17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

5. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson:

Mér virðist hér bera nokkuð á milli, og ætla ég, að sá skilningur, sem hæstv. fjmrh. heldur fram, muni brjóta í bág við skilning þeirra manna, sem að þessari breyt. standa. Það mun hafa verið hv. 1. þm. Reykv., sem bar þess brtt. fram í hv. Ed., og það fyrir ítrekaðan bænastað þeirra manna, sem báru kvíðboga fyrir því, að svona mikið hækkaður tollur á beinum mundi leiða af sér mikið verðfall. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hafi sérstaklega verið tekið tillit til Akraness og Vestmannaeyja í þessu sambandi. Hvað Vestmannaeyjar snertir, þá eru þar afar há gjöld á öllum vörum samkv. heimild í hafnarl. og þar fyrir utan hefir Alþ. nú nýlega heimilað bæjarfél. að leggja á sérstakt vörugjald. Þessi gjöld eru hvorki nefnd innflutningsgjöld né útflutningsgjöld, heldur vörugjöld til hafnar- og bæjarsjóðs, og eru vitanlega lögð bæði á vörur, sem fluttar eru út og inn. Það, sem hér liggur til grundvallar fyrir þessari brtt., er þá það, að á þessum stöðum, sérstaklega í Vestmannaeyjum, þar sem fyrir er þegar afarhátt gjald á beinum, þótti sýnt, að 3 kr. gjald á tonnið mundi samanlagt við bæjar- og hafnargjöld verða til þess að hnekkja alveg þessari verzlun. En af þessari verzlun hafa ýmsir útvegsmenn haft mjög mikinn hagnað, og hér lágu engar tryggingar fyrir á Alþ. um það, að verðinu yrði haldið uppi, ef verzluninni til útlanda yrði alveg hnekkt. - Nú er það svo í Vestmannaeyjum, að til hafnar og bæjar er gjaldið kr. 18.25 af tonninu, og heitir það ekki útflutningsgjald, heldur vörugjald til hafnar- og bæjarsjóðs.

Ég er alveg viss um það, að þessi till. er flutt á þeim grundvelli, að þetta gjald, sem hér er um að ræða og heitir vörugjald til hafnar- og bæjarsjóðs, sé dregið frá, þegar ríkissjóðsgjaldið er greitt, og ég get fyrir mitt leyti engan veginn fylgt þessu frv. með öðrum skilningi en þessum. Ég sem sagt tek alveg undir með hv. þm. Borgf. og legg áherzlu á það, að þeir, sem gjalda þessu frv. jákvæði, leggi sama skilning í þetta og við hv. þm. Borgf., þar sem ég veit fyrir víst, að breyt. er komin inn í frv. á þeim grundvelli, sem ég hefi lýst.