17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. talaði seinast í þessu máli og virtist hafa tekið hart viðbragð út af því, sem fram kom í ummælum embættisbróður hans, atvinnumálaráðh., og laut að markmiði skipulagsn., á hvern hátt hún myndi starfa og til hvers niðurstöður hennar myndu leiða. Hæstv. forsrh. flýtti sér að þvo hendur sínar og síns flokks af öllu því, er leitt gæti til þjóðnýtingar í sambandi við störf þessarar n. Hann fullyrti að þeir, framsóknarmennirnir, væru alls ekki á þeirri leiðinni að vinna að þjóðnýtingu og yfirleitt alls ekki með því að lögfesta einkasölur á vörum, nema þeim, sem dálítið væri á að græða. Hitt mega svo aðrir eiga við. Hæstv. ráðh. sagði og beindi því til mín, að þessar umr. hefðu verið nokkuð hávaðasamar. Kann að vera, að ég hafi nokkuð kveðið við raust, enda ástæða til eftir málavöxtum. En þó bar nú svo til, að ég hefi ekki mælt nógu skýrt eða hátt til þess að ritstj. að dagblaði hæstv. forsrh., sem á hér sæti í d., gæti numið mál mitt rétt eða hefði hæfileika til að fara rétt með það í blaði hæstv. ráðh. Það er þess vegna að því er virðist ekki vanþörf á því að tala allskýrt hér og hátt, ef þessi ritstj. á ekki að hverfa öllu við, sem hann heyrir. Hæstv. ráðh. endaði mál sitt á því, að hann væri staðinn upp til þess að mótmæla hinni röngu yfirlýsingu, er hann kallaði svo, og þm. Vestm. hefði komið með. Ég kom ekki með neina sjálfstæða yfirlýsingu í þessu máli, en henti aðeins á lofti það sem atvmrh. sagði um þau tvö atriði, hvers vegnu hann hefði skipað n. jafneinlita pólitískt skoðað, eins og raun ber vitni um og hver að hans áliti myndi verða niðurstaða þessarar n. Hæstv. atvmrh. er svo skýr maður og svo gætinn, að hann hefir áreiðanlega ekki sagt annað en það, sem hann meinti, og ekkert sagt í ógáti. Hann var svo hreinskilinn að láta uppi ástæðuna fyrir því, hvernig n. er skipuð, opinskátt og afdráttarlaust, og er það út af fyrir sig allrar virðingar vert, hvað sem annars má segja um nefndarskipunina frá pólitísku sjónarmiði skoðað. Vottar að því, sem hæstv. atvmrh. sagði, voru nægilega margir hér og þ. á m. forsrh. sjálfur, og því algerður óþarfi af honum að láta líta svo út, sem ég hefði verið að koma með ranga yfirlýsingu í þessu máli. Ég vil taka það fram, að ádeilur mínar í þessu efni hafa einungis takmarkazt við það, hvernig n. er skipuð. Þær hafa að vísu verið harðar, en vegna þess, hve pólitískt er á þessu máli tekið, þá vil ég nota þetta tækifæri, — af því að því er haldið fram í dagblaði forsrh., að ég hafi vefengt, að þau verkefni, sem n. eru ætluð, þyrfti rannsóknar við —, til að leggja áherzlu á það, að þessu hefi ég aldrei haldið fram. Vitanlega þurfa þessi mál rannsóknar, en alls ekki með því markmiði, sem atvmrh. lýsti. — En hvað annars viðvíkur þessu viðbragði, sem forsrh. tók í þessu máli og það hversu hann flýtti sér að reyna að þvo Framsóknarflokkinn, ég held næstum því hreinan af öllu makki við sósíalista, þá er það í mestan máta broslegt. Það þarf ekki annað en benda á reynslu undanfarandi ára, t. d. frá 1927—1931, þegar sá flokkur, sem forsrh. tilheyrir, stjórnaði hér með stuðningi sósíalista, var reynslan sú, að framsóknarmenn á Alþ. urðu að beygja sig svo að segja í einu og öllu að vilja sósíalistanna hér á þingi, og því þarf engan að undra, þótt nú, þegar sósíalistar eiga einn sinn hæfasta mann í ríkisstj. og hafa auk þess miklu styrkari aðstöðu á þingi en á því árabili, sem ég nefndi, verði Framsóknarfl. að dansa eftir sömu pípu og það m. a. s. hálfu liprar nú en áður, og var þó svo þá, að mörgum bóndanum var nóg boðið.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja frekar umr. um þetta mál. Ég sé, að hæstv. forseti er viðbúinn að stytta þær, enda mun nú vera úttalað um málið. En ég þurfti að benda á, að það var ekki yfirlýsing mín, sem hæstv. forsrh. þurfti að mótmæla. Yfirlýsingin var komin annarsstaðar frá.