14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

14. mál, tolllög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Áður en frv. þetta verður afgr. sem lög vildi ég gera aths. við einn lið í tollinum, sem mér finnst sérstaklega óeðlilega hár, en það er tollur af óunnu tóbaki, sem er 4 kr. á kg. Þetta er hærri tollur heldur en útsöluverð er á þessari tegund nú eins og sakir standa, því nú er verðið hjá tóbaksverzluninni alls kr. 3,50 kg., og þó mun vera einhver tollur innifalinn í þessu verði

Þetta er svo geysileg tollhækkun, að ekki er við unandi. Tóbak þetta er aðallega notað til þess að baða fé upp úr leginum af því, og til þess að lækna skitupest og aðra ormaveiki í sauðfé, og er oft og tíðum eina örþrifaráðið, þegar þessar pestir geysa. Mér finnst gagnvart landbúnaðinum ekki rétt að tolla þessa vöru svo hátt sem hér er gert. Hér gæti þó nægt til leiðréttingar, ef gefið væri eftir eitthvað af tolli á þessari vöru, þegar hún er notuð til lækninga handa sauðfé. Það mun vera talað um það í l. frá 1921, að tóbaksblöð, sem inn væru flutt af yfirvöldum og notuð til lækninga á sauðfé, skyldu vera undanþegin tolli, og ég vildi gjarnan heyra það frá hæstv. fjmrh., sem hér í d. er staddur nú, hvort þessi undanþága muni verða látin ná til óunnins tóbaks, sem notað er til böðunar sauðfjár eða annara lækninga. Ég vildi ekki flytja brtt. um þetta af því, að ég hélt, að það tefði svo málið, að það kannske dagaði uppi, en vildi hinsvegar heyra álit hæstv. ráðh. í þessu efni.