01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Minni hl. fjhn. hefir við fyrri umr. lýst afstöðu sinni til brtt. hv. þm. Ak., og hann er fylgjandi þeirri till., að útflutningsgjald af síldarmjöli sé fært niður. Um brtt. á þskj. 265 er það að segja, að minni hl. n. er henni sammála líka. Þó hefir aðstaðan síðan við 2. umr. breytzt við það, að hér hafa verið lögð fram tvö frv., sem fara fram á, að sjávarútvegurinn sjálfur njóti um takmarkaðan tíma útflutningsgjaldsins af sjávarafurðum. Segja mætti, að eðlilegt væri, að landbúnaðurinn nyti hins sama, en mér finnst brtt. hv. þm. Ak. fullnægja þeim tilgangi. ef 4. gr. frv. er borin saman við hana. Hv. þm. Ak. fer fram á, að landbúnaðurinn greiði 1% í útflutningsgjald, en í 4 gr. frv. er ákveðið, að 1/12 hluti tekna af útflutningsgjöldum renni í ræktunarsjóð. Þó er þetta allt háð því, hvað verður um frv. á þskj. 280 og 281, sem nú nýlega hefir verið útbýtt.

Að því er snertir till. iðnn. eða meiri hl. hennar, um útflutningsgjald af hausum og beinum. hefir meðnm. minn, hv. 3. þm. Rvík, sem er meðflm. þeirrar till., tekið afstöðu til till. hv. 6. landsk., sem hann tók aftur við 2. umr. málsins. Þó að ég hafi eigi kynnt mér gögn þau, sem hv. iðnn. hafði, þegar hún kvað upp úr með það, hvað þessi tollur væri nauðsynlegur til verndar ísl. iðnaði, hygg ég, að þessi tollur, 30 kr. á smálest, fari nokkuð nærri því að fullnægja þeim tilgangi. Ég ber því ekki fram brtt., og ef ekki koma fleiri brtt. fram, mun ég samþ. þessa brtt. hv. meiri hl. iðnn.