14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

5. mál, útflutningsgjald

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég; skal ekki innleiða hér miklar umr. um þetta mál, en ég vil benda á það út frá till. hv. 1. þm. Reykv., að hún þýðir ekki annað en beina lækkun á útflutningsgjaldinu. Því þess ber að gæta, að þau gjöld, sem eftir brtt. eiga að koma til frádráttar, verða hinir innlendu kaupendur einnig að greiða. Að vísu ekki á þeim stöðum, þar sem beinaverksmiðjurnar eru, en víðasthvar annarsstaðar. Ég hefi ekki rannsakað, hvort svo er alstaðar, en víðast hygg ég að það sé.

Ég sé ekki ástæðu til að lækka útflutningsgjaldið sem þessu nemur. Þó gæti ég látið brtt. afskiptalausa, ef hún væri aðeins um, að gjöld til bæjarsjóða kæmu til frádráttar. En ég tel fráleitt að draga frá gjöld til hafnarsjóða, því eins og ég segi verða kaupendur í flestum tilfellum að greiða þau, hvort sem þeir eru innlendir eða útlendir.

Ég hefi því leyft mér að bera fram skrifl. brtt. við brtt. hv. l. þm. Reykv., um að orðin „eða hafnarsjóðs“ falli burt. Mér þykir sennilegt, að bæði hv. 1. þm. Reykv. og n. geti við nánari athugun fallizt á þetta. Því mér virtist koma fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að hann bæri brtt. aðallega fram vegna beinaeigenda í Vestmannaeyjum, og það mun vera eini bærinn enn sem komið er, sem hefir tollað þessa vöru til tekna fyrir bæjarsjóð.