05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

14. mál, tolllög

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefir verið hjá fjhn., og leggur meiri hl. þeirrar n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. n., þeir hv. þm. G.-K. og hv. 3. þm. Reykv., leggur á móti einum sérstökum lið í 1. gr. frv., sem er liðurinn 7. b. En eins og sést á frv. þessu, fer það fram á talsverða hækkun á tolli á vissum vörutegundum. Það fer fram á, að tollur verði hækkaður af allskonar unnu tóbaki um kr. 1,60 á kg., af tóbaksvindlum um kr. 3,20 á kg., af sígarettum um kr. l,60 á kr. Af öllum tegundum af suðusúkkulaði og iðnsúkkulaði ákveður frv. tollinn kr. 1,50 af hverju kg., af kakaódeigi kr. 1,00 af hverju kg., af kakaódufti 50 aur, af hverju kg., af kakaóbaunum, brenndum, muldum og ómuldum, 50 aur. af hverju kg., og af kakaóbaunum óbrenndum og ómuldum 35 aur. af hverju kg. Þá er lagt til í frv., að af öllum brjóstsykurs- og konfekttegundum hækki tollurinn um kr. 1,00 pr. kg.

Frv. þetta er, eins og það ber með sér, til þess fram komið að afla ríkissjóði tekna, og í því er lagt til, að aukinn verði tollur á ýmsum þeim vörum, sem almennt eru kallaðar óþarfar, eins og tóbaksvörum. Að vísu má um það deila, hvort nokkur vara, sem leyfilegt er að verzla með, sé yfirleitt algerlegur óþarfavarningur. En vörur eru misjafnlega þarfar; um það er ekki ágreiningur. Þess vegna er rétt að leggja hærri toll á miður þarfar vörur heldur en nauðsynjavörur. Ríkissjóði er brýn nauðsyn á öflun meiri tekna, til aukinna framkvæmda í landinu og styrktar ráðstöfunum vegna yfirstandandi kreppu, og tel ég, að þetta sé ein af þeim leiðum, sem færar eru til þess að afla aukinna tekna í ríkissjóð.

Minni hl. fjhn. hefir lagt á móti því, að hækkaður verði tollur af neftóbaki, munntóbaki og reyktóbaki, og hefir í nál. sinn gert fyrir þeirri aðstöðu sinni þá grein, að þetta sé svo þörf vara fyrir almenning, að ekki sé ástæða til að hækka toll af henni. En þó að vitanlega sé vöru þessarar neytt af almenningi, þá er það ljóst, að til þarfra vara getur tóbak ekki talizt, og ef á að afla tekna í ríkissjóð með óbeinum sköttum, þá tel ég að helzt eigi að tolla miður þarfar vörur eins og tóbaksvörur.