16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég ætla mér ekki að lengja mikið umræður um þetta mál. Ég vona, að þeim fari nú að verða lokið og frv. geti gengið sína leið.

Ég skal þá víkja að hv. þm. Snæf. Hann hafði eftir mér þau orð, sem mátti misskilja, um sálarástand hans. En ég skal þá taka það fram, að ummæli mín bar aðeins að skilja á þann veg, að þetta og e. t. v. fleiri mál, sem stj. hefir borið fram, hefðu raskað hans sálarró, annað og meira var það ekki, sem ég átti við með þessum orðum, og ég bið afsökunar á, ef ástæða hefir verið til að skilja þau á annan veg. — Það er fátt, sem ég þarf að svara öðru í ræðu þessa hv. þm. Ég get aðeins vísað til þess, sem ég hefi áður sagt, en sé ekki ástæðu til að endurtaka það.

Hv. þm. Vestm. tók það fram, að hann hefði ekkert út á mennina að setja, sem n. skipuðu, heldur hvernig þeir eru valdir frá pólitísku sjónarmiði. Hann kallaði n. Rauðku, og mátti skilja, að honum fannst frekar, að hún ætti að vera skjöldótt, þ. e. hæfilega blönduð sjálfstæðisblóði. Vildi ég í því sambandi beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Vestm., hvort hann álítur, að nefndin yrði ópólitískari eða ýmsir menn í nefndinni yrðu starfhæfari, þó að bætt yrði við í hana t. d. þeim hv. þm. Vestm og hv. þm. Snæf. (TT: Það er alltaf gott að vera í góðum félagsskap). Já, það er alveg rétt, en það er ekki rétt, sem hv. þm. Vestm. sagði, að ég hefði gert Sjálfstæðisfl. tilboð um að taka þátt í störfum nefndarinnar, en ég sagði aðeins, ef Sjálfstæðisfl. bæri fram ósk um það, mundi nefnd sú, sem um málið fjallar, að sjálfsögðu taka það til athugunar.

Sérþekkingu þeirra manna, sem skipa n., virtist hv. þm. draga í efa, enda má lengi um það deila, hver hefir verulega sérþekkingu til að bera í þessu efni, sérstaklega á jafn víðtæku starfssviði og nefndin hefir. En mér er ekki kunnugt um, hverjir eru sérfróðari í þessu efni heldur en einmitt þeir menn, sem valdir hafa verið. Ég veit t. d. ekki um neinn, sem hefir betri þekkingu á verzlunarmálum og fjármálum en form. n., sem er lærður hagfræðingur, hefir setið í bankaráði Landsbankans og er forstjóri fyrir einu stærsta verzlunarfyrirtæki hér á landi. Annar nefndarmanna er búnaðarkandidat og hefir verið skólastjóri við búnaðarskóla og hefir því sérþekkingu á þeim málum. Þriðji maðurinn í nefndinni er verkfræðingur og hefir því sérþekkingu á iðnaðarmálum, enda líka starfandi í Landssambandi iðnaðarmanna og hefir haft forgöngu þar um ýms mál, og þar sem það heyrir undir verksvið nefndarinnar að koma með tillögur um stofnun nýrra fyrirtækja og atvinnugreina, er beinlínis heyra undir hans fag, ætla ég sérþekkingu hans alls ekki gagnslausa eða ómerka. Fjórði maðurinn er forstjóri í stóru útgerðarfyrirtæki og hefir því reynslu í þeim efnum, en það er ekki rétt, hvað sem hv. þm. Snæf. segir, að hann sé valinn vegna þess, að fyrirtækið hafi orðið fyrir opinberum árásum. Það hefir svarað opinberlega þeim árásum, og ég sé enga ástæðu til að fara út í það hér. — Um fimmta manninn er það að segja, að hann hefir verið helzti forystumaður samvinnumanna í landinu og skipulagt þeirra starf. (JJós: Og leitt bændurna yfir til sósíalismans). Það er nú bara sá gallinn á, að hann er ekki kominn með þá enn.

Ég verð að biðja afsökunar á þessum mannjöfnuði, en ég vil segja það, að þeir menn eru valdir, sem hafa sérþekkingu, burtséð frá pólitískum skoðunum, en ekki er hægt í fimm manna nefnd að hafa menn með sérþekkingu í öllum greinum atvinnumálanna, heldur var tekið mest tillit til helztu atvinnugreina landsins, eins og skipun nefndarinnar sýnir. — Í sambandi við þagnarskyldu nefndarinnar spurði hv. þm., hvort hún gilti einnig gagnvart ritstjórum, vitanlega er það tilætlunin. En ég tel sjálfsagt, að heildarniðurstöður af rannsókn og athugunum, sem n. hefir með höndum, verði birtar og gerðar almenningi kunnar.

Hv. þm. Vestm. taldi, að ég hefði gefið yfirlýsingu um, að ég hefði vegna þess að hér ætti að vinna að ríkisrekstri eða þjóðnýtingu, gengið fram hjá starfskröftum sjálfstæðisflokksins. Ég held, að hv. þm. hafi heyrt skakkt, mín ummæli hnigu aðeins í þá átt, að ég teldi óhjákvæmilegt, að störf nefndarinnar hnigju í þá átt, eða sveigðu inn á þær brautir, sem sjálfstæðismenn telja til þjóðnýtingar. Ég hefi getið þess, hvað ég sjálfur álít um þetta mál. N. eru engar reglur settar um það, hvernig till. hún kemur með. Ég lít svo á, að henni sé aðeins falið að gera till. til umbóta. Ég sagði ekki heldur, að n. mætti ekki vera skipuð Sjálfstæðismönnum, það var hv. þm. sjálfur, sem sagði það. Mig furðaði annars á, með hve miklum krafti hv. þm. flutti ræðu sína á köflum. Ég hefi gert grein fyrir, hvers vegna n. var ekki skipuð sjálfstæðismönnum. Það er vegna þeirrar afstöðu, sem þeir hafa tekið til þeirra mála, sem n. átti að taka upp. (ÓTh: Af flokksástæðum). Það er engin ástæða til að segja það, en það vantar ekki fullyrðingar í þessa átt, og ég hefi boðið fram athugun á því, hvort óskað yrði eftir fleiri mönnum í n.

Hv. þm. Vestm. óttast, að þessi nefndarskipun sundri samstarfi á Alþingi og harmar það mjög. Þetta hljómaði ákaflega fallega í kirkjuræðu. Ég hefi nú setið á þingi nokkurn veginn jafnlengi og þessi hv. þm., og ég verð að segja, að samstarf okkar á þingi hefir ekki yfirleitt verið sérstaklega innilegt. Það væri vel, ef það gæti orðið innilegra en áður. En ég býst nú því miður við, að það eigi enn langt í land. (JJós: Ráðherrann hefir misheyrt). Nei, hv. þm. sagði, að það sundraði samstarfi þm. um nauðsynleg mál.

Það er ekki óeðlilegt, að menn greini á um þetta. Það er reginmunur á skoðunum Alþýðuflokksins t. d. og Sjálfstæðisflokksins um það, á hvern hátt bezt séu leyst vandamál þjóðfélagsins. Það er ekki eðlilegt, að geti verið mikið um samvinnu, þegar annar vill þessa leið, en hinn hina. Í ýmsum smærri málum getur lánazt, að slíkir aðiljar taki tillit hvor til annars. En grundvöllurinn undir flokkaskiptingunni er vitaskuld sá, að í höfuðviðfangsefnum þjóðarinnar er meginmunur á skoðunum; þess vegna deila flokkarnir og reyna að vinna nógu mikið fylgi til að taka völdin.

Hv. þm. orðaði nú muninn á þessa leið, þó að það kæmi ekki skýrt fram. Hann kvað það rangt, að sjálfstæðismenn væru á móti skipulagi. „við viljum gott skipulag“, sagði hann. „En munurinn á okkur og jafnaðarmönnum er sá, að við viljum hlynna að framtaki einstaklingsins, en rauðu flokkarnir vilja hefta það“. Ég fer ekki út í það, hvort þetta er rétt eða rangt skilgreint. En frá hans sjónarmiði ber mikið á milli, ef annar hefir á stefnuskrá sinni að auka og efla einstaklingsframtakið, en hinn að fella einstaklinginn. Hvernig eiga þessir flokkar þá að vinna saman? En ef sjálfstæðismenn eru með því að koma á skipulagi, þá eru þeir með því að hefta framtak einstaklingsins á margan hátt að vissu marki. Skilgreining hv. þm. var því ekki rétt í þessu atriði. Ekki heldur hitt, að við jafnaðarmenn værum yfirleitt með því að hefta frelsi einstaklingsins í hvívetna. Við viljum víkka möguleika hjá öllum þeim einstaklingum sem hjá atvinnufyrirtækjum vinna, til þess að geta notið síns framtaks. En það verður ekki gert án þess að skerða einstaklingsframtak þeirra manna, sem ráða einir yfir stórum fyrirtækjum og þar með atvinnumöguleikum þúsunda manna. Það er því miður þannig, að því rýmra sem er um athafnafrelsi t. d. stóratvinnurekenda, sem allur þorri verkalýðs verður að leita til um atvinnu sér og sínum til framfæris, því meiri hömlur eru lagðar á möguleika þeirra mörgu, sem við fyrirtækið vinna. (ÓTh: Mikil spurning, hvort þetta er ekki alveg öfugt). Ég er ekki í vafa um það, að þessi hv. þm. er mér mjög ósammála. En það liggur í augum uppi, að þeir menn, sem vinna að togaraútgerð, ráða engu, heldur eru forstjórar þar einráðir. Og því einráðari sem þeir eru, því þrengra er fyrir alla hina mörgu, sem eiga allt sitt undir útgerðinni, að fá nokkurt svigrúm fyrir sitt einstaklingsframtak. Þetta má rekja um hvert einasta fyrirtæki í landinu.

Ég vildi svo að lokum óska þess, að ef sjálfstæðismönnum leikur hugur á að taka þátt í starfi nefndarinnar, þá létu þeir þá ósk koma fram til athugunar.