15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Thor Thors:

Mér þykir rétt við þessa umr. að víkja nokkrum orðum að hinum sögulega undirbúningi hjá stjórnarflokkunum að skipun þessarar nefndar, sem hér er til umræðu.

Fyrir kosningarnar síðustu gaf Alþýðufl. út kosningaávarp, hina svokölluðu 4 ára áætlun. Þar er miklu lofað þjóðinni til handa. Eitt af því, sem skyldi gera, ef flokkurinn fengi aðstöðu og vald á þingi, var að skipa nefnd þá, sem nú skal rætt um hér. Í 4 ára áætlun Alþfl., sem birt var í Alþýðublaðinu 26. maí í vor, segir svo um þetta: „Stofnuð sé ráðgefandi n. sérfróðra manna, þingi og stj. til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir á tímabilinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt till. um, hvernig komið verði fastri stj. og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnnrekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (Planökonomi)“.

Ég geri að vísu ráð fyrir því, að jafnaðarmenn hafi ekki, þegar þeir gáfu út þetta kosningaplagg, búizt við því, að þeir þyrftu að standa við þessi loforð eða framkvæma áætlunina. En kosningarnar fóru á þá leið, fyrir atvik, sem reyndar voru ekki til þess fallin að lýsa vilja þjóðarinnar, og aðeins var heppni stjórnarflokkunum til handa, að stefnuskrá Alþfl. hefir verið mestu ráðandi um stjórn landsins undanfarið. Þegar Framsfl. og Alþfl. höfðu ákveðið að mynda stj. saman. gerðu þeir með sér málefnasamning, sem fól í sér nokkurskonar framkvæmdskrá fyrir stj. og þar sem farið var eingöngu eftir því, sem Alþfl. hafði heitið fyrir kosningarnar og stóð nú við að kosningunum loknum. Er þessi starfskrá alþjóð kunnug og lýsir sér m. a. í þeirri nefndarskipun, sem gefið hefir tilefni til þessa frv. Samkv. áætlun Alþf1. er n. skipuð með mikið og margvíslegt rannsóknarsvið, þótt valdsvið hennar sé að vísu ekki jafnmikið, og í skipunarbréfi n. er vikið samsvarandi orðum að verkefnum hennar eins og gert var í áætluninni. Er það auðvitað virðingarvert af Alþfl. að standa við kosningaloforð sín og fyrirætlanir og eðlilegt og virðingarvert, að stjórnarflokkarnir hafi viðleitni til þess að vilja láta rannsókn fara fram á því, hvað aflaga fer í ríkisrekstrinum og með hverum hætti verður auðveldast og heppilegast að ráða á því bætur. Þótt þetta hafi verið tilgangurinn, og ég vil ekki almennt draga í efa, að svo hafi verið, hefir framkvæmdin á þessu verki orðið í andstöðu og til mótmæla þessum göfuga tilgangi, sem á bak við kann að hafa legið. Ef slík rannsókn átti að bera tilætlaðan árangur, hlaut stj. að halda sér við það, að n. yrði eingöngu skipuð sérfróðum mönnum. En hæstv. stj. valdi ekki þá leið. Þá var það ennfremur skylda stj., ef tilgangurinn var sá með n.skipuninni, að fá fram óhlutdræga og málefnalega rannsókn, að sjá svo um, að skipun n. væri ekki með pólitískum blæ. En það er svo fjarri því, að hæstv. stj. hafi gert þetta, að hún þvert á móti virðist ekki hafa tekið tillit til neins annars við skipun n. en eingöngu pólitískra skoðana. Í n. hafa verið skipaðir harðvítugir stjórnmálamenn svo að segja eingöngu. Skal fyrst frægan telja, hv. 2. þm. Reykv., sem harðvítuglegast hefir gengið fram í stjórnmálabaráttunni fyrir sinn flokk. Hinir tveir flokksmennirnir, sem sósíalistar eiga í n., en þeir hafa þar meiri hl. og öll völd eins og alstaðar annarsstaðar, þar sem stjórnarflokkarnir leggja saman, hafa báðir tveir látið til sín taka á stjórnmálasviðinu, sérstaklega þó hv. þm. Hafnf., og hinn, sem að vísu er ekki alþm., er forstjóri bæjarútgerðarinnar í Hafnarfirði, sem hv. þm. Hafnf. einnig er mjög við riðinn. Sé það svo að skilja, að bæjarútgerðinni í Hafnarfirði sé ætlað að leggja til tvo sérfræðinga í n., mun mörgum áreiðanlega sýnast svo sem henni sé gert hærra undir höfði en ástæða er til. - Af hálfu Framsfl. hefir orðið fyrir valinu í þessa n. sá maður, sem er allra manna ófyrirleitnastur í stjórnmálabaráttunni og illskældnastur óvildarmaður annars aðalatvinnuvegar landsmanna, sjávarútvegsins. Slík útnefning í n., sem ætlað er að starfa til þjóðþrifa með rannsóknum sínum, er í hæsta máta óviturleg og stefnir að því að gera n. óvinsæla hjá miklum hl. þjóðarinnar, sem fylgir Sjálfstfl. að málum, og verður enda að skoðast sem hrein ögrun í garð flokksins. Ég hygg, að það hefði verið réttara fyrir stj. á þessum tímum, þegar ný vandræði steðja á hverri stundu að atvinnurekstri og framleiðslu, að reyna að sameina kraftana til sameiginlegs átaks með því að skipa sérfróða menn eingöngu í n., eins og lofað var í 4 ára áætluninni. Þegar litið er til þess, hver styrkur er að baki hæstv. ríkisstj. hjá þjóðinni, verður enn berara, hve stj. var það sjálfsagt að haga skipun n. svo a. m. k., að hún væri ekki í beinni andstöðu við verulegan hl. þjóðarinnar. Að baki hæstv. stj. eru færri kjósendur en að baki andstöðuflokka hennar hér í þinginu. Samanlögð atkvæðatala Alþfl. og Framsfl. er um 22 þús., en samanlögð atkvæðatala Bændafl. og Sjálfstfl. um 25 þús. Valdataka hæstv. stj. byggist á hendingu einni, og hefði það átt að opna augun á stj. fyrir því að taka ekki aðeins tillit til stjórnarflokkanna, við nefndarskipunina. En þetta gerði hæstv. ríkisstj., og það er hennar að bera ábyrgðina á því, sem af því kann að leiða.

Vegna þess, hvernig hæstv. stj. hefir hagað valinu í þessa n., lítur Sjálfstfl. á n. sem hreina flokksn. stj., og okkur sjálfstæðismönnum hefði þótt það bezt fara, að kostnaðurinn við þessa n. yrði greiddur úr flokkssjóði stjórnarfl., en ekki úr ríkissjóði. Það er vitanlegt og augsýnilegt á vali nefndarmannanna, sem ýmist eru yfirlýstir sósíalistar eða hafa reynzt vera svo, að tilgangurinn með n. er sá, að leita að veilum í rekstri einstakra atvinnurekenda í landinu, og þykjast finna þær, og undirbúa á þann hátt upptök sósíalismans hér á landi. Af þessum ástæðum mótmælir Sjálfstfl. þessari n., sem hann telur vera flokksn. stj. og ekkert annað. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, á svo að gefa þessari flokksnefnd stj. rannsóknarvald um hvað sem er, og veita þannig hinum harðvítugu pólitísku baráttumönnum, sem n. skipa, tækifæri til þess að kynna sér hag og gerðir pólitískra andstæðinga sinna. N. getur heimtað skýrslur og skýringar á hverju, sem henni sýnist og hún telur þörf á eða henni kann að hugkvæmast með ötulli aðstoð illkvittni og hefndarhugar. Og þeir, sem ekki hlýða, eru settir á bekk með glæpamönnum, meinsærismönnum o. s. frv., og boðið upp í tugthús, ef þeir verði ekki þægir.

Hvað á svo að rannsaka? Það er vitanlegt, að stjórnarfl. hafa fullkomna aðstöðu til þess að láta rannsaka hag einstaklinga og fyrirtækja, og þetta er einnig gert með skattskýrslum og heimild þeirri, sem skattan. og skattstjórinn hér í Rvík hafa, til þess að skoða reikningshald fyrirtækja og einstaklinga. Það er ennfremur vitað, að undanfarið hafa starfað slíkar rannsóknarn. bæði á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Bændan. svokallað, hefir þegar birt skýrslur um rannsóknir sínar, og niðurstaðan af þeim var stofnun Krepppulánasjóðs. Sjávarútvegsn. mun nú í þann veginn að ljúka rannsóknum sínum og munu skýrslur hennar verða lagðar fyrir þingið innan skamms. Það getur því ekki verið þetta, sem á að rannsaka. - Það, sem e. t. v. vakir fyrir stj., mun og það að finna nýjar leiðir út úr ógöngum atvinnulífsins, þótt ólíklegi sé, að þær leiðir upplýsist með þvingunarráðstöfunum. Til þess að vinna að því marki sýnist sem eðlilegast hefði verið að kalla til samstarfs alla þekkingarríkustu krafta þjóðarinnar. Ef knýja á fram með þvingunarráðstöfunum viðskiptalega þekkingu og lífsreynslu atvinnurekenda til þess að afhenda í hendur pólitískra óvildarmanna þeirra, sýnist og vera gengið fullnærri 62. gr. stjskr., sem fjallar um friðhelgi eignarréttarins, því að atvinnuleg og andleg verðmæti heyra undir vernd þeirrar gr. engu síður en önnur verðmæti. Ef nauðsynlegt er að finna nýjar leiðir út úr örðugleikum atvinnulífsins, er þetta áreiðanlega ekki rétta leiðin. Rétta leiðin var að fara samningaleiðina. Með því að fara friðsamlega fram og viturlega og láta kunnáttumenn á þessum sviðum bera saman ráð sín til úrlausnar mátti vænta góðs árangurs vegna þekkingar þeirra, góðs vilja og þjóðfélagskenndar. Stj. átti kost á að fara þessa leið, og henni bar skylda til að fara hana vegna hins erfiða ástands atvinnurekstrar einstaklinga og fyrirtækja og fjárhagsörðugleika þjóðarinnar yfirleitt, þegar allt virðist stefna að hruni. En hæstv. ríkisstj. kaus ekki að fara þá leið að hagnýta sér þá beztu þekkingu, sem völ er á á sviði atvinnumálanna, heldur kaus hún að styðjast eingöngu við harðsvíraða pólitíska málafylgjumenn. Skipun þessarar n. og frv. það, sem hér liggur fyrir, virðist því beinlínis vera eins og ögrun á hönd andstæðinga stj., sem steytir hér sinn rauða hnefa framan í mikinn hl. þjóðarinnar. Að stj. valdi þessa leið, verður að vera á hennar ábyrgð sjálfrar, hæstv. stj. getur ekki annars vænzt en að uppskera svo sem hún hefir sáð til.