01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

5. mál, útflutningsgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Brtt. sú á þskj. 265 frá hv. þm. Ak., sem hér liggur fyrir, fer fram á, að ekki sé fellt niður útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum. Ennfremur er komin fram skrifl. brtt. frá sama hv. þm. um að lækka tollinn á síldarmjöli úr kr. 1.00 í kr. 0.50 pr. 100 kg. Einnig er gert ráð fyrir í brtt. á þskj. 265, að 1/3 útflutningsgjaldsins af sjávarafurðum gangi til strandgæzlu.

Ég skal ekki verða langorður um þessar till. Ég er sama sinnis og ég hefi verið um, að fyllsta sanngirni mæli með að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum og að það sé sjálfsagt. Um brtt. vil ég yfirleitt segja það, að vegna afkomu ríkissjóðs tel ég ekki fært að samþ. þær, hversu réttmætar, sem þær kunna að vera. Um þriðja atriðið, að 1/3 hl. gangi til strandgæzlu, vil ég leggja til, að það verði fellt, því ég vil, að sett sé í fjárl. sú ákveðna upphæð, sem ætlazt er til, að gangi til strandgæzlunnar í hvert sinn. Ég get að öðru leyti vísað til þess, sem ég hefi áður sagt.

Ég vil benda á ósamræmi hjá hv. þm. Ak., þar sem hann ber fram till. um, að 1/3 útflutningsgjaldsins gangi til strandgæzlu, en er jafnframt meðflm. að frv., sem gerir ráð fyrir að leggja allt útflutningsgjaldið í sjóð. Mér finnst gæta ósamræmis í því að ætlast til, að sama gjaldið gangi í 2 sjóði. Mér virðist þetta benda til þess, að till. hv. þm. um, að 1/3 gangi til strandgæzlu, muni ekki vera hugsuð eða borin fram til að ná samþ. Hann hefði þá ekki verið flm. að öðru frv. Annars finnst mér þetta ósamræmi bera keim af ýmsum öðrum till. hv. stjórnarandstæðinga, sem sýnilega eru ekki bornar fram til þess að verða samþ., heldur aðeins til þess að ganga í augu fólksins.