29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

5. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég ætla með örfáum orðum að svara hæstv. fjmrh. Hann var að segja það, að munur væri á því að borga útflutningsgjald af vöru, sem væri í svo lágu verði, að framleiðendur hennar fengju styrk í verðuppbót á hana, eða vöru sem væri í sæmilega góðu verði. Ég verð þó að benda hæstv. fjmrh. á það, að hér er um hundraðsgjald að ræða af vörunum, sem vitanlega er eftir því lægra því lægra sem verð vörunnar er. Það er vitanlegt, að verð á kjöti er mjög lágt, en það er ekki hið sama að segja um allar landbúnaðarafurðir. T. d. er ull í svo háu verði, að engar sjávarafurðir ná henni með verð.

Annars var það ekki til að deila á hæstv. ráðh., að ég stóð upp, og ekki til þess að leggja á móti því, að fellt verði niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, heldur til þess að svara hv. þm. V.-Húnv., þar sem hann var að réttlæta útflutningsgjald af sjávarafurðum með því, að það ætti að koma upp í þann kostnað, sem ríkissjóður hefði af sjávarútgerðinni, aðallega landhelgisgæzlunni. Ég ætla ekki að fara í meting við fulltrúa landbúnaðarins út af því, hvort meira hafi verið lagt úr ríkissjóði til eflingar landbúnaði eða sjávarútvegi, en hv. þm. V.-Húnv. hefir stígið spor í þá átt. Það hefði verið hægt að telja saman, hve mikið fé hefir farið til hvors atvinnuvegarins í seinni tíð. Ég ætla ekki að gera það, en ég hygg að þessi hv. þm. hafi það á meðvitundinni, að landbúnaðurinn hefir ekki farið varhluta af því fé, sem hið opinbera hefir varið til eflingar atvinnuvegunum.

Hæstv. ráðh. minntist á, að það yrði að sjá fyrir öðrum tekjum, ef það lægi fyrir að afnema t. d. útflutningsgjald af sjávarafurðum.

Hér liggur fyrir frv. um að afnema útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, og hæstv. ráðh. hefir áður gert ráðstafanir um lækkun síldartollsins, svo ég geri ráð fyrir, að hann hafi einhversstaðar ætlað þessum 140 þús. kr. að koma í ríkissjóðinn aftur. Það er ekki svo að skilja, að hér liggi nein till. frá mér eða öðrum um að fella niður útflutningsgjald af sjávarafurðum nú. En það, sem ég vil undirstrika, er það, sem kom fram hjá hv. frsm. minni hl. n., að hér sé verið að víkja frá því princip, að taka gjöld í ríkissjóð á þann hátt að skatta útflutning landsmanna. Það er þetta, sem ég vildi undirstrika, og ég greiði atkv. með þessu frv. bæði vegna þess, að ég get vel unnt bændum að fá þessa litlu línun, og einkum vegna þess, að ég tel, að útflutningsgjald af hverju sem er, eigi að hverfa, nema ef horfið yrði að því ráði að láta útflutningsgjaldið ganga beinlínis til þeirra atvinnuvega, sem það kemur frá. - Skattafrv. hæstv. ráðh. hafa ekki mætt nærri því eins óvingjarnlegri móttöku frá sjálfstæðismönnum eins og þau hafa átt skilið. Ég held því, að hæstv. ráðh. geti á engan hátt bendlað sjálfstæðismenn við það, að vilja ekki ljá atkv. sitt til þess að tryggja ríkinu þær tekjur, sem það þarf, og styðja að lögfestingu tekjuauka sem nokkurt vit er í. Hinsvegar er það vitanlegt, að hér er komið fram frv. til tekjuauka fyrir ríkissjóð, sem menn eru ekki allir ásáttir um, að eigi að ganga fram. - Mér þótti vænt um að heyra það hjá hæstv. ráðh., að það, sem stæði í veginum fyrir því nú, að hægt væri að stíga sporið til fulls, nefnilega að hverfa frá þessum tekjustofni, útflutningsgjaldinu, væri það, að ekki væri séð fyrir því, að jafnar tekjur kæmu alstaðar frá. Ég tek þetta sem vott þess hjá hæstv. ráðh., að hann finni það á sér, að hér sé stigið, eins og sagt hefir verið, fyrsta sporið, og að það verði að styðja að því að létta útflutningsgjaldinu af með öllu, og að í huga hans sé þetta eina í bili því til fyrirstöðu, að hann hefir ekki við hendina tekjustofna, sem komið geti í staðinn fyrir þennan tekjumissi. Hitt er annað mál, ef hin leiðin yrði farin síðar meir, að atvinnuvegirnir væru skattlagðir beinlínis til þess að styrkja þá sjálf.