16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessar hávaðasömu umræður. En það er aðeins eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Vestm., sem ég vildi ekki láta ómótmælt, en leiðrétta af ríkisstjórnarinnar hálfu. Hann lét það falla, að n. væri bersýnilega skipuð til þess (og að því væri yfirlýst) að vinna að þjóðnýtingu, til að framkvæma stefnu sósíalista. Þessu atriði vil ég ekki láta ómótmælt, af því að það er algerlega rangt. N. er, eins og skipunarbréfið ber með sér, einungis skipuð til þess að rannsaka atvinnureksturinn og benda á úrlausnir á erfiðleikum, án þess að með skipun n. sé á nokkurn hátt tekin afstaða til þess, hvernig ráð hún gefi. Það leiðir líka af sjálfu sér, samkv. þeirri stefnu, sem Framsóknarflokkurinn hefir beitt, að hann getur ekki gengið inn á ríkisrekstur nema á takmörkuðu sviði. Eins og greinilega hefir komið fram í málum í þinginu, sem flokkurinn hefir fylgt til sigurs, þá hefir hann verið með ríkisrekstri á arðvænlegri verzlun og ýmsu þess háttar, en ekki yfirleitt samþ. að ganga til ríkisrekstrar á öðrum sviðum atvinnulífsins, svo sem framleiðslu.

Það má og benda á það, að þau frv., sem koma frá þessari n., eru ekki í þá átt, t. d. um skipulagning fólksflutninga á landi. Þar er greinilega ekki gengið inn á ríkisrekstur, heldur annað skipulag.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri, en vildi láta það sjást í þingtíðindunum, að þessi ranga yfirlýsing, sem hér hefir komið fram, hún er leiðrétt.