18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

14. mál, tolllög

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég kvaddi mér hljóðs af því að ég hélt, að enginn annar ætlaði að gera það, og nú hefir hv. 2. þm. Rang. sagt það, sem ég ætlaði að segja. Vil ég þó bæta nokkrum orðum þar við.

Það er hart, að hæstv. fjmrh. skuli alveg neita að gera sér nokkra grein fyrir því, hvers tekjuauka megi vænta af frv., sem flutt er að tilhlutun stj., en heimta svo af okkur sjálfstæðismönnum, að við séum tilbúnir að gefa skýrslur um alla hluti. En þegar hann á nú svona erfitt með að gera sér grein fyrir, hverra tekna megi vænta af því frv., sem er þó flutt að tilhlutun hans sjálfs, þá ætti hann að skilja, að við stjórnarandstæðingar getum líka átt erfitt með að segja um slíkt fyrirfram.

Ég vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að það nær engri átt að segja, að af þessum nýju áfengislögum mundi engan tekjuauka leiða fyrir ríkissjóð. Ég játa, að það er ekki gott að gera sér grein fyrir því, hve mikill hann verður, en hann verður mikill; annars hefir stj. það mikið í hendi sér. Það má skipa þessum málum svo, að ágóðinn verði lítill, en það má líka skipa þeim svo, að hann verði mikill. Annars verður nægur tími að ræða það, þegar það frv. kemur til umr.

Hv. 2. þm. Rang. minntist líka á heimabruggið. Það fer líka eftir því, hvernig ráðstafanir verða gerðar um aðflutt áfengi, hvort bruggið heldur áfram eða ekki.

Hæstv. ráðh. sagði einn sinni enn, að tekjuaukafrv. væru aðeins til að bæta upp þann halla, sem verður sumpart vegna breyttra l. og sumpart vegna breyttrar afkomu á næsta ári. Þetta sýnir þá, að samkv. þeim tekjufrv., sem fram eru komin, má búast við, að fjárl. verði afgr. með miklum tekjuhalla, því að eins og fjárlagafrv. er nú, þá er hann upp undir 2 millj., og enn virðist ekkert það koma fram, sem bæti upp þann fyrirsjáanlega greiðsluhalla. En ef hæstv. ráðh. hefir enga trú á tekjuauka vegna afnáms bannsins og býst ekki við neinum ágóða af þessum einkasölum, sem nú á að stofna, þá veit ég ekki, hvað hann ætlar að fá til að vega upp á móti þessum greiðsluhalla. Hæstv. ráðh. hristir höfuðið, - náttúrlega af því að hann býst við stórum tekjuauka, ef þessi frv. verða samþ.

Hæstv. ráðh. neitar alveg samvinnu við okkur sjálfstæðismenn að jafna greiðsluhalla ríkissjóðs á þann hátt, sem við stungum upp á. Hann segir, að um það sé ekki að ræða. Finnst mér, að honum farist þá enn verr að knýja á með það, hvað við viljum gera, þegar hann ætlar að neyta sinnar meirihlutaaðstöðu til að kveða þær till. niður.