17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

5. mál, útflutningsgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir verið dálítið flókið mál, sem hér er um að ræða, sem sé það, af hvaða afla útflutningsgjald skuli reiknast. Í frv. var gert ráð fyrir því, að gjaldið skyldi reiknast af öllum afla allra þeirra erlendu skipa, sem hefðu rétt til þess að notfæra sér landhelgina og gerðu það að einhverju leyti. Þegar farið var að athuga þetta mál nánar, kom það í ljós, að til þess að þetta ákvæði gæti staðizt, þá þyrftu varðskipin að fá fyrirskipun um það, að ef þau sæju t. d. færeyska fiskiduggu í landhelgi, þá ættu þau að koma með hana í höfn og láta hana setja viðkomandi yfirvaldi tryggingu fyrir útflutningsgjaldsgreiðslu. Þeim, sem eru kunnugir framkvæmd þessara mála, fannst þetta gæti verið varhugavert. Reyndin yrði að vera þannig, að útflutningsgjald væri tekið af þeim skipum, sem höfnuðu sig hér á landi, en eins og menn vita, þá hefir ekki hingað til einn sinni verið tekið útflutningsgjald af þeim skipum, sem nota landhelgina, þó þau kæmu á hafnir inn. En eftir þeim. l., sem gilt hafa um þetta efni, mun það hafa verið hægt, en það hefir ekki verið framkvæmt. Þótti því rétt að setja inn í 3. gr. frv. heimild handa stj. til þess að undanþiggja útflutningsgjaldi þau skip, sem ekki taka höfn hér á landi, þ. e. a. s. þau skip, sem mjög erfitt er um innheimtu hjá.

Í frv. er nú meira réttlæti heldur en tíðkazt hefir á framkvæmd þessara mála, þar sem það ætti að vera öruggt, að innheimt verði útflutningsgjald a. m. k. af þeim skipum, sem höfnuðu sig hér við land. Ég vænti því, að eftir að þessar skýringar eru komnar fram, treysti hv. þd. sér til þess að gangast inn á frv. eins og gengið var frá því í hv. Ed.