01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

5. mál, útflutningsgjald

Guðbrandur Ísberg:

Hæstv. fjmrh. vék því að mér, að ég væri með leikaraskap í þessu máli; ég bæri fram till., sem ég meinti ekkert með.

Ég gat þess áðan, að ég hefði borið fram þessu till. á þskj. 265 fyrir nokkrum dögum, áður en ég fékk tækifæri til þess að kynna mér frv. tvö, sem gerð hafa verið hér að umtalsefni. Þótt ég síðar fengi tækifæri til þess að athuga þau, fannst mér ekki ástæða til þess að draga þessa till. mína til baka, af ýmsum ástæðum, og ekki sízt af þeirri ástæðu, að þótt ég bæri fram þessa till., af því að það var sannfæring mín, að með henni væri stefnt að réttustu leiðinni í þessu máli, þá hafði ég litlu von um, að a. m. k. Framsóknarfl. myndi taka tillit til þeirrar sanngirni, sem í till. felst, og drepa hana þess vegna.

Á síðasta Alþ. risu upp 2 bændahöfðingjar gegn þeirri till., að fella sérstaklega niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, án þess að útflutningsgjald af sjávarafurðum fylgdi með. Þeir töldu það ganga svo nærri metnaði ísl. bænda, að leysa þá sérstaklega undan almennu gjaldi, er skipti þá engu fjárhagslega. Ég er viss um, að yfirgnæfandi meiri hl. kjósenda í sveitum landsins lítur svo á, að það skipt í engu um fjárhagsafkomu bænda, hvort gjaldið sé fellt niður eða ekki. Þó eru þeir vitanlega líka til, sem telja má trú um, að þetta skipti einhverju máli. Þeir koma til greina við atkvæðaborðið, og ég hygg, að einmitt þar sé að leita hinnar raunverulegu ástæðu þess, að sú till. er fram komin, að fella niður gjald af útfluttum landbúnaðarafurðum. Þetta er aðeins flatur lófi kosningaveiðanna, einu sinni enn.

Mín afstaða til þessa máls er sú sama og á Alþ. 1933, og þá var þessi hv. d. betur skipuð en hún er nú, því að þá sátu hér á Alþ. 2 ísl. bændur, sem tóku upp hanzkann fyrir bændastéttina.