19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Brtt. þær, sem samþ. voru við þetta frv. í hv. Nd., fara í þá átt í fyrsta lagi, að þeim mjólkurframleiðendum, sem búa innan lögsagnarumdæmis Rvíkur, má nú heimila að selja mjólk beint til neytenda, með því skilyrði, að þeir borgi af henni verðjöfnunargjald. Jafnframt var stungið upp á því, þó að varla þurfi að skýra frá því, af því það var ekki samþ., að ganga enn lengra og leyfa hverjum þessum mjólkurframleiðanda að hafa 2000 lítra af mjólk án verðjöfnunargjalds, þó að þeir seldu mjólkina beint til neytenda; síðan var svo þessi uppástunga færð í 1800 lítra, en hún var felld. Eins og frá frv. var gengið við 2. umr. í Nd., var þeim, sem framleiða mjólk innan lögsagnarumdæma kaupstaða, heimilað að velja um það tvennt: að selja mjólk sína beint til neytenda og greiða fullt verðjöfnunargjald af henni, eða að afhenda sölumjólk sína til samsölunnar og njóta undanþágu verðjöfnunargjalds samkv. 2. gr. Þó getur mjólkursölunefnd svipt mjólkurframleiðanda rétti til beinnar sölu til neytenda, ef henni þykir hann hafa misnotað þá heimild. Við 3. umr. var þessu aftur breytt, vegna þess að fram höfðu komið svo margar óánægjuraddir, bæði úr Mosfellssveit og frá mjólkurframleiðendum í Rvík. Var þá látið undan þessum háværu kröfum, sem töldu þetta söluleyfi til skemmda, er mjólkurframleiðendum í kaupstöðum var veitt, og var það því við 3. umr. sett inn í 5. gr. frv. sem heimild til mjólkursölunefndar, m. ö. o., mjólkursölunefnd er nú heimilað að leyfa þeim beina sölu á mjólkinni til neytenda, gegn greiðslu á verðjöfnunargjaldi. Aðra undanþágu geta þeir ekki fengið, ef jafnframt á að gæta þeirra heilbrigðisráðstafana, sem gert er ráð fyrir í þeim ákvæðum, er sett voru inn í frv. við 3. umr., og ef það er misnotað, getur mjólkursölunefndin tekið leyfið aftur.

Aðrar breyt., sem máli skipta, hafa ekki verið gerðar á frv. í hv. Nd. Smávægilegar breyt. voru að vísu gerðar, svo sem þær, að í stað þess, að áður var gert ráð fyrir, að félag mjólkurframleiðenda ætti að skipa einn mann í stjórn mjólkursölunnar, þegar hún tekur til starfa, skuli félag mjólkurframleiðenda innan þess kaupstaðar, sem salan fer fram í, hafa þennan rétt. Þar sem áður var miðað við félag mjólkurframleiðenda almennt, er nú miðað við þann félagsskap innan þess kaupstaðar, sem mjólkin er seld í. Þetta er að vissu leyti lagfæring á frv., því að frv. óbreyttu er ekki gott að segja, hvað mörg félög kynnu að hafa orðið stofnuð á verðjöfnunarsvæðinu til þess að fá að skipa í n. Að þessu leyti er um lagfæringu að ræða, og ekki um að villast, að átt er við eitt, og einungis eitt félag framleiðenda innan hvers kaupstaðar, þar sem mjólkin er seld. Þetta er aftur á móti dálítill réttindaauki fyrir kaupstaðina, sem taka við mjólkinni, en það er atriði, sem ekki skiptir miklu máli. Og þótt ég rísi á móti því í hv. Nd., að þessu væri breytt, þá óska ég, úr því sem komið er, að þetta verði samþ.

Ég hefi þá lokið að gera grein fyrir þeim aðalbreyt., sem á frv. hafa verið gerðar. Meginefni frv. er óbreytt, og ég vil leyfa mér að óska, að það verði nú samþ. í þessu horfi.