16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Thor Thors:

Það er í rauninni ekki margt, sem ég þarf að svara ræðum hæstv. atvmrh. bæði í gær og í dag. Hann flutti ræður sínar yfirleitt prúðmannlega. En þó virtist bregða út af því í upphafi ræðu hans í gær. Hæstv. ráðh. virtist vera í dálítið æstu skapi. Hann leyfði sér að viðhafa þau orð um framkomu mína, sem gætu valdið misskilningi. Hann sagði, að ég hefði ekki verið í sem beztu ástandi er ég flutti ræðu mína.

Um daginn kom það fyrir hér í þessari hv. d., að einn af fylgismönnum stj. hristi af sér handjárnin og sagði álit sitt skýrt og afdráttarlaust á einu af frv. stjórnarinnar. Hann fékk hið sama svar hjá hæstv. atvmrh., en þó í æstara tón. Hann sagði, að þessi þm. væri ekki í sem beztu ástandi. Ef annar en hæstv. ráðh. segði slíkt, þá myndi falla grunur um það, að hann væri vísvitandi að læða inn í þingtíðindin dylgjum um ástand manna. En af því að hæstv. ráðh. er yfirleitt kunnur að prúðmennsku, þá held ég, að tilgangurinn sé ekki þessi. En ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Ég held, að þetta orðatiltæki megi heimfæra upp á ráðh. sjálfan. Og verður það þá að skýrast af taugaóstyrk, sem einkennt hefir ráðh. upp á síðkastið.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri einkennilegt, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi nú bjóða þátttöku sína í störfum nefndarinnar. Ég hefi auðvitað enga heimild til þess að bjóða þátttöku Sjálfstæðisflokksins í störfum nefndarinnar. Ég vék aðeins að því í gagnrýni minni á skipun nefndarinnar, að það hefði verið rétt að bjóða öllum stjórnmálaflokkum þátttöku í n.

Það er líka eitt atriði, sem þarf að taka tillit til í þessu efni, og það er, að Sjálfstæðisflokkurinn á í sínum hópi þá menn, sem mest hafa látið til sín taka á sviði atvinnumála. Það er ekki rétt, að Sjálfstæðisflokkurinn vilji sýna slíkri nefndarskipun neina óvináttu eða fjandskap. Bæði í blöðum og á landsfundi sjálfstæðismanna hefir því verið haldið fram, að nauðsyn væri á að skapa meiri fjölbreytni í atvinnumálum þjóðarinnar. En það hefir enn ekki verið auðið að ráða til lykta, hvernig þeim tilgangi yrði bezt náð. En gagnrýni Sjálfstæðisflokksins á þessari nefndarskipun hefir eingöngu snúizt um það, hvernig n. væri skipuð. Í skipun n. virtist ekki tekið tillit til neins nema pólitískra skoðana, svo að hér væri um flokksmál stjórnarflokkanna að ræða, en ekki alþjóðarmál. En það er ekkert undarlegt, að sjálfstæðismenn vilji athuga þetta mál.

Fyrir atbeina sjálfstæðismanna er komið fram frv., sem fer í þá átt, að nákvæm rannsókn og athugun sé tekin upp á sviði sjávarútvegsins. Það er frv. hv. þm. G.-K. um fiskiráð. Þar kemur glögglega fram munur á stefnu þessara flokka. Stjórnarflokkarnir vilja aðeins láta flokksmenn sína rannsaka þessi mál. En sjálfstæðismenn vilja láta menn af öllum stjórnmálaflokkum taka þátt í rannsókninni. Sjálfstæðismenn vilja láta það ráða, að sérþekking sé fyrir hendi og tryggja það, að svo sé, í sem ríkustum mæli.

Ég vil nota tækifærið til að þakka hæstv. atvmrh. fyrir það, sem fram kom í ræðu hans í gær. Hann kom þar með tilboð til Sjálfstfl. um að taka sæti í nefndinni. Ég get ekki sagt, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn mun taka slíku tilboði. En ég get sagt fyrir mig persónulega, að ég er hlynntur því, að hann gerði það. Það er líklegt, að slíkt myndi leiða til farsælla úrræða, ef Sjálfstæðisfl. með sérþekkingu sinni og reynslu tæki þátt í rannsókn þessara mála. Ef hæstv. atvmrh. stendur við tilboð sitt, þá mun Sjálfstæðisfl. taka það til athugunar. — En viðvíkjandi því, sem hæstv. atvmrh. sagði um andúð Sjálfstæðisfl. gegn nefndarskipuninni, af því að hún væri í 4 ára áætlun Alþýðufl., þá skal þess getið, að gagnrýni Sjálfstæðisflokksins er fyrst og fremst sprottin af því, að hann álítur slíka nefndarskipun enga allsherjarbót á öllu böli þjóðfélagsins. Ég hefi viljað benda hæstv. ráðh. á það, hversu höllum fæti stjórnin stendur með þjóðinni. Bak við stjórnina standa 22637 kjósendur, en bak við andstæðinga stjórnarinnar 25600 atkv. Þetta er því í raun og veru minnihlutastjórn með þjóðinni. Ég taldi því rétt, að benda hæstv. ráðh. á það, að rétt væri að taka tillit til andstæðinganna. Hæstv. atvmrh. spurði, hvort ég hefði umboð til þess að tala fyrir hönd Bændafl. Ég hefi ekkert umboð til þess, en hæstv. ráðh. veit vel, hvernig Bændaflokkurinn varð til. Hann varð til á þann hátt, að nokkur hluti Framsóknarflokksins neitaði samvinnu við sósíalista. Það þarf því ekki að efa, að Bændaflokkurinn er í harðsnúinni mótstöðu við stj.

Hæstv. atvmrh. hélt því fram, að það væru mjög færir menn í n. Ég skal ekki mótmæla því, að sumir nefndarmanna séu færir menn og duglegir, og að það megi vænta þess, að þeir sýni dugnað í starfi sínu í n. En aðalástæðan fyrir gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á n. er sú, að hún er einlit, og að hér eru eingöngu harðsnúnir stjórnmálamenn að verki. Þetta eykur í tortryggni í garð n. og gerir hana óvinsæla. Ég vil benda á það, að stj. hefir ekki staðið við loforð sitt, að skipa eingöngu sérfróða menn í n. Hæstv. atvmrh. vék að hverjum nefndarmanni út af fyrir sig, og vildi telja þá alla sérfræðinga á vissum sviðum. Hann byrjaði á hv. 2. þm. Reykv. og sagði, að hann væri hagfræðingur að menntun og að því leyti sérfræðingur. Ég býzt við, að sú menntun geti komið að notum í sambandi við rannsókn á fjármálum þjóðarinnar. En hvað atvinnumálin snertir, þá er hann varla sérfræðingur á því sviði. Atvinna hans er olíusala. Það væri auðvitað gott, ef hann gæti komið því til leiðar, að olíuverðið lækkaði, og á þann hátt hleypt nýju fjöri í sjávarútveginn.

Næst talaði hæstv. ráðh. um hv. þm. Hafnf. og sagði, að hann væri verkfræðingur. Það er alveg rétt, og sú sérþekking getur auðvitað verið góð innan nefndarinnar. En það er þó ekki sú sérþekking, sem mest þörf er á. Hæstv. ráðh. vildi einkanlega telja hann fulltrúa iðnaðarmanna. En ekki get ég skilið það. Það væri þá heldur þriðji fulltrúi sósíalista. Hann kvað vera byggingarmeistari. Það getur verið, að sú þekking geti komið að einhverjum notum í n. Hæstv. atvmrh. vildi telja þeim tveim síðastnefndu sósíalistum það til framdráttar sem nefndarmönnum, að þeir væru viðriðnir atvinnufyrirtæki, sem sé. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sem hefði orðið fyrir harðsnúnum árásum. Ef þetta ætti að gera menn kjörgenga til þessa starfs, þá munu eflaust fleiri koma til greina. — Hæstv. ráðh. var að barma sér mikið yfir því, að Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefði orðið fyrir harðsnúnum árásum. En alveg um sama leyti sem hæstv. ráðh. var að þessu leyti að tala máli friðarins í þessari hv. d., þá var hrópað af þeim, sem seldu blað hæstv. ráðh. á götunum hér í bænum: „Rannsókn á Kveldúlf“. Alstaðar erlendis myndi það vera álitið, ef slík fyrirsögn birtist í blaði, að hér væri um glæpsamlegt athæfi að ræða hjá fyrirtækinu. En sannleikurinn var bara sá, að það hafði ekki verið fyrirskipuð nein rannsókn á fyrirtækið. Og tilefni greinarinnar var aðeins það, að blaðið taldi líklegt, að hv. þm. G.-K. mundi mæla á móti frv. um rauða rannsóknarréttinn. En þetta gerði fyrirtækinu raunar ekkert til. Ég býst við, að forstjórar þessa fyrirtækis myndu kunna illa við sig í þjóðfélaginu, ef hætt væri árásum á fyrirtækið. Þeir eru orðnir þessu svo vanir. Og svo er því nú svo varið, að menn eru hættir að taka óknyttatilraunir ritstjóra Alþýðublaðsins alvarlega.

Um framsóknarmennina í n. sagði hæstv. ráðh., að annar þeirra væri landbúnaðarkandidat. En ég efast ekki um, að hægt hefði verið að fá mann með meiri þekkingu og reynslu í þessu efni. En mér virtust koma dálitlar vöflur á ráðh., þegar hann ætlaði að fara að skýrgreina hverskonar sérfræðingur fimmti nefndarmaðurinn væri, sem sé formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. S.-Þ. Ég get vel skilið, að það hafi komið ljót orð í huga hæstv. ráðh., þegar hann átti að fara að skýrgreina það, hverskonar sérfræðingur þessi maður væri. Hann komst þó helzt að þeirri niðurstöðu, að hann væri sérfræðingur á sviði samvinnumála. Það er að vísu rétt, að hann hefir lífsframfæri sitt af samvinnufélagsskapnum, en ég hygg, að flestir væru betur til þess kjörnir að setja samvinnusnið á nefndina en hann.

Það var boðað í tilkynningunni um þessa nefndarskipun, að hún yrði n. sérfróðra manna. Í skipulagsbréfi n. er starfssvið hennar ákveðið. Hún á m. a. að koma með till. um aukna atvinnu og framkvæmdir í landinu, um aukna afurðasölu innanlands og utan o. s. frv. Þar sem um slík verksvið er að ræða, þá mætti telja það rétt, að landbúnaðurinn fengi sinn fulltrúa í n. Og ef hér væri ekki um hreina flokksnefnd að ræða, þá væri eðlilegast að láta búnaðarfélagið útnefna manninn. Og hvað sjávarútveginn snertir, þá hefir ekki neinn nefndarmannanna sérþekkingu á því sviði. Þess væri þó full þörf. Því háttar nú einmitt svo til, að þau mál munu fyrst þurfa að koma til aðgerða hjá þessari n. Það hefði því ekki verið úr vegi að leita til fiskifélagsins eða sölusambands ísl. fiskframleiðenda, að þessi félög tilnefndu mann í n. með sérþekkingu á þessu sviði. Með tilliti til þess að auka afurðasöluna innanlands og utan, þá hefði mátt leita til sölusambands ísl. fiskframleiðenda og Sambands ísl. samvinnufélaga, sem hefir mikla þekkingu á sviði landbúnaðarafurða. Þar sem hér á að taka allan atvinnurekstur fyrir, og þar sem þessi stjórn kallar sig stjórn hinna vinnandi stétta á Íslandi, þá hefði verið rétt að taka einhvern úr þeirri stétt í nefndina. En það hefir ekki verið gert. Að mikil þörf er á sérþekkingu innan nefndarinnar bendir það, að hún á að beita sér fyrir bættum búnaðarháttum og bættri verkun sjávarafurða.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni í dag, að sjálfstæðismenn væru stöðugt að tala um hið ógurlega vald, sem þessi n. fengi í hendur. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri aðeins skraf, sem ekki væri mark á takandi. En þar sem hér er um að ræða frv., sem gefa á n. vald til þess að kalla fyrir sig hvern mann á landinu sem er, hvar svo sem hann er búsettur, og ef hann ekki hlýðir boði nefndarinnar, þá á hann á hættu að sæta sektum eða verða settur á bekk með glæpamönnum, þá er það ekkert skraf út í loftið, þó sagt sé, að nefndin hafi mikið vald. Það getur m. a. s. orðið ægilegt í höndum óhlutvandra manna.

Hæstv. ráðh. var að tala um ótta í sambandi við þetta mál. Ég veit ekki vel, við hvað hann á. Við sjálfstæðismenn erum yfirleitt ekki hjartveikir eða neitt hræddir um, að n. fari að limlesta okkur.

Ég álít skylt að benda á það, að því fé, sem varið verður úr ríkissjóði til þessarar n. sé illa varið, af því að starf n. mun ekki bera tilætlaðan árangur, vegna þess að þetta er n. ákveðinna flokka, ákveðinnar stefnu. — Hæstv. ráðh. sagði, að nefndin myndi steinþegja um það, sem upplýstist í málinu. Í frv. segir, að nefndin megi ekki segja „óviðkomandi mönnum“ frá þeim upplýsingum, sem hún fær. Það getur orðið ágreiningur um það, hverjir séu taldir óviðkomandi. Það er t. d. ekki ólíklegt, að ritstjórar stjórnarblaðanna verði ekki taldir óviðkomandi menn.

Hæstv. atvmrh. taldi ólíklegt, að Sjálfstæðisflokkurinn gæti átt sæti í nefndinni, af því að með störfum nefndarinnar væri stefnt að þjóðnýtingu. Með þessu hefir þá verið lýst yfir, að nefndin væri flokkspólitísk. Hæstv. ráðh. dró aftur úr þessu seinna í ræðu sinni. Hann sagði, að vegna viðskipta okkar við aðrar þjóðir, þá væri nauðsynlegt að takmarka athafnafrelsi einstaklinganna. Ég álít, að takmörkun á athafnafrelsi vegna milliríkjaviðskipta geti ekki verið neitt deilumál. Það eru okkur öllum óviðráðanleg atvik. Ég sé ekki, að þetta geti neitt hindrað þátttöku sjálfstæðismanna í nefndinni.

Hæstv. ráðh. sagði, að ótti okkar sjálfstæðismanna við það, sem hann kallaði „rauðu svipuna“ væri ástæðulaus. Ég hefi áður í ræðu minni vikið að því. Í vitund almennings hefir þetta verið álitin flokksnefnd og talin rauð. Sósíalistar hafa sjálfir hér í þinginu kallað nefndina „Rauðku“. Það væri ástæða til að breyta litnum á Rauðku, svo að starf hennar gæti komið að betri notum.

Ég tel þetta frv. í raun og veru þýðingarlaust, því allar skýrslur um hag einstaklinga og stofnana liggja opnar fyrir, og getur n. auðvitað notfært sér þær. En ef kalla á menn fyrir rétt til þess að láta af hendi reynslu sína og þekkingu á sviði atvinnumála, þá nær frv. ekki tilgangi sínum. Menn munu yfirleitt ekki gera slíkt með þvingunarráðstöfunum. En ef litnum á nefndinni væri breytt og menn sæju, að hér væri um alvarlega tilraun að ræða til þess að ráða fram úr vandræðum atvinnumálanna, þá myndu allir vilja stuðla að því, að störf nefndarinnar bæru tilætlaðan árangur.