18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

14. mál, tolllög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.,]:

Hv. 2. þm. Rang. benti á það, að hér væri á ferðinni lagafrv. um að afnema bannið og sagði, að það mundi veita ríkinu miklar tekjur, ef það yrði samþ. Þetta mál hefir verið rætt talsvert í stj., og ég hefi haft um það viðtöl við þá menn, sem hafa fengizt við verzlun á þeim áfengu drykkjum, sem leyft er að verzla með hér á landi. Við reyndum að gera okkur grein fyrir, hver raunin mundi verða á með þetta, en við höfum ekki getað fengið neitt undir fæturna til að standa á. Við höfum því ekki getað gert okkur grein fyrir, hvort þar yrði um tekjur að ræða, og þó að svo yrði, þá hve miklar þær mundu verða. Hv. þdm. hljóta að sjá, að það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir þessu, en ég vil benda á það, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 1100 þús. kr. tekjum af áfengisverzluninni, og þessi upphæð er miðuð við þá reynslu, sem fengin er, en þó er hagnaðurinn af áfengisverzluninni áætluður nokkuð hærri en hann áður hefir verið í ár, en hann verður minni í ár en áður hefir verið.

Um þetta efni renna menn alveg blint í sjóinn. Það er ekki ennþá búið að gera sér grein fyrir, hvað mikið eigi að leggja á áfengið, þó að svo færi, að leyft verði að flytja það inn. Þess vegna álít ég ógætilegt að treysta því, að tekjur komi af þessu áfengi á næsta ári, því að við vitum ekki einu sinni, hvort það verður flutt inn.

Þá vil ég einnig benda á það, að ég tel vera mjög lagt á tæpasta vað í áætlunum um tekjur næsta árs, þegar miðað er við þann innflutning, sem gera má ráð fyrir. Þar við má og bæta því, að ég veit ekki til, að nokkurri stj. hafi tekizt enn að koma öllu svo fyrir í framkvæmdinni, að útgjöld hafi ekki orðið meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Auk þess vil ég benda á það, að eins og fjárlagafrv. er nú, þá eru þar ekki upphæðir, sem er heimild fyrir að greiða, t. d. styrkur til mjólkurbúa. Mér þykir ekki ólíklegt, að fjvn. taki þann lið upp í frv., og ennfremur styrk til frystihúsa og ýmsar aðrar slíkar heimildir, en ég álít, að ef ekki er áætluð nein upphæð vegna slíkra heimilda, þá sé það meining þingsins, að ekki eigi að nota þær heimildir, nema nægilegur tekjuafgangur sé. því að ég geri ekki ráð fyrir, að neinn vilji, að tekið sé lán til að greiða það fé.

Þegar tekið er tillit til alls þessa, þá sé ég ekki, að menn megi leyfa sér þá bjartsýni að gera ráð fyrir verulegum tekjum af sölu áfengis umfram það, sem verið hefir.

Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki skilja, hvað ég ætti við, þegar ég segði, að með tekjufrv. stj. væri ekki farið fram á tekjuaukningu. Ég meina það, að þótt þessi frv. verði samþ., þá eru engar líkur til, að árið 1935 komi meiri tekjur í ríkissjóð en verið hefir að undanförnu. Þar kalla ég að sé ekki tekjuaukning, heldur er verið að færa skattana til, að í stað þess, að áður var treyst á tolla, sem nú hljóta fyrirsjáanlega að lækka vegna minnkandi innflutnings, þá verður nú að treysta á eitthvað annað í staðinn. Hitt er misskilningur hjá hv. þm., að ég eigi við það, að lækkunartill. stj. séu svo stórkostlegar, að til þess að vega þær upp þurfi þessa nýju skatta og tolla, sem gert er ráð fyrir í frv. stj., heldur eiga þeir að koma á móti þessum lækkunum, að viðbættri þeirri tekjurýrnun, sem gera má ráð fyrir, að verði á tekjustofnum ríkissjóðs nú á næsta ári.

Þá sagði hv. þm., að það væri ósanngjarnt af mér að ætlast til, að sjálfstæðismenn komi nú með sínar till. í heild. Ég tók líka fram, að ég ætlaðist ekki til þess, heldur aðeins að fá að heyra, í hvaða átt þeir vildu stefna. Hann minntist á, að hér væri n., sem héti fjvn. og hefði ekki lokið störfum, og þar mundi þetta koma fram. Ég vil benda á, að þessi afstaða sjálfstæðismanna til tekjuaukafrv. ætti að vera með fullum fyrirvara, þangað til þessi n. hefði komið fram með álit sitt. Ég get ekki séð, að nein skynsamleg ástæða sé til að setja sig alveg á móti svona tollum, fyrr en séð er, hversu langt þeir komast með þessar niðurfærslutill. sínar í fjvn. Hv. 1. þm. Reykv. þarf því ekki síður en aðrir að minnast þess, að hér er n., sem heitir fjvn. og hefir ekki lokið störfum enn.

Viðvíkjandi þessu tilboði sjálfstæðismanna, að ganga inn á einhverja hækkun á núv. sköttum ríkissjóðs skal ég taka það fram, að stj. getur ekki fallizt á þá leið, svo að um það mál sem aðalúrlausn getur ekki verið að ræðu.

Hv. þm. minntist á frv. til einkasölu á bifreiðum. Það frv. er flutt hér að tilhlutun stj. Þó að svo fari nú, að það frv. verði samþ. og sett yrði á stofn einkasala á einhverju af þeim vörum, sem þar um ræðir, þá þarf hún mikinn undirbúning, sem enn hefir ekki farið fram nema að mjög litlu leyti. Einkasalan mundi því ekki komast á fyrr en langt væri liðið á næsta ár, svo að þaðan er ekki mikilla tekna að vænta.