. Þessar hækkunartill. okkar hv. 4. landsk. miða að því að vega á móti þessum lækkunum, svo jafnmiklar tekjur fáist, þó báðar brtt. verði samþ. Það er því ekki um auknar álögur á þjóðina að ræða með till. þessum, heldur tilflutning. Þessi tilflutningur, sem við þannig leggjum til að gera, byggist á því, að það sé sanngjarnara, að þær vörur, sem við stingum upp á að hækka toll á, séu hærra tollaðar, vegna þess að þær séu ónauðsynlegri vörur en kaffibætir, sem aftur er ráðgert að lækka gjöld á. Við hv. 4. landsk. lítum svo á, að ríkissjóði veiti ekki af þeim tekjum, sem hæstv. stj. stingur upp á að afla. Ef till. koma því fram til hækkunar á tekjum hans, og þær virðast réttmætar, verður um leið að gera ráðstafanir til að ná tilsvarandi upphæð annarsstaðar. Hv. minni hl. n. segir í nál. sínu á þskj. 104, að leiðin sé að lækka útgjöld ríkissjóðs. Það mætti auðvitað hugsa sér þá leið, og mun verða síðar á þinginu tækifæri til að athuga fjárlagafrv. á þeim grundvelli og gera till. þar að lútandi. En eftir því, sem gengið hefir á undanförnum þingum, eru litlar líkur til, að gjaldahlið fjárl.frv. lækki frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég held, að það hafi aldrei komið fyrir síðan löggjafarþing þjóðarinnar tók til starfa. Okkur hv. 4. landsk. er ljóst, að það veitir ekki af þeim tekjum, sem frv. gerir ráð fyrir, jafnframt þeim tekjuöflunarfrv., sem lögð hafa verið fyrir þingið af hæstv. stj., ef ekki á að verða tekjuhalli.