05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

14. mál, tolllög

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég skal játa, að það er kannske hæpið að halda því fram, að minni hl. fjhn. gefi í skyn, að tóbak sé þörf vara. En nokkur ástæða var þó til að telja, að svo væri, því að minni hl. n. hafði sett orðið óþarfi innan gæsalappa. Hv. minni hl. n. segir í nál. sínu, að tóbak sé almenn neyzluvara, sem ranglátt sé að skattleggja eins og gert er ráð fyrir í frv.

Ég álít, að það beri að taka fyrst og fremst til greina í þessu sambandi, hvort vara, sem á að tolla, nauðsynleg til lífsframfæris eða ekki. Sé um lífsnauðsynjavöru að ræða, er ranglátt að tolla hana. Sé varan miður þörf, eða jafnvel skaðleg neyzluvara, má leggja á hana toll. Og þó að tóbaks sé neytt verulega í landinu, mun trauðlega vera bægt að halda því fram, að það sé nauðsynjavara. Frekar mætti með sanni segja, að það væri óþörf vara.

Þá segir hv. 3. þm. Reykv., að þessi till. okkar meiri hl. fjhn. um að samþ. frv., brjóti í bága við þá stefnu, sem við þykjumst fylgja í tollamálum. Ég skal ekki ræða stefnu Framsfl. í tolla- og skattamálum. En sú skoðun mín, sem nú hefi ég lýst, er í beinu samræmi við stefnu Alþfl. um þetta atriði. Það er í samræmi við stefnuskrá Alþfl., að sem mest af tekjum ríkissjóðs sé aflað með beinum sköttum, en að því leyti, sem þeir hrökkva ekki til nauðsynlegra tekna fyrir ríkissjóð, skuli ná tekjum með tollum á þeim vörum, sem kalla megi ónauðsynlegar.