17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

5. mál, útflutningsgjald

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég vil ekki láta þetta mál fara svo út úr d., að ég ekki geri grein fyrir minni afstöðu til þess. Hv. þm. renna sjálfsagt grun í það, að ég er algerlega á móti útflutningsgjöldum af framleiðsluvörum. bæði landbúnaðarins og sjávarútvegsins, og það, að ég og þeir, sem eru sama sinnis og ég í þessu efni, höfum ekki borið fram till. um að fella slík gjöld algerlega niður, stafar auðvitað af því, að við ætlumst til þess, að þessi útflutningsgjöld gangi til alveg sérstakra hluta, til kuldaskila fyrir sjávarútveginn sjálfan. En frá mínu sjónarmiði er það fullkomin fjarstæða að leggja útflutningsgjöld á framleiðsluvörur atvinnuvega, sem sjálfir hafa ekki borið sig og bera sig ekki og eru árlega reknir með tapi, eins og báðir þessir atvinnuvegir undanfarin ár. Og þess vegna nær ekki nokkurri átt að taka þessi gjöld. Hitt er annað mál, að þingið gæti að sjálfsögðu komið því til leiðar og ætti að fallast á það, að þessir atvinnuvegir leggi þessi gjöld á handa sér sérstaklega. Og af því að ég vænti þess, að næsta þing muni fallast á það, að sjávarútvegurinn fái að nota þetta gjald til viðreisnar sér, og af því líka, að í þessu frv. felst þó nokkur lagfæring frá því, sem er í gildandi l., þá mun ég ekki gera ágreining um það, að frv. verði samþ. nú. En þess vildi ég láta getið, að ég álít þessi útflutningsgjöld vera ranglát og mjög óheilbrigð.