16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. atvmrh. við meðferð þessa máls, að hann leit svo á, að milliþingan. í sjávarútvegsmálum hefði verið skipuð einhliða.

Ég vil nota þetta tækifæri til að minnast nokkuð á þessa n.

Milliþingan. í sjávarútvegsmálum og milliþingan. í atvinnumálum, þessar tvær n. voru afgreiddar því nær alveg samtímis frá þinginu og eru mjög nátengdar hvor annari, þó að rétt þætti, að sín n. færi með hvort mál. Í milliþingan. í sjávarútvegsmálum voru tveir sjálfstæðismenn og einn framsóknarmaður, en í milliþingan. í atvinnumálum einn jafnaðarmaður, einn bændaflokksmaður og einn sjálfstæðismaður. Þessar tvær n., sem hafa haft svipað hlutverk, hafa því átt fulltrúa úr öllum þeim stjórnmálaflokkum, sem nú eiga fulltrúa á Alþ.

Þó er það svo, að þessar n. hafa ólíkt takmarkaðra verksvið hvor fyrir sig og báðar samanlagðar heldur en sú n., sem ræðir um í frv. því, sem hér liggur fyrir. Ég ætla, að það láti nærri sanni, að það sé yfirleitt því nær ekkert það til í atvinnulífi þjóðarinnar, sem afskipti þessarar n. ekki geta náð til. Henni er ætlað að rannsaka fjármál ríkisins og því vitaskuld fjármál ríkisstofnana. Líka fjármál þjóðarinnar, og það hlýtur að þýða fjármál hvers einstaklings, ef henni sýnist svo. Hún á ennfremur að rannsaka hvers konar atvinnurekstur í landinu frá annesjum og upp til fjalla og úti á fiskimiðum. Allt heyrir þetta til starfssviði þessarar n. Hér er svo ríkt að orði kveðið og valdsviðið svo víðtækt, að það verður tæplega gert víðtækara. Samt hefir hæstv. ríkisstj. horfið að því ráði að hafa þessa n. þannig skipaða, að meiri hluti kjósenda í landinu á þar engan fulltrúa. Að þessari n. standa, eins og kunnugt er, aðeins þeir flokkar, sem styðja núv. ríkisstj., en aðrir flokkar eiga enga fulltrúa í þessari n.

Nýlega var hér á ferðinni frv. um atvinnumiðlun. Það frv. var flutt af þeirri sömu stj., sem stendur að þessari einlitu nefndarskipun. Það kom fram í umr. um þetta frv. af hálfu jafnaðarmanna, að frv. væri komið fram eingöngu af þeirri ástæðu, að þeim, jafnaðarmönnum sjálfum, þótti óhæfa, óþolandi og óalandi, að bæjarstj. Rvíkur hafði gert ráð fyrir að opna vinnumiðlunarskrifstofu hér í bænum og að hafa að forráðamanni hennar mann, sem vitað er um, að er sjálfstæðismaður. En ég vil benda á það, að ekki er vitað um þennan mann, að hann hafi verið harðskeyttur í baráttunni gegn andstæðingum sjálfstæðismanna, ekki til líka eins harðskeyttur í baráttunni gegn andstæðingum síns flokks eins og tveir af þeim mönnum, sem sæti eiga í skipulagsn. svokölluðu, sem hér er um að ræða, þeir hv. þm. S.-Þ. og hv. 2. þm. Reykv. Það er enganveginn sambærilegt, hvernig þessi maður, sem er formaður Varðarfél. og stóð til að yrði fyrir þessari vinnumiðlunarskrifstofu, hefir gengið fram í landsmálum og hvernig þessir menn hafa gengið fram gagnvart sínum andstæðingum.

Þetta var þá tilefnið til þess, að hæstv. ríkisstj. kom fram með frv. til l. til að kippa þessu í liðinn. Svo óhugsandi þótti henni, að stjórnarandstæðingur yrði forstjóri þessarar stofnunar, vegna þess, að líkast til yrði meiri hluti þeirra verkamanna, sem leituðu til þessarar skrifstofu, ekki sömu skoðunar í landsmálum og þessi væntanlegi forstjóri hennar.

Beri maður nú saman þennan hugsunargang jafnaðarmanna á þingi við skipun skipulagsn. um atvinnumál, sem er þó ætlað að hafa miklu djúptækari áhrif á atvinnulíf í landinu heldur en það, hvernig nokkrum hundruðum manna er miðlað vinnu hér í Rvík, svo miklu róttækari áhrif, að með skipun þessarar n., eru gerðar ráðstafanir til þess, að hægt sé að setja allt landsfólkið undir rannsóknarrétt, og meiri hluta þess þar með ætlað að hlýða boði og banni minni hlutans, að viðlögðum sektum og fangelsi, — þá er það bert og fullljóst, að með skipun n. er einmitt til slíks rannsóknarréttar stofnað, með vali manna í þessa n.

Það er að vísu satt, að atvinnuvegir þjóðarinnar, líka þeir, sem einstakir menn og félög standa að, standa mjög höllum fæti og að full þörf er á að greiða úr þeirra vandræðum. Þingið hefir nú þegar viðvíkjandi landbúnaðinum stigið stórt spor í þá átt að reyna að létta þau vandræði, sem á honum hvíla.

Samt sem áður er það líka réttmætt og sjálfsagt að rannsaka ástand atvinnuveganna, leiðrétta það, sem miður fer og reyna að koma fótum undir þær greinir þeirra, sem fallnar eru eða liggur við falli. Skipun hæfra manna í n. til að reyna að ráða fram úr vandræðum þeirra atvinnuvega er fyllilega réttmæt.

Þessari skipulagsn. er falið að rannsaka alla verzlun landsmanna utanlands og innan. Þó að ekki sé talað um annað en utanríkisverzlunina, er það ærið verkefni fyrir góða menn að rannsaka og skipta sér af, og hefir því verkefni verið of lítið sinnt á undanförnum þingum. En samt sem áður verður að gæta þess, að til slíkra afskipta, sem hér er til stofnað, — að til þeirra sé ekki stofnað þannig, að fyrirfram sé augljóst, að mikill hluti þjóðarinnar hljóti að bera ugg gagnvart þeim mönnum, sem þarna eiga að leggja á ráðin.

Hæstv. ráðh. virðist hafa gengið út frá því sem alveg gefnu, að þetta væri málefni, sem sjálfstæðismenn alls ekki fengjust til að skipta sér neitt af. Ég held, að slík staðhæfing hafi ekki haft við nein rök að styðjast fram að þeim tíma, þegar n. var skipuð. Það mun hafa verið fyrst eftir að vitað var, hvernig þessi n. var samsett, með því ógnarvaldi, sem hún á að hafa samkv. frv., að blöð sjálfstæðismanna gagnrýndu gerðir stj. á þessu sviði og töldu hæpið, að nefndarskilun þessi mundi verða að nokkru gagni, og hvort henni væri ætlað að vera nokkuð annað en svipa á einhvern hluta þjóðarinnar. Hefði stj. borið það undir landsmenn, án tillits til flokkaskiptinga, hvort þeim litist á, að þessi mál, sem n. er ætlað að fjalla um, yrðu tekin til gagngerðrar íhugunar, eins og hér ræðir um, þá hygg ég, að hún hefði fengið jákvætt svar frá sjálfstæðismönnum líka, engu síður en öðrum, að því tilskildu, að störf þau, sem henni væru ætluð, yrðu unnin með heill alþjóðar fyrir augum, en ekki aðeins einstaks flokks.

Það er hverju orði sannara, sem hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni í gær, að þó að nefndarmenn hefðu ákveðnar skoðanir í landsmálum, þá væri það engin sönnun þess, að þeir væru ekki hæfir til þeirra starfa, sem þeim eru falin. Þetta er vitaskuld alveg rétt. En það hefir nú borið við á þessu þingi, og þess er ekki langt að minnast, að þeir tveir stjórnmálaflokkar, sem nú standa að þessari nefndarskipun og sem ætlað er einungis að fara með valdið, sem n. þessari er gefið, þeir hafa tekið fyrir eina af aðalatvinnugreinum þessa lands og skipulagt hana með l. og verið einráðir um allar framkvæmdir henni viðkomandi. Ég á hér við síldareinkasöluna. Þar var ekki tekið tillit til þess, sem þá kom fram frá andstæðingum þeirrar stj., sem þá sat og var studd af sömu flokkum og sú, sem nú situr. Þar var gaumgæfilega gengið fram hjá því, í hverju einasta smáatriði, að taka nokkra bendingu til greina, sem kom frá andstæðingum stj. Þegar síldareinkasalan var sett á stofn, þá gengu jafnaðarmenn á þingi svo rækilega í berhögg við sínar eigin skoðanir og staðhæfingar, sem þeir höfðu alstaðar haldið fram úti um allt land, að þeir felldu till. um það, að framkvæmdastj. síldareinkasölunnar skyldi vera kosin með hlutfallskosningu. Við sjálfstæðismenn bárum fram till. um, að hlutfallskosning væri höfð á framkvæmdastj., til þess að tryggja það, að minni hlutinn ætti þó einhvern fulltrúa í framkvæmdastj. Að hafa þessa aðferð hefir verið uppáhaldskrafa allra jafnaðarmanna alstaður á landinu í mörgum málum, svo sem í kosningum hreppsnefnda og bæjarstjórna og er fullkomin sanngirniskrafa. En þegar síldareinkasalan var sett á stofn þá brá svo við, að löngunin til að nota valdið út í yztu æsar varð yfirsterkari hjá þessum flokkum. Hinn skeyttu þeir ekki, að vera trúir stefnu sinni með því að láta framkvæmdastj. síldareinkasölunnar vera alla kosna með hlutfallskosningu.

Ég bendi á þetta sem dæmi.

Því er fyrir löngu slegið föstu, ekki einungis hér á Alþ., heldur af alþjóð, að þessir tveir flokkar réðu öllu frá upphafi vega yfir síldareinkasölunni. Og síðasta verk þeirra var að afnema hana og taka þrotabú hennar til skipta, þegar þessi atvinnuvegur, síldarútgerðin, var um það bil kominn í rústir fyrir aðgerðir síldareinkasölunnar, og þegar sýnt var, að ríkissj. hafði orðið fyrir milljónatapi, og þegar sýnt var, að sjómenn höfðu orðið fyrir stórkostlegum skaða vegna síldareinkasölunnar. (Forseti (JörB): Ég vil benda hv. þm. á, að síldareinkasalan er hér ekki sérstaklega til umr. nú). (TT: Getur ekki allt milli himins og jarðar heyrt undir verksvið þessarar skipulagsn.?). Ég held, hæstv. forseti, að þó að ég sneri við blaðinu og færi að tala um búskap í Árnessýslu, þá mundi það einnig geta heyrt undir þetta mál. En ég skal fúslega stytta mál mitt, þegar hæstv. forseti mælist til þess.

Það er ekki einhlítt í atvinnumálum að nota flokksaðstöðu harðvítuglega til að berjast á móti andstæðingum. Það er sérstakt tilefni til að athuga svona mál nú, einmitt af því, að nú er greinilega stefnt að því að vega í sama knérunn og þá var gert. Hér þykist nú hver mikill maður á þingi, sem eitthvað getur sparkað í einstaklingsfrelsið og einstaklingsframtakið í atvinnurekstri.

Ég ætla, að allir, sem komnir eru til vits og ára meðal þessarar þjóðar, hafi gert sér það ljóst, hve miklar hafa verið hinar verklegu framkvæmdir hins opinbera síðustu áratugina. Þessar framkvæmdir gefa þeim útlendingum, sem gista land vort, tilefni til að dást að því, að svo fámenn og fátæk þjóð skuli geta staðið undir þeim byrðum, sem þessar framkvæmdir — brúargerðir, vegagerðir, hafnargerðir, vitabyggingar og margt fleira — hafa óhjákvæmilega í för með sér. Og nú vil ég biðja þá menn, sem sérstaklega hafa haft horn í síðu einstaklingsframtaksins í atvinnurekstri, að kannast við það, að einmitt á þessum sömu áratugum, sem svona miklar opinberar framkvæmdir hafa verið gerðar, þá hefir ríkið staðið á þeim þjóðskipulagsgrundvelli, að einstaklingsfrelsið til atvinnuframtaks hefir lítið verið skert, svo að einstaklingsframtakið hefir fengið að njóta sín. Ég vil engu spá um það, hvað gert verður hér á þessu landi að þessum framkvæmdum á næstu 3—4 áratugum, en ég óska og vona, að ástæður þjóðarinnar leyfi það, að sama framtakið geti haldið áfram hjá þingi og stj. að því er þessar framkvæmdir snertir. En ef svo á að fara, þá má vissulega ekki halda áfram þeirri herferð, sem þegar fyrir löngu hafin er gegn öllu því, sem nefna má einstaklingsframtak í þessu landi, með skattaálögum og öllum afskiptum löggjafarvaldsins í seinni tíð, sem ekki leiðir til annars en hruns, ef svo heldur áfram.

Sé það skoðun sósíalista, að vinnumiðlunarskrifstofa sé óalandi af því að fyrir henni á að standa maður, sem ekki er þeirra maður í pólitík, þá hljóta þessir sömu menn að vera þess vitandi, að þessi skipulagsn., sem hér ræðir um og að yfirlögðu ráði er skipuð harðskeyttum andstæðingum sjálfstæðismanna, er þannig úr garði gerð af hálfu stj., að hún getur ekki notið trausts hjá meiri hluta þjóðarinnar. Þetta er alveg rökrétt ályktun, með hliðsjón af þeim ástæðum, sem jafnaðarmenn sjálfir færðu fyrir því, að ekki mætti hafa sjálfstæðismann fyrir formann stofnunar, sem úthlutaði vinnu hér í Reykjavík.

Ef borin eru saman ummæli sósíalista um vinnumiðlunarskrifstofuna, sem stóð til að opna hér í Rvík, sem fram komu í umr. um það mál, ef þau ummæli eru borin saman við skipun þessarar n., þá virðist mega ætla, að með nefndarskipuninni sé ekki hugsað fyrst og fremst um heill alþjóðar, heldur stefnumál ákveðinna stjórnmálaflokka og framdrátt þeirra sömu flokka meðal landsmanna. Og sé það svo, þá er það rétt, sem hv. þm. Snæf. hélt fram, þá á þessi nefndarskipun ekki að vera gerð með lögum af Alþ. og ekki heldur á alþjóðarkostnað, því að þá er hún mál þeirra tveggja flokka, sem styðja stj. og annara ekki.

Það er ekki glæsilegt til viðreisnar þjóðfélagi, ef sá meiri hluti, sem völd hefir á þingi á hverjum tíma, gerir þingið að vettvangi hagsmunastreitu flokkanna. Ef sá háttur á að takast upp, þá horfir vissulega til auðnar í þjóðfélagsmálum.

Það er full ástæða til þess, einmitt við þessar umr., að benda hæstv stj. á þetta.

Mér virtist. hæstv. atvmrh., sem vissulegu er greindur maður og glöggur, sjá við nánari íhugun, að hér er um stjórnarfarslega veitu að ræða. Og það er mjög eðlilegt, að einmitt sá ráðh., sem vitaskuld ber ábyrgð á þessari nefndarskipun, sennilega mesta af þeim, sem nú eru í stjórn, sjái, að það er ekki hentugt að skipa þessa n. með hagsmuni tveggja stjórnmálaflokka sérstaklega fyrir augum. Um svo veigamikið fyrirtæki sem þetta, sem hlýtur að hafa afdrifarík áhrif á atvinnumál þjóðarinnar, verð ég að segja, að það er allt annað en viðeigandi að gera það opinbert, að þetta fyrirtæki eigi ekki að hafa annan tilgang en þann að tryggja hagsmuni eins eða tveggja stjórnmálaflokka.