16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Mig furðar það í rauninni, hvað hæstv. ráðh. virtist vilja draga úr öllum ákvæðum þessa frv., sem þó liggja hér prentuð fyrir. Ég get ekki talið neitt ofmælt af því, sem ég sagði um vald nefndarinnar eða viðurlög fyrir þá, sem að hennar dómi ekki gefa réttar skýrslur.

Í rauninni er ekki ástæða til að fara langt út í ræðu hæstv. ráðh. Hann talaði um, að sér hefði fundizt sem ræður okkar hv. þm. Snæf. væru mestmegnis fimbulfamb. Það er kannske ekki rétt að fara þeim orðum um ræðu hæstv. ráðh., en hann fór sjálfur á við og dreif og rabbaði góðlátlega við heildina um þau verk, sem honum virtust liggja fyrir nefndinni. Og mér virtist honum takast að telja upp hreint ekki svo lítið af því, sem heyrði undir valdsvið n. Sannaði hann því orð mín, sem auðvitað var, að í rauninni er ekkert til á sjó og landi, hvorki utan- eða innanríkisverzlun, sem ekki heyrir undir valdsvið þessarar n.

Ég vil nota þetta tækifæri til að mótmæla þeirri firru, sem haldið hefir verið fram af flokksmönnum hæstv. ráðh. og jafnvel hann sjálfur lætur skína í gegnum orð sín að því er snertir afstöðu Sjálfstæðisflokksins til einstaklingsframtaksins, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir ekki sett sig upp á móti þeim höftum eða reglugerðum, sem eru óhjákvæmileg vegna viðskiptasamninga við erlend ríki, enda þótt við teljum sjálfsagt að leggja ekki meiri hömlur á framtak einstaklingsins en nauðsyn ber til. Við sýnum það daglega hér á Alþ. með því að greiða atkv. með ýmsu því, sem leggur nokkrar hömlur eða bönd á framtak einstaklingsins, enda þótt við hinsvegar getum ekki gengið inn á þá stefnu hæstv. stj. að leggja allt í hömlur hafta og ofstækis. Heldur viljum við sjálfstæðismenn efla, eftir því sem unnt er, framtak einstaklingsins með hæfilegu aðhaldi laga, og það er einmitt þetta, sem skilur milli okkar og sósíalistaflokkanna í landinu, sem virðast nú vera orðnir tveir, eða þeir flokkar, sem styðja núv. hæstv. stj. Nú liggur fyrir játning hæstv. ráðh. á því, að markmið þess ótölulega aragrúa af störfum, sem liggja fyrir nefndinni, sé þjóðnýting, eða m. ö. o., að markið sé framkvæmd stefnu sósíalista á Íslandi. Vegna þess að þetta var markmið n., hefði hann gengið framhjá stærsta stjórnmálafl. landsins, Sjálfstæðisflokknum. Þar sem stefna þess flokks gengur í aðra átt mátti til með að ganga fram hjá honum. Það er gott að hafa skýlausa yfirlýsingu hæstv. ráðh. fyrir því, að af þessum sökum var gengið fram hjá þeim starfskröftum, sem sá flokkur á ráð á. Það er gott, að í þessu stórvægilega máli skuli liggja fyrir þessi yfirlýsing hæstv. ráðh., en það er ekki að sama skapi gleðiefni fyrir þjóðina, því það vita allir allt út til annesja og til innstu afdala, að útlit atvinnuveganna er nú slíkt, að aldrei hefir verið meiri þörf á, að sameinuðust allir góðir kraftar þjóðarinnar, sem völ er á, sameinuðust til að greiða fram úr vandamálum hennar, en á sama tíma situr að völdum svo léttúðug og ófyrirleitin ríkisstj., að hún skirrist ekki við að lýsa því yfir á Alþ., að vegna stjórnmálaskoðana hafi verið gengið framhjá stærsta stjórnmálaflokknum í landinu, gengið fram hjá meiri hluta þjóðarinnar. Með þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. liggur fyrir skýlaus játning á því, að hæstv. ríkisstj. metur meira flokkshagsmuni en þjóðarheill.

Ég verð að segja það í sambandi við ótta Sjálfstæðisflokksins, sem hæstv. ráðh. talaði um, að það er ekki ótti við það, sem fram kann að koma við okkur sem einstaklinga í daglegum viðskiptum við nefndina, né yfirheyrslur, sem við hræðumst, heldur óttinn við sundrung á kröftum þjóðarinnar, og til þess er líka full ástæða fyrir hæstv. stj. að óttast slík atvik, sem geta leitt til sundrungar. Það er því brýn þörf ei vegna þjóðarheildarinnar að skera niður við trog alla flokkshagsmuni. Því annars mun þessi ótti eiga við full rök að styðjast áður lýkur. Ég verð að segja, sérstaklega hvað snertir þennan hæstv. ráðh., að orð hans voru að vísu sanngjörn í margan mála, en verkin tala hærra en orð. Skipulagsn. er þannig skipuð, að jafnvel samkv. hugsanagangi hæstv. ráðh., getur landsfólkið ekki borið traust til þess, að henni sé ætlað að vinna að heill alþjóðar. Vitur ríkisstj. hefði talið sjálfsagt í öðru eins máli og þessu að taka tillit til þess, að það lifa fleiri flokkar en sósíalistarnir — Alþýðufl. og Framsókn — í þessu landi. — Hæstv. ráðh. hefir talað og yfirlýsing hans er skýr og glögg, að vegna þess að hér á að vinna að ríkisrekstri og þjóðnýtingu hirðir hann ekki um íhlutun þeirra manna, sem ekki trúa á, að þessar ráðstafanir verði þjóðinni til framdráttar.

Samlíkingin, sem ég dró á milli atferlis sósíalista í vinnumiðlunarmálinu er alveg rétt. Hæstv. ríkisstj. sýnir, að þeir flokkar, sem að henni standa, eru ekki ennþá komnir á það stig, að þeir séu færir um að taka afleiðingunum af því, sem rekur sig á hagsmuni hennar flokka.

Ég verð að segja það, án allrar ánægju yfir að þurfa að segja það, að mér virðist, að það horfi svo við á þingi nú, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hafi ekki hafið sig yfir það að vera flokksstjórn. Það sama er hægt að segja um aðeins eina ríkisstjórn, er áður hefir setið hér að völdum. Reynslan hefir ekki kennt þessari hæstv. stj., að það er ekki nóg, að ríkisstj. þjóni hagsmunum síns flokks, góð stjórn, veruleg þjóðstjórn, á að þjóna hagsmunum allra barna þjóðarinnar.

Hv. þm. Snæf. mótmælti greinilega því, sem hæstv. ráðh. sagði um afstöðu Sjálfstæðisfl. á þingi þjóðarinnar að því er viðkemur utanríkisverzluninni. Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út, að það, sem í þeim málum gerðist, gerði það að verkum, að stefna sósíalista ætti meiri rétt á sér en stefna Sjálfstæðisfl. En við höfum alltaf viðurkennt þá þörf í verzlunarmálum milli þjóðanna, að nauðsyn getur til borið fyrir okkur að gera það sama og aðrar þjóðir í þeim efnum.

Hæstv. ráðh. lét skína í það, að hann væri því ekki mótfallinn fyrir sitt leyti, að fleiri flokkar ættu fulltrúa í þessari n. en stjórnarflokkarnir. Ég taldi þá þessi ummæli hans sprottin af því, að hann við nánari athugun hefði séð, að mesta óréttlæti væri, að haga nefndarskipuninni þannig, að aðrir flokkar ættu ekki meiri ítök en er. — Um mennina sjálfa persónulega, sem eru í þessari n., hefi ég ekkert rætt, en skipun hennar sýnir, að flokkslitur hefir verið látinn ráða og að henni er ætlað að vinna störf fyrir einn stjórnmálaflokk, en ekki þjóðarheildina.